Rannsóknir á rjúpnastofninum á Suðvesturlandi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:14:11 (3273)

1999-02-03 16:14:11# 123. lþ. 58.15 fundur 307. mál: #A rannsóknir á rjúpnastofninum á Suðvesturlandi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka undir það með hv. fyrirspyrjanda og undirstrika það að veiðimenn og félagar í Skotveiðifélagi Íslands hafa sýnt mikinn áhuga á þessum málum og góða samvinnu við ráðuneytið og umhverfisyfirvöld. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir það góða samstarf sem ég hef átt við þann hóp manna sem hafa sýnt ábyrgð í framgöngu og mikinn vilja til þess að standa vel að málum.

Kannski var það aðeins óljóst í svari mínu áðan, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á, að ég sagði í lokin að Veiðikortasjóður gæfi af sér um 11 millj. kr. Það er nettótalan sem færi til úthlutunar til rannsókna. En heildarinnheimtan, eins og kom fram áður, er 16--17 millj. kr., fór hæst í 19. Kostnaður hefur hins vegar verið mikill við umsýslu og útgáfu veiðikortanna og innheimtu og allt það umstang, 5--6 millj. kr. á ári. Ég hef gert athugasemdir við það og beðið um að skoðað yrði hvort hægt væri að vinna þetta á hagkvæmari eða ódýrari hátt. Jafnvel hafa verið uppi hugmyndir um að bjóða þetta verkefni hreinlega út. Það er í dag á verkefnasviði veiðistjóra að annast þessa framkvæmd en þau mál má skoða frekar.

Ég verð að játa að ég man ekki eftir að mér hafi verið gerð grein fyrir því að gert hafi verið eitthvert sérstakt samkomulag um viðbótarfé sem gæti numið kannski allt að sömu upphæð og kemur úr sjóðnum, allt að 4--5 millj. króna til að leggja í þessar rannsóknir. En eins og ég sagði áðan væri ábyggilega æskilegt að fjármunirnir væru hærri en þeir sem koma úr sjóðnum. Ég minni aftur á að rjúpnarannsóknirnar hafa fengið verulegan hluta af þessu fjármagni, 4--5 millj. af 11--12 millj. kr. í þessar rannsóknir sérstaklega, og ráðuneytið hefur beint því til Náttúrufræðistofnunar núna að sérstaklega verði rannsóknum beint að þessu svæði sem hv. fyrirspyrjandi hefur talað um og áleitnar fyrirspurnir komu einmitt upp um í haust og nauðsynlegt að gera það sem hægt er til að fylgja því eftir.