Námskrárgerð

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:59:59 (3244)

1999-02-03 14:59:59# 123. lþ. 58.9 fundur 318. mál: #A námskrárgerð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir þessu á síðasta þingi þegar nýja skólastefnan var til umræðu því þar var það einmitt lagt til grundvallar að ekki yrði gengið til þess verks samtímis að setja nýju námskrárnar og stytta framhaldsskólann úr fjórum árum í þrjú ár. En það hefur verið haft sem markmið við alla námskrárgerðina að þetta sé unnt og námskrárnar taka mið af því að unnt sé að laga þær að þessum kröfum. Námskrárnar verða þannig uppbyggðar að markmiðin og árangurskröfurnar verða skýrari en nú er þannig að ég dreg ekki í efa að unnt verði að gera þetta á grundvelli nýju námskránna án þess að inntakið í náminu raskist eða breytist. Þetta er fyrst og fremst skipulagsatriði sem menn þurfa að gefa sér góðan tíma til að undirbúa og átta sig á einstökum þáttum í málinu, eins og hv. þm. fjallaði um.

Að því er grunnskólann varðar þá sé ég nú ekki að það breyti í sjálfu sér námskrá grunnskólanna að menn setji sér það markmið varðandi framhaldsskólann. Það hefur einnig, eins og við vitum, verið samfella í námskrárvinnunni frá grunnskóla upp í framhaldsskóla þannig að allir hafa vitað af því að þetta væri eitt af markmiðunum sem bæri að hafa að leiðarljósi þegar námskráin er endurskoðuð.

En þetta mál verður vafalaust rætt á hv. Alþingi síðar og menn þurfa að taka afstöðu til þess. Nú þegar útskrifa sumir skólar að sjálfsögðu nemendur með stúdentspróf á þremur árum og þeim mun fjölga. Menntmrn. hefur t.d. þegar gefið Menntaskólanum við Hamrahlíð heimild til að útskrifa nemendur með svokallað IB-próf, stúdentspróf sem er þriggja ára nám. Það er því unnt að ljúka stúdentsprófi hér á þremur árum. Duglegir nemendur geta gert það á svo skömmum tíma en einnig er námið skipulagt þannig, t.d. í Menntaskólanum við Hamrahlíð þegar menn líta á IB-námið þar.