Mengunaráhrif af notkun nagladekkja og harðkornadekkja

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:18:11 (3275)

1999-02-03 16:18:11# 123. lþ. 58.16 fundur 325. mál: #A mengunaráhrif af notkun nagladekkja og harðkornadekkja# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:18]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Sem svar við þessari fyrirspurn er rétt að taka fram og játa það að á vegum umhvrn., Hollustuverndar ríkisins eða annarra aðila hér á landi hefur ekki svo okkur sé kunnugt um farið fram sérstök úttekt á áhrifum nagladekkja eða harðkornadekkja með tilliti til loftmengunar. Loftmengunarmælingar í Reykjavík á vegum Hollustuverndar ríkisins benda þó til þess að áhrifin af völdum nagladekkja séu veruleg. Loftgæði í Reykjavík eru þannig að allt útlit er fyrir að farið verði yfir ný mörk fyrir ryk í andrúmslofti sem Evrópusambandið hefur gert tillögur um og væntanlega verður endanlega samþykkt á næstunni, en niðurstöður mælinga í dag eru talsvert yfir þessum nýju mörkum. Þessi umhverfismörk eru sett með stoð í rammatilskipuninni um loftgæði sem nú er orðin hluti af EES-samningnum og við þar með aðilar að.

Hollustuvernd ríkisins er þeirrar skoðunar að ein meginástæða þess að loftgæði í Reykjavík uppfylli ekki þessi nýju mörk sé almenn notkun nagladekkja að vetrarlagi. Aldrei hefur þó verið metið hversu stór hluti rykmengunarinnar er til kominn vegna nagladekkja þannig að þessi skoðun styðst ekki við tölulegar upplýsingar heldur aðeins hugmyndir og álit. Með hliðsjón af ofansögðu hlýtur það að verða eitt af forgangsverkefnum næstu ára að meta hve mikill hluti rykmengunar er til kominn vegna nagladekkja. Ef skoðun Hollustuverndar reynist rétt verður í framhaldi af því að leita leiða til að draga úr rykmengun af þessum völdum.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort áhrif harðkornadekkja á loftmengun séu minni en hefðbundinna nagladekkja. Fullyrt hefur verið að þau slíti götum mun minna og valdi þar af leiðandi minni loftmengun. Hollustuverndin hefur ekki tölulegar upplýsingar sem styðja þessa fullyrðingu en út frá mismunandi gerð dekkja er ekki óeðlilegt að álykta í þessa átt. Spurningar vakna hins vegar um áhrif harðkornadekkjanna sjálfra þegar þau eru losuð út í umhverfið og enn fremur hvort harðkornin í dekkjunum auki slit þeirra og umhverfisáhrif þess vegna, þ.e. vegna meiri losunar úr dekkjunum sjálfum. Einnig vakna hugmyndir eins og sú sem kom fram í þeirri athugasemd sem hv. fyrirspyrjandi beindi til mín um að slík dekk yrðu e.t.v. í notkun allt árið. Það er e.t.v erfiðara að fylgjast með því en nagladekkjunum.

Hér skal ekki fullyrt neitt um að þessi þættir valdi neikvæðum umhverfisáhrifum, einungis að þörf sé á að kanna málin. Að framansögðu er ljóst að mikilvægt er að gera verður átak í að kanna aðra kosti sem komið geti í stað nagladekkja og valda minni loftmengun. Í því sambandi skal bent á að fleira þarf þó að kanna en hefðbundin nagladekk og harðkornadekk, svo sem loftbóludekk sem hafa verið nefnd og nagladekk sem eru ekki með hefðbundnum nöglum heldur fjaðrandi eða úr veikari málmi.

Það má skjóta því hér inn að ráðuneytið hefur, þótt í smáum stíl sé, stutt nokkuð við rannsóknir og tilraunir á því sviði. Einn ákveðinn einstaklingur, Einar Einarsson að nafni, hefur farið fram með miklu kappi og miklum áhuga við að rannsaka þessi mál og gera tilraunir í þessu efni. Ráðuneytið hefur örlítið reynt að styðja við bakið á þeim athugunum.

Hollustuvernd ríkisins hefur málið nú til skoðunar. Hins vegar er ljóst að eigi að fara fram sérstök athugun á þessu þá kallar það á viðbótarfjármuni sem hvorki eru til í ráðuneytinu né í Hollustuvernd ríkisins. Fram að þessu hefur verið fullhart að sækja þær fjárveitingar sem nauðsynlegar hafa verið til að Hollustuverndin geti uppfyllt þau verkefni öll sem á hana hafa hlaðist á undanförnum árum, m.a. í tengslum við EES-samninginn. Hér gæti vissulega verið eitt verkefnið enn sem Hollustuvernd ber að fylgja eftir og sjá um og auðvitað er nauðsynlegt að reyna að tryggja að hún hafi möguleika til að framfylgja þessu eftirlitshlutverki sínu.