Fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:46:51 (3284)

1999-02-03 16:46:51# 123. lþ. 58.18 fundur 427. mál: #A fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:46]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa frumkvæði að þessu máli og hæstv. ráðherra fyrir afar greinargóð svör. Hér er vissulega hreyft við mjög stóru máli því staðan er sú að býsna hátt hlutfall starfsfólks í til að mynda fiskvinnslu er af erlendu bergi brotið og það er farið að setja verulegt mark sitt, bæði á atvinnugreinina og ekki síður á stöðuna í ýmsum byggðarlögum þar sem svo háttar til. Nú vil ég taka alveg sérstaklega fram að ég tel að þetta fólk sé afar velkomið og að koma þess hafi mjög verið af hinu góða. Hins vegar er ljóst að bregðast verður við þessari stöðu. Það verður að auðvelda þessu fólki aðlögun að íslensku þjóðfélagi og tryggja að aðlögunin gangi sem best fyrir sig. Þannig hefur það að vísu verið en það er að mínu mati orðið meira knýjandi núna að gera það en nokkru sinni fyrr. Þess vegna vil ég í þessu sambandi sérstaklega vekja athygli á því að nú rétt í þessu var verið að dreifa till. til þál. sem við þingmenn Vestfirðinga flytjum um stofnun sérstakrar nýbúamiðstöðvar á Vestfjörðum sem á einmitt að hafa það hlutverk að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi. Í þessu sambandi hlýt ég að vekja athygli á því að samkvæmt nýjustu tiltækum tölum frá Hagstofu Íslands, þá eru um 5% íbúa á Vestfjörðum með erlent ríkisfang. Við sjáum því af þessu að hér er um að ræða mál sem við þurfum eðlilega að taka föstum tökum til að auðvelda þessa aðlögun og gera því góða fólki sem hingað hefur flutt sem auðveldast að aðlaga sig íslenskum aðstæðum.