Fjarnám og fjarkennsla

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:35:42 (3234)

1999-02-03 14:35:42# 123. lþ. 58.8 fundur 268. mál: #A fjarnám og fjarkennsla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Undanfarin missiri og ár hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu um þá miklu möguleika sem hafa skapast samhliða þeirri fjarskiptabyltingu sem verið hefur. Ljóst er að þessi þróun er mjög ör og við eigum eftir að sjá margvísleg tækifæri skapast til alls kyns samskipta og upplýsingamiðlunar í fjarskiptum um netið.

Nú þegar hafa möguleikar til fjarnáms og fjarkennslu verið hagnýttir af mörgum aðilum og það hefur skapað mörgum einstaklingum tækifæri til mennta og atvinnusköpunar víða um landið. Þannig hefur fjarskiptatæknin að mörgu leyti gert vegalengdir að engu og því má segja að um byltingu sé að ræða, byltingu sem vekur okkur m.a. vonir um að hagnýta megi þessa tækni með það að markmiði að snúa við þeirri ógnvænlegu þróun sem verið hefur varðandi búsetu í landinu því að auknir möguleikar til menntunar og margvísleg ný atvinnutækifæri skipta þar miklu máli.

Í ljósi alls þessa hlýtur okkur að vera ljóst mikilvægi þess að mótuð sé stefna í þessum efnum sem tekur mið af því að hagnýta þá möguleika sem fjarskiptatæknin gefur til þess að auka menntastig þjóðarinnar og gefa sem flestum tækifæri til að styrkja stöðu sína í þjóðfélaginu með aukinni menntun og auknum atvinnutækifærum.

Í því skyni að halda uppi umræðum um þetta áhugaverða efni á hv. Alþingi og að ræða stefnumótun í málaflokknum hef ég lagt fram eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh. Fsp. er á þskj. 306 og hljóðar svo:

,,Hver er stefna menntamálaráðuneytisins varðandi eflingu og uppbyggingu fjarnáms og fjarkennslu á Íslandi?

Hver er stefna ráðuneytisins varðandi uppbyggingu og skipulag símenntunar á Íslandi?``

Herra forseti. Töluverður tími er liðinn síðan þessi fsp. var lögð fram í Alþingi en það var síðla á haustþingi. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hefur ýmislegt komið fram er varðar stefnumótun og þróun þessara mála. Engu að síður tel ég mikilvægt að taka þetta mál upp til umræðu hér, efnið er áhugavert og margt er að gerast á þessu sviði sem áhugavert er að ræða við hæstv. menntmrh.