Fjarnám og fjarkennsla

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:47:31 (3239)

1999-02-03 14:47:31# 123. lþ. 58.8 fundur 268. mál: #A fjarnám og fjarkennsla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans við þeirri fyrirspurn sem ég bar fram. Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra og hv. þm. þekkja, að í fjárlögum kemur einmitt fram sú áhersla sem stjórnarflokkarnir og Alþingi leggja á þennan málaflokk. Þar kom til sérstök fjárveiting til þess að hagnýta þessa möguleika. Einnig liggur fyrir að hér er mótuð stefna í þessum málum sem hæstv. ráðherra kynnti og sannarlega hefur verið unnið eftir henni eins og fram kom. Víða í þjóðfélaginu er mikill áhugi hjá fjölmörgum aðilum til að hagnýta þá tækni sem við erum hér að ræða um og þá möguleika sem eru sífellt að opnast. Nánast daglega opnast nýir möguleikar á þessu sviði. Fjölmargir skólar, t.d. á háskólastigi hafa nýtt sér þessa möguleika og bjóða upp á fjarnám nú þegar. Það kemur auðvitað til góða þeim fjölda sem hefur áhuga og þörf fyrir að stunda nám því ekki eiga allir þess kost að setjast á skólabekk eins og við þekkjum. Við verðum að hafa vakandi auga með þeim möguleikum sem sífellt eru að opnast og hagnýta þá. Ég legg áherslu á hlut landsbyggðarinnar í þessum efnum. Það er ljóst að þessi málaflokkur skiptir gífurlega miklu máli fyrir fólk úti um allt land og auðvitað ánægjulegt að þessir möguleikar skuli vera fyrir hendi. Ég vil að lokum hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum. Hann er eins og þjóðin veit mikill áhugamaður um netmál og ég þykist vita að hann muni ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.