Fjarnám og fjarkennsla

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:46:12 (3238)

1999-02-03 14:46:12# 123. lþ. 58.8 fundur 268. mál: #A fjarnám og fjarkennsla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:46]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Magnúsar Árna Magnússonar varðandi þá möguleika sem við Íslendingar eigum og getum átt á þessu sviði. Ég tók eftir því í máli hæstv. ráðherra hér áðan að hann nefndi að Verkmenntaskólinn á Akureyri hefði verið brautryðjandi í fjarkennslu hér á landi en nú væri því tilraunatímabili að ljúka og þróunin yrði sú að skólar sem skipulegðu eða sæju um fjarkennslu á framhaldsskólastigi yrðu fleiri. Fróðlegt væri að heyra aðeins meira um þetta, hvað það er sem ráðherrann er að tala um. Telur hann að það sé þörf fyrir fleiri, að samkeppni þurfi í þessum málum? Hversu margir þurfa þessir skólar þá að vera? Eins og hér hefur margoft komið fram er fjarlægðin upphafin af þessari tækni og þess vegna kannski ekki nauðsynlegt að vera með húsin mjög víða. Einnig væri áhugavert að vita, vegna þess að þetta er auðvitað stórkostlegt tæki til að jafna aðstöðu til náms, hvort í alvöru hafi verið hugað að þeim grunnskólum sem gætu tekið að sér að vera miðstöðvar fyrir fjarkennslu á því stigi.