Kennsla í íslensku

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:13:26 (3250)

1999-02-03 15:13:26# 123. lþ. 58.11 fundur 416. mál: #A kennsla í íslensku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja fsp. til hæstv. menntmrh. sem er á þessa leið:

,,Hvaða ráðstafanir gerir menntamálaráðuneytið til að tryggja erlendu verkafólki hér á landi kennslu í íslensku?``

Ástæðan fyrir þessari fsp. liggur í augum uppi. Það þekkja allir þingmenn sem hafa fylgst með þróun atvinnulífs á Íslandi í seinni tíð að vaxandi fjöldi fólks sem starfar í fiskvinnslu hér á landi er af erlendum uppruna. Fyrir liggur fsp. sem kemur fyrir síðar á fundinum þar sem beðið er um upplýsingar um fjölda þessa fólks. Hér er um að ræða vaxandi fjölda fólks og það fer ekkert á milli mála að þetta fólk, þessir mikilvægu starfsmenn íslenska atvinnulífsins búa við önnur og lakari mannréttindi að mörgu leyti en aðrir mundu nokkurn tíma sætta sig við. Aðstaðan sem þessu fólki er búin, t.d. í verbúðum, að því er varðar húsnæði er allt önnur en annað verkafólk í fiskvinnslu t.d. mundi sætta sig við. Þegar við komum í heimsóknir í fiskvinnslufyrirtæki víðs vegar á landinu þá tökum við eftir því að í kaffitímum og matartímum er þetta fólk sér, það blandar ekki geði við aðra vegna þess m.a. að það skortir færni í tungumálum. Í raun og veru hefur sorglega lítið verið gert í þessu efni. Sveitarfélögin hefðu auðvitað sums staðar gjarnan mátt grípa til einhverra ráðstafana, en þau hafa ekki gert það. Stundum hefur verið gripið til þess að einstaklingar hafa í sjálfboðavinnu efnt til kennslu í íslensku fyrir þetta fólk. Á Tálknafirði kynntist ég því t.d. fyrir nokkrum mánuðum að fullorðin kona á staðnum, Þórunn Magnúsdóttir, tók sig til og reyndi að kenna þessu fólki íslensku. En það skorti allt sem til þurfti, m.a. nauðsynlegar orðabækur og kennslubækur, þó að loksins liggi fyrir orðabók í pólsku sem er mikilvægt hjálpartæki í þessu sambandi.

Mér er alveg ljóst að málið er flókið og viðamikið en ég tel að eins og staðan er í dag sé ekki hægt að segja að þessu fólki séu tryggð lágmarksmannréttindi á Íslandi. Fólk verður að geta tjáð sig og tekið þátt í umhverfi sínu, m.a. til þess að fara yfir kjör sín, forsendur kaups og kjarasamninga og fleira. Þetta fólk getur það ekki eins og staðan er í dag.

Þess vegna hef ég leyft mér að koma þessu máli inn í þingið með því að bera fram þessa litlu fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um leið og mér er ljóst að aðrar stofnanir og önnur ráðuneyti en menntmrn. hljóta einnig að koma að þessu máli.