Mengunaráhrif af notkun nagladekkja og harðkornadekkja

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:22:09 (3276)

1999-02-03 16:22:09# 123. lþ. 58.16 fundur 325. mál: #A mengunaráhrif af notkun nagladekkja og harðkornadekkja# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir hans greinargóðu svör og þær hugmyndir sem fram koma í svari hans um hvað framtíðin ber í skauti sér. Síðustu vetur hefur ekki verið snjóþungt í höfuðborginni. Það leiðir hugann að því hvort nagladekkjanotkun sé í nokkru samræmi við aðstæður á aðalakstursleiðum borgarinnar. Yfirleitt er almennt búið að salta allar þær götur sem strætisvagnar aka mjög snemma á morgnanana og ef fólk er ekki á förum út úr borginni um helgar eða að kvöldi til þá er það orðið umhugsunarefni hve mikil nagladekkjanotkunin er orðin hér. Eitt er hins vegar áhyggjuefni í þessu og það eru ákvæði tryggingafélaganna sem nánast gera þá kröfu að allir bílar skuli vera á negldum dekkjum eða harðkornadekkjum. Ef bifreiðar án þessa búnaðar lenda í tjóni hafa tryggingafélögin talið að þau væru ekki skaðabótaskyld heldur eigandi bifreiðarinnar sem þá væri vanbúinn til vetraraksturs og þá giltu ekki almennar tryggingar um þetta mál. Það er mjög umhugsunarvert hvort ekki þurfi að skoða þessa samverkandi þætti sem eiginlega hvetja til þess að fólk setji nagladekkin undir kannski allt of snemma og fyrr en þurfa þykir og aki svo á þeim allan veturinn þar sem lítill sem enginn snjór er eða hefur verið. Þetta er ábending til hæstv. ráðherra um að skoða málið frekar.