Námskrárgerð

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:51:58 (3241)

1999-02-03 14:51:58# 123. lþ. 58.9 fundur 318. mál: #A námskrárgerð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa verið endurskoðaðar námskrár bæði fyrir framhaldsskóla og grunnskóla og nýjar námskrár áttu að liggja fyrir á árinu 1998. Ég hygg að þær séu ekki fram komnar enn þó komið sé árið 1999. Ég legg því fyrir ráðherra svohljóðandi spurningu:

,,Hvernig miðar gerð nýrra námskráa fyrir framhaldsskóla og hvenær er gert ráð fyrir að þær taki gildi?``

Í öðru lagi hefur í tengslum við námskrárgerðina og í umræðum um skólamál á liðnum árum einnig komið fram að rétt væri að stytta framhaldsskólann í þrjú ár. Um það virðist vera breið pólitísk samstaða. Ég hef því beint eftirfarandi spurningu til hæstv. menntmrh.:

,,Er miðað við styttingu framhaldsskólans í þrjú ár við gerð nýrra námskráa?``

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort lagt hafi verið mat á hvernig kostnaður við rekstur framhaldsskóla breyttist við styttingu skólans í þrjú ár og ef búið væri að leggja slíkt mat, hver væri þá meginniðurstaðan. Það er ljóst að fjárhagsstaða framhaldsskólanna hlýtur að breytast töluvert ef þeir verða styttir sem þessu nemur. Kennurum hlýtur að fækka og öll staða skólanna gæti auðvitað gjörbreyst, ekki síst ef skólarnir fengju að nýta það svigrúm sem þannig myndaðist til að bæta skólastarfið, t.d. til að efla starfsnám og símenntun, þar sem skórinn virðist helst kreppa. Það mætti líka hugsa sér að nýta hluta þessa fjármagns til að auka jafnrétti á ýmsum sviðum náms.

Auðvitað hljótum við öll að spyrja hvort sá sparnaður sem hlytist af styttingu skólans fengi að nýtast íslenska framhaldsskólanum áfram eða hvort hann færi út úr framhaldsskólanum. Þessar spurningar um námskrárgerð eru búnar að liggja fyrir frá því fyrir áramót og ég vænti þess að ráðherra geti upplýst okkur um námskrárgerð fyrir framhaldsskóla, um hvenær þær eigi að liggja fyrir og um þetta stóra atriði sem þar skiptir miklu.