Rannsóknir á rjúpnastofninum á Suðvesturlandi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:11:46 (3272)

1999-02-03 16:11:46# 123. lþ. 58.15 fundur 307. mál: #A rannsóknir á rjúpnastofninum á Suðvesturlandi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Það er mat manna að mjög nauðsynlegt sé að auka rannsóknir sérstaklega á Suðvesturlandi vegna þess mikla veiðiálags sem þar er og þess fjölda veiðimanna sem kemur frá því svæði. Það hlýtur því að teljast óviðunandi þegar einungis er gert ráð fyrir að 4,5 millj. kr. renni úr Veiðikortasjóði þegar það var handsalað á milli veiðimanna og umhvrn. á sínum tíma að þegar veiðikortagjaldið yrði lagt á þá mundi ráðuneytið leggja til viðbótar við Veiðikortasjóðinn 4--5 millj. kr. sem rynnu sérstaklega til rannsókna á rjúpa, fyrir utan það sem kæmi úr Veiðikortasjóðnum sjálfum til þessara rannsókna.

Þær 4,5 millj. sem koma úr Veiðikortasjóðnum í dag renna að hluta til að greiða laun fuglafræðings Náttúrufræðistofnunar Íslands þannig að eftir standa einungis 2 millj. eða svo til rjúpnarannasóknanna sjálfra. Þess vegna getum við ekki sagt að varið sé verulegu fé af þessari upphæð. Sú upphæð er sífellt að dreifast á fleiri og fleiri verkefni.

Ég vil bara minna á það, hæstv. ráðherra, að veiðimenn hafa með mjög ábyrgum hætti tekið á þessum málum, þ.e. rannsóknum og veiðum á villtum fuglum og dýrum, og vilja ganga um þetta með varkárni. Þess vegna hef ég orðið fyrir vonbrigðum með að uppgötva það að af hálfu ráðuneytisins hefur ekki verið staðið við það sem um var talað. Það eru náttúrlega margar ráðstafanir sem má gera til þess að draga úr veiði aðrar en beinlínis að banna veiðar. M.a. er hægt að banna sölu t.d. á villtum fuglum í verslunum, og draga þar með úr veiðinni. Við vitum, herra forseti, að 50% af allri veiðinni er einungis af völdum 10% veiðimanna. Það er því hægt að grípa til margra ráðstafana.