Fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:33:40 (3280)

1999-02-03 16:33:40# 123. lþ. 58.17 fundur 349. mál: #A fæðingarorlof karla í ríkisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:33]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. Þetta mál þarf að taka heildstætt til skoðunar. Hins vegar er ég á því að það atriði sem ég nefndi sé hægt að leiðrétta þegar í stað.

Málið snýst um þetta: Ef faðir sem er kvæntur konu sem einnig er ríkisstarfsmaður fer í fæðingarorlof, þá glatar hann ekki launum sínum. Þá býr hann við sömu kjör og konan hvað þetta snertir. Ef eiginkonan er hins vegar starfandi á almennum vinnumarkaði þá verður hann fyrir tekjuskerðingu, fær greiðslur frá Tryggingastofnun eins og gerist á almennum vinnumarkaði. Þetta eru hlutir sem ég tel að hægt sé að laga.

Ég mjög ríka áherslu á að þessi löggjöf og þeir samningar sem gilda um þetta, ég legg áherslu á samninga í því sambandi, verði teknir til heildstæðrar skoðunar. Þar er ég á sama máli og hv. þm. sem talaði hér á undan mér. Lausnin hlýtur að vera sú að við myndum sjóð sem allir launagreiðendur greiði í, sem fjármagni síðan greiðslur í fæðingarorlofi. Þar væri byggt á þeirri meginhugsun að foreldrar verði ekki fyrir tekjuskerðingu meðan á fæðingarorlofi stendur.