Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 11:04:51 (3296)

1999-02-04 11:04:51# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[11:04]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á, ég vil segja, einhvers konar villu sem ég sá hérna og gerir það að verkum að skýringar eða athugasemdir við 14. gr. frv. eru í raun og veru óskiljanlegar.

14. gr. fjallar um vernd barna gegn óheimilu efni og ég held að það sé mjög tímabært að það sé hert á þeim ákvæðum sem takmarka það hvaða efni megi senda út á þeim tíma sem börn eru að hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp.

Á bls. 28 í greinargerðinni er fjallað um tilskipun Evrópusambandsins sem þetta ákvæði byggir m.a. á og þar segir um 2. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar, með leyfi forseta:

,,Lagaskyldur í þessu efni eru uppfylltar með ákvæði 233. gr. a í almennum hegningarlögum, ... Í þessu tilvitnaða ákvæði segir að sá skuli sæta nánar tiltekinni refsingu sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar.``

Ég held að þarna hafi hugsanlega eitthvað fallið niður í vinnslu á þessum texta og vildi bara benda á þetta auk þess sem ég átta mig ekki heldur á því að þetta ákvæði hegningarlaganna eigi við um þessa tilskipun. Þetta er svona til ábendingar fyrir þá sem munu vinna úr þessu í hv. menntmn.