Fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:48:41 (3285)

1999-02-03 16:48:41# 123. lþ. 58.18 fundur 427. mál: #A fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:48]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tek undir þakkir til fyrirspyrjanda. Þannig var að sjútvn. var á ferð um Vestfirði skömmu fyrir jól. Þá varð hún einmitt áþreifanlega vör við þennan vanda sem við blasir í samskiptum milli Íslendinga og þess erlenda verkafólks sem hingað er komið til að vinna í fiski. Ég veit ekki hvort þáltill. sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gat um gengur út á það að kenna erlendum verkamönnum íslensku, en það er alveg ljóst að mikil nauðsyn er á því. Ég teldi ekki óeðlilegt þótt þrír aðilar kæmu að því verki. Í fyrsta lagi væri það ríkisvaldið, í öðru lagi atvinnurekandinn og í þriðja lagi sveitarfélagið þannig að ákveðinn hluti vinnutímans færi í að læra íslensku því það kom fram í viðtölum við fólk að það hefði hvorki tíma né getu síðla kvölds eftir langan vinnudag til að læra íslensku. Menn hefðu þá ekki mikinn hug á því. En hér er verk að vinna og vandi á ferð sem lausn verður að finna á.