Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 11:03:05 (3295)

1999-02-04 11:03:05# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[11:03]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst og það er rétt hjá hv. þm. og fyrirspyrjanda að þessar umræður sem fara fram um stöðu ríkisrekinna fjölmiðla lúta einmitt að þeim atriðum sem hv. þm. vék að og það er þetta sem við höfum verið að skoða: Hvernig er staða Ríkisútvarpsins í þessu ljósi miðað við hertar samkeppniskröfur bæði innan lands og á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessum athugunum, þ.e. hinum evrópsku athugunum, skilgreina menn líka hlut ríkisfjölmiðla eins og okkar, sem bæði hafa rétt til þess að innheimta auglýsingatekjur og einnig afnotagjöld. Þar hafa komið fram hugmyndir um að skilgreina rétt þeirra til þess að senda út efni mjög þröngt þannig að þær megi t.d. ekki senda út íþróttir, þær megi ekki senda út það sem kallað er skemmtiefni eða hvernig sem menn skilgreina það o.s.frv., þ.e. að sú leið verði farin. Þetta eru hlutir sem við þurfum að velta fyrir okkur. En eins og ég segi og margtók fram í ræðu minni þá legg ég ekki fram tillögur um breytingar á stöðu Ríkisútvarpsins þannig að hv. þm. er í raun og veru að fjalla um annað mál en þetta frv. snýst um því það snýst um hinar almennu leikreglur fyrir allar útvarpsstöðvar. En það er sérstakt álitamál hvernig á síðan að taka á málefnum Ríkisútvarpsins í ljósi þessara almennu reglna og einnig í ljósi þeirrar þróunar sem er að verða alls staðar í Evrópu og við hljótum að þurfa að taka mið af þegar fram líða stundir.