Rannsóknir á rjúpnastofninum á Suðvesturlandi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:01:58 (3269)

1999-02-03 16:01:58# 123. lþ. 58.15 fundur 307. mál: #A rannsóknir á rjúpnastofninum á Suðvesturlandi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:01]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Árið 1994 setti þáv. umhvrh., Össur Skarphéðinsson, það ákvæði í lög í góðu samráði við veiðimenn að innheimta mætti sérstakt veiðikortagjald af veiðimönnum villtra fugla og dýra í landinu. Þeim tekjum sem mynduðust af innheimtu þessa gjalds átti að verja til rannsókna á villtum fuglum og dýrum og til að standa straum af kostnaði við innheimtu veiðkortagjaldsins. Tekjur af þessu gjaldi hafa numið árlega frá 1995 um 17 millj. kr. og hafa þær í grófum dráttum skipst þannig að 4,5 millj. kr. renna til að reka innheimtukerfið og afgangurinn fer til rannsókna, m.a. til að greiða laun fuglafræðings Náttúrufræðistofnunar, um 2 millj. kr. á ári.

Við setningu villidýralaganna var gert það munnlega samkomulag við veiðimenn að umhvrn. legði á móti veiðikortagjaldinu 4--5 millj. kr., sem áttu að renna til rannsókna á rjúpnastofninum. Við þetta samkomulag hefur ekki verið staðið og eru afleiðingarnar þær að til rjúpnarannsókna einna rennur óveruleg upphæð, eða 4,5 millj. kr., og er þá eftir að taka tillit til launa fuglafræðings Náttúrufræðistofnunar sem tekin eru af framlagi Veiðikortasjóðsins til rjúpnarannsóknanna.

Herra forseti. Það hefur komið fram á þeim tveim árum sem rjúpnastofninn hefur verið rannsakaður á Suðvesturlandi að hann er undir miklu veiðiálagi og þrátt fyrir að hann fari vaxandi á Norður- og Austurlandi þá fækkar í stofninum á Suðvesturlandi. Þau sjónarmið hafa því komið fram að banna eða draga verulega úr rjúpnaveiði á Suðvesturlandi. Þessi sjónarmið eru eðlileg og verða alltaf uppi á meðan rannsóknir eru ekki meiri en raun ber vitni og tilfinningar frekar en vísindaleg rök munu því ráða ferðinni um veiðar í stofna villtra fugla og dýra.

Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna á óyggjandi hátt að rjúpan er mjög staðbundinn fugl. Rannsóknir á Suðvesturlandi hafa einnig sýnt að afföll rjúpu í Úlfarsfelli við Mosfellsbæ eru of mikil. Sambærileg afföll eru þó einnig á stað eins og á Kvískerjum í Öræfum á Suðausturlandi, þar sem algjör friðun rjúpunnar hefur þó ríkt í háa herrans tíð. En þó svo að um ofveiði sé að ræða í Úlfarsfelli þá er ekki þar með sagt að ofveiði sé á öllu Suðvesturlandi enda talning aðeins á tveim stöðum á öllu svæðinu, þ.e. í Úlfarsfelli og á Lyngdalsheiði.

Til að tryggja eðlilegt eftirlit og ráðgjöf með rjúpnastofninum er nauðsynlegt að grípa til viðameiri rannsókna er nú eru stundaðar á rjúpnastofninum um landið. Það sem brýnast er að gera er m.a. að fjölga talningarstöðum á Suðvesturlandi. Slíkri talningu ber einnig að koma upp á Vestfjörðum. Það vantar einnig samanburðarrannsóknir með radíósendum á Eyjafjarðarsvæðinu, samanborið við t.d. Úlfarsfell, til að geta áttað sig nákvæmar en hingað til á því hve veiðar eru stór þáttur í afföllum víðar um landið.

Einnig ber að kanna hvers vegna afföllin eru svo mikil í Kvískerjum þrátt fyrir algjöra friðun miðað við t.d. Úlfarsfell. Það eru því mörg verkefni sem þarf að grípa til nú þegar, herra forseti, og telja kunnugir að ekki þurfi minna en 6 millj. kr. til þess að ljúka þeim verkefnum. Þess vegna hef ég lagt fram þær fsp. sem hér liggja frammi til hæstv. umhvrh.