Fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:52:15 (3287)

1999-02-03 16:52:15# 123. lþ. 58.18 fundur 427. mál: #A fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:52]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér kom fram að þetta er geysilega mikilvægur hópur á íslenskum vinnumarkaði. Eftir að vinnuaflsskortur fór að gera vart við sig þá erum við upp á þetta vinnuafl komin til þess að þjóðfélagið gangi. Við höfum reynt að fylgjast með því eins vel og við getum í félmrn. að sæmilega sé komið fram við þetta fólk. Við gerum kröfu um sómasamlegan aðbúnað. Við gerum kröfu um að því sé borgað eftir íslenskum kjarasamningum og að atvinnurekandi ábyrgist að kosta ferðir, bæði hingað til lands og eins til heimalands aftur.

Í undirbúningi er miðstöð nýbúa sem yrði á landsvísu. Í Reykjavík er rekinn vísir að slíkri starfsemi en við viljum að hún verði á landsvísu.

Alþýðusamband Vestfjarða sýndi það framtak að láta þýða kjarasamningana á pólsku og sótti um styrk til ráðuneytisins til að borga helming kostnaðar og við verðum við því, enda verði þessum samningi dreift til verkalýðsfélaganna þannig að þar sem Pólverjar eru í vinnu þá eigi þeir kost á að lesa samningana á sínu móðurmáli.

Jöfnunarsjóður greiðir núorðið framlög vegna nýbúabarna, bæði í leikskólum og grunnskólum. Þess má geta að tvítyngd börn eru býsna mörg í skólakerfinu, t.d. í Laugarbakkaskóla í Miðfirði. Þar eru 10% krakkanna tvítyngd og þurfa náttúrlega umönnun og kennslu sem því nemur.

Og til gamans vil ég geta þess úr því ég er hér staddur, herra forseti, að einn af flóttamönnunum á Höfn í Hornafirði ásamt konu á Hornafirði hefur lagt í það stórvirki að búa til orðabók á serbókróatísku og við komum væntanlega að útgáfu þeirrar bókar þegar hún er tilbúin.