Kennsla í íslensku

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:19:05 (3252)

1999-02-03 15:19:05# 123. lþ. 58.11 fundur 416. mál: #A kennsla í íslensku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég er eftir atvikum sáttur við þessi svör. Það er greinilega verið að þoka þessum málum áleiðis. Það er auðvitað í samræmi við stjórnarskrárákvæðin um mannréttindi eins og segir í 65. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Ég tel að það sé mjög mikilvægt að unnið sé rösklega að þessu máli. Það er alveg ljóst að hugmyndir eru uppi um hvernig á að fara í málin. En það hefur ekki náðst samkomulag um það enn þá hverjir eiga að bera kostnaðinn. Ég held að þar séu aðilar eins og þeir sem hér hafa aðeins verið nefndir. Það eru t.d. atvinnurekendur sem eru í raun að leita eftir atvinnuleyfum fyrir margt af þessu fólki. En auðvitað er það líka ríkið og sveitarfélögin. Ég tel að það sé kannski næsta verkefni að setjast yfir það hverjir það verða sem bera kostnaðinn af því að þessu fólki verði kennd íslenska þannig að það geti á virkan hátt tekið þátt í íslenska þjóðfélaginu.

Það eru liðlega 50 ár síðan mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og ég tel hægt að halda því fram að brotalöm sé á framkvæmd mannréttindayfirlýsingarinnar á Íslandi meðan þessi mál eru ekki í almennilegu lagi að því er varðar íslenskukennslu fyrir erlent verkafólk hér á landi. Þess vegna taldi ég ástæðu til að koma þessu máli hér á dagskrá og þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. En það er greinilegt að á fleiri sviðum þarf að knýja á um að málinu verði fylgt eftir og að reynt verði að taka sameiginlega á í nokkrum ráðuneytum. Ég tel að það væri rakið verkefni fyrir þingið t.d. að samþykkja að kosin yrði sérstök nefnd til að fara yfir réttindi útlendinga og skyldur okkar við þá við þær aðstæður sem þeir búa við hér á landi.