Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 10:58:17 (3292)

1999-02-04 10:58:17# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[10:58]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntrh. fyrir frv. sem hann leggur hér fram. Það er að mörgu leyti ágætt og tekur á mörgum vandamálum sem upp hafa komið í útvarps- og sjónvarpsrekstri undangenginna ára. Hins vegar sakna ég þess að ekki skuli tekið á vandamálum Ríkisútvarpsins sem hefur rekið opinbera menningarstarfsemi hér í landinu í nærfellt 70 ár, sýnist mér. Þar finnst mér mál að linni.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði undanskilið þessum lögum. Í 13. gr. er gert ráð fyrir því að útvarpsstöðvum sé skylt að láta lesa endurgjaldslaust tilkynningar frá Almannavörnum. Öryggismálum, sem mikið hefur verið hampað sem nauðsyn þess að ríkið reki útvarp er vel komið fyrir í þessu frv. Ríkisvaldið og Almannavarnir geta nýtt sér útvarpsstöðvarnar, ef þetta frv. verður að lögum, til þess að lesa tilkynningar.

Því er það spurning mín til hæstv. menntmrh.: Hver eru rökin fyrir því að selja ekki Ríkisútvarpið? Ég hef oft heyrt að öryggismálin séu einu rökin sem eftir standa til að halda því í ríkiseign. Ég spyr jafnframt hvort fyrir liggi tímaáætlun, í menntmrn. eða hjá menntmrh. sjálfum, um að stíga það skref að selja Ríkisútvarpið.