Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 11:57:02 (3301)

1999-02-04 11:57:02# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[11:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vildi fá tækifæri til að svara nokkrum spurningum sem fram komu í meðferð málsins. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalegar umræður um þetta mál. Öll þau atriði sem hv. þingmenn hafa nefnt í umræðunum eru að sjálfsögðu álitaefni og spurning er hvernig á að taka á þegar löggjöf af þessu tagi er til umræðu. Tillögur okkar eru skýrar og ég tel að rök séu fyrir þeim öllum, þó að sjálfsögðu megi nálgast málið á mismunandi hátt eins og hv. þm. Svavar Gestsson vakti sérstaklega máls á varðandi 7. gr. og það sem þar stendur um skipulag á dagskrárefni, samanber það sem segir í 2. tölul. hennar, með leyfi forseta:

,,Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.``

Þarna er sett ákveðið markmið um að menn verji meiri hluta útsendingartíma til að sinna íslensku dagskrárefni og síðan öðru dagskrárefni frá Evrópu, en áherslan er lögð á hið íslenska efni. Ég er þeirrar skoðunar að aukin alþjóðleg samkeppni á þessu sviði muni leiða til þess að íslenskar stöðvar munu höfða til íslenskra notenda með því að hafa meira og meira íslenskt efni. Það er þróun alls staðar í heiminum að stöðvar hasla sér völl og höfða til sinna viðskiptavina með því að framleiða efni sem er næst þessum viðskiptavinum og á Íslandi er það að sjálfsögðu íslenskt efni. Galdurinn er hins vegar að búa þannig um hnútana að unnt sé að starfrækja hér öflugar stöðvar sem geta sinnt hinum íslenska markaði með íslensku efni.

Ég vil benda á og svara þar með líka fyrirspurn hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur um 10. gr. og hvernig eigi að skilgreina hana --- þar er sett lágmark 10% af útsendingartíma, eða að 10% af árlegu dagskrárfé skuli varið til evrópskra verka --- að menn eiga að lesa þessa grein með 2. tölul. 7. gr. og skilgreina síðan áherslurnar sem í frv. eru settar í því ljósi. Hins vegar er ég alveg sammála því sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði, að það er ekki á valdi löggjafans eða stjórnvalda að ákveða dagskrá fjölmiðla, hvorki ritmiðla né talmiðla, að unnt sé á hinu háa Alþingi eða í Stjórnarráðinu að taka ákvörðun um það hvernig þessi dagskrá skuli uppbyggð. En það er unnt að setja ákveðin markmið og það er gert í 10. gr. frv. og síðan einnig í 7. gr.

[12:00]

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði einnig um 1. tölul. 7. gr. frv. þar sem segir:

,,Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.`` --- Þetta er meginmarkmiðið. Þarna er þetta einnig sett sem höfuðmarkmið og ber að lesa allar greinar frv. um dagskrárefni frá þessum útgangspunkti, ef ég má orða það svo. En síðan segir: --- ,,Þó skal heimilt, ef sérstaklega stendur á, að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku.``

Þarna er ekki um það að ræða að veita heimildir til þess að vera með beinar útsendingar í einstökum tilvikum frá atburðum þannig að ekki sé allt efni viðstöðulaust þýtt á íslensku heldur er þarna eins og segir í greinargerð um þessa grein, ef ég má lesa, með leyfi virðulegs forseta:

,,Hér er nú lagt til að bætt verði við ákvæði um að þó skuli vera heimilt að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku ef sérstaklega stendur á. Er ákvæði þetta sett til þess að unnt sé að sinna þörfum útlendinga sem hér kunna að dveljast um lengri eða skemmri tíma, og er þá hljóðvarp fyrst og fremst haft í huga. Þykir rétt vegna jafnréttis og tjáningarfrelsis að orða þessa heimild berum orðum í lögum þó að ekki sé gert ráð fyrir ásókn í að reka hér á landi stöðvar til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku. Frá sjónarmiði málverndar er auðvitað aðalatriðið að starfsmenn þeirra útvarpsstöðva sem útvarpa á íslensku tali rétt og vandað mál.``

Það sem er um að ræða er að gefa mönnum t.d. færi á því að þjóna ferðamönnum með því að hafa sérstaka útvarpstíma á ensku eða annað slíkt. Jafnframt er komið inn á það svið sem við hv. þm. ræddum í gær þegar hann varpaði til mín fyrirspurn um íslenskukennslu til útlendinga sem hér dveljast, að verið er að velta fyrir sér að það kunni að vera skynsamlegt að geta haft heimildir til þess að veita leyfi til að senda út á tungumálum nýbúa hér eða annarra sem vinna hér eða eru um skamman tíma til að koma til móts við það sem við ræddum í gær og draga úr líkum á einangrun þessa fólks í íslensku samfélagi. Það eru slíkar heimildir sem við erum að tala um þarna en ekki það að við ætlum almennt að fara að veita leyfi til þess að útvarpsstöðvar hér séu að senda út efni sitt á erlendum tungumálum. Hins vegar er rétt að árétta þá skoðun mína, sem ég setti m.a. fram á málræktarþingi sem haldið var í tengslum við dag íslenskrar tungu í haust, 16. nóvember, sem Íslensk málnefnd stóð fyrir um málfar í fjölmiðlum. Fram kom að full ástæða er til þess að hafa áhyggjur af málfari í fjölmiðlum þó að menn tali þar íslensku og séu að flytja mál sitt á íslensku þó að við séum ekki að auka á vanda hlustenda með því að hafa síðan líka erlendar stöðvar starfandi hér. En við erum með þessu frv. að leggja til að menn hafi heimildir til að koma til móts við þá hópa sem við ræddum hér sérstaklega í gær og eru hér í landinu og við viljum ekki að einangrist í landi okkar heldur getum miðlað til þeirra upplýsingum og fróðleik og jafnframt gefið þeim tækifæri til að njóta þess sem útvarp flytur þótt þeir séu búsettir hér á landi. Slík ákvæði hafa að vísu minna gildi nú en fyrr því að allir sem þekkja til tækninnar vita að mjög auðvelt er að nálgast efni á hvaða tungumáli sem er hvar sem menn eru staddir í heiminum og íslenskt útvarp er raunverulega alheimsútvarp ef menn líta á netið og þau tækifæri sem það gefur til þess að miðla útvarpsefni eins og öðru efni.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, og tel að ég hafi þá svarað fyrirspurnum frá hv. þm. Svavari Gestssyni um þau atriði sem hann lagði höfuðáherslu á í máli sínu að það eru hinar menningarlegu skyldur útvarpsstöðvanna og ég er honum sammála um það. Ég tel hins vegar að hæpið sé að ganga lengra í löggjöf af þessu tagi en hér er gert. Þegar fjallað er um Ríkisútvarpið og skyldur þess og þegar málefni því tengd koma til umræðu, sem er nauðsynlegt að mínu mati, er að sjálfsögðu unnt að gera ríkari kröfur til þeirrar stofnunar en gera á í slíkum almennum lagatexta sem hér er um að ræða.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spurði um hvaða áhrif það hefði varðandi 11. gr. ef menn nýttu andsvarsrétt sinn og hvernig á því yrði tekið ef ekki yrði orðið við, þá bendi ég á 30. gr. þar sem segir:

,,Fari útvarpsstöð ekki að fyrirmælum 9. og 11. gr. og VI. kafla um auglýsingar, fjarsölu og kostun`` o.s.frv. þá er um brot að ræða og síðan er hægt að beita stjórnvaldssektum ef þær sinna ekki þeim skyldum sem á þær eru lagðar.

Varðandi það sem til umræðu kom um kostun, m.a. hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni og einnig um auglýsingar hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, er það sem við erum að gera varðandi kostunina í raun og veru ekki, eins og fram kom réttilega hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, að við séum ekki að taka þar upp ákvæði úr evrópskri löggjöf heldur erum við að halda áfram í gildi ákvæðum sem eru nú þegar í lögum. Það er náttúrlega spurning, eins og hv. þm. vék að, hvernig staðið er að framkvæmd þeirra laga ef mál eru með þeim hætti sem hann lýsti. Þetta hlýtur að verða álitamál þegar nefndin fjallar um þetta, hvort ástæða sé til að hafa slík ákvæði varðandi kostun á fréttum, íþróttafréttum eða veðurfréttum, en við höfum þetta hér, ekki vegna þess að það séu einhverjir afarkostir frá Evrópusambandinu heldur vegna þess að þetta er í landslögum núna eins og kemur fram í greinargerðinni og þar segir: ,,Óheimilt er að kosta fréttaútsendingar og fréttatengt efni, svo sem veðurfréttir og íþróttafréttir.`` Það er þá spurning um það hvernig menn framfylgja þeim lögum eða hafa framfylgt því til þessa miðað við það sem hv. þm. sagði áðan um þetta efni.

Varðandi auglýsingar og auglýsingarof og annað slíkt þá er ítarlega fjallað um það í 17. gr. frv. og hef ég í sjálfu sér ekkert við það að bæta, en að sjálfsögðu, eins og ég sagði, geta menn haft ólíkar skoðanir á þeim málum og mörg viðhorf eru uppi.

Ég vil að því er varðar rekstrarkostnað sinfóníuhljómsveitarinnar við niðurlagningu Menningarsjóðs útvarpsstöðva aðeins taka það fram þannig að menn átti sig á því að sinfóníuhljómsveitin var upphaflega hluti af Ríkisútvarpinu. Hún verður 50 ára á næsta ári þannig að í fimm áratugi hefur það verið svo að afnotagjöld Ríkisútvarpsins taka mið af því að Ríkisútvarpið standi að verulegu leyti undir kostnaði við rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ef þingmenn telja að það beri að breyta þessu, að Ríkisútvarpið hætti að koma að sem einn rekstraraðili sinfóníuhljómsveitarinnar og hverfi þar úr þeim hópi, þá er það breyting varðandi hlutverk Ríkisútvarpsins sem hefur verið í gildi í tæplega 50 ár og þá verða menn einnig að skoða tekjustofna Ríkisútvarpsins með það í huga og þá væntanlega að rýra þá tekjustofna til þess að tryggja sinfóníuhljómsveitinni tekjur, ef sama fyrirkomulag á að vera og þá verða menn að líta til þess. Þess vegna tel ég skynsamlegast fyrir Ríkisútvarpið og hlutverk þess sem menningarstofnunar hér á landi að það eigi áfram aðild að sinfóníuhljómsveitinni og að þeirri reglu verði fylgt áfram meðan ekki er þá gjörbreyting á stöðu Ríkisútvarpsins og afnotagjöldunum að þá renni hluti afnotagjaldanna til að standa undir kostnaði við Sinfóníuhljómsveit Íslands enda tryggi samningar hennar og Ríkisútvarpsins útvarpinu efni bæði í hljóðvarp og sjónvarp. Það hefur verið rætt áður að það sé undarlegt að Ríkisútvarpið, sjónvarp skuli ekki nýta sér betur þau tækifæri sem það hefur til þess að senda frá Sinfóníuhljómsveit Íslands með mjög hagkvæmum kjörum en reynslan sýnir, ef litið er til sjónvarpsáhorfs víða um lönd, að þá eru einmitt tónleikar af því tagi ekki talið síðra sjónvarpsefni en margt annað. Ég vil því ekki taka undir þau orð manna hér að það sé með öllu óeðlilegt að Ríkisútvarpið standi að rekstri sinfóníuhljómsveitarinnar, þannig hefur það verið í hálfa öld og það hefur einnig legið til grundvallar þegar menn ákveða afnotagjöld Ríkisútvarpsins.

Þetta held ég að séu þau aðalatriði sem menn hreyfðu í ágætum ræðum sínum og ætla ég ekki í sjálfu sér að lengja umræðurnar. Ég vil aðeins taka fram varðandi stafræna útvarpið að þessi heimild er sett inn vegna þess að þess hefur ekki orðið vart, hvorki hjá einkaaðilum né hjá Ríkisútvarpinu, að menn séu mikið að hreyfa sig til þess að tileinka sér þessa nýju tækni. Eins og ég gaf til kynna í ræðu minni er kannski ástæða til að ætla að bæði Ríkisútvarpið og Íslenska útvarpsfélagið, sem sitja að VHF-tíðnisviðinu núna, hafi í sjálfu sér kannski ekki mikinn áhuga á því að hrófla við þeirri skipan. Þess vegna taldi ég nauðsynlegt að menntmrh. fengi þessa heimild til að stuðla að því að þessi þróun ætti sér stað hér eins og annars staðar og að sjálfsögðu verður haft samráð við aðila um framvindu málsins. Ég er alveg sannfærður um að þegar hreyfing kemst á málið munu fleiri koma fram og bjóða sig fram og bjóða fram krafta sína en þeir sem nú eru starfandi.

Varðandi ljósleiðarann og breiðbandið sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich vakti máls á vil ég aðeins geta þess að það er ekki síður breyting að verða varðandi gervihnattasendingar og hér má nú þegar ná stafrænum gervihnattasendingum. Ég hef ritað útvarpsstjóra bréf og farið þess á leit við hann að Ríkisútvarpið láti kanna hvernig það geti nýtt sér gervihnattatæknina miðað við þær aðstæður sem nú eru, til þess að hefja útsendingar, bæði hljóðvarps og sjónvarps, þannig að sendingarnar nái betur til sjómanna á hafi úti og einnig nái þær betur til þeirra svæða á landinu sem ekki njóta t.d. sjónvarpssendinga núna, láti kanna hvaða kostnaður er þessu samfara og hvaða tæknileg atriði við þurfum að uppfylla til að þessu markmiði verði náð. En ég tel að þetta sé skynsamlegasta leiðin, m.a. til þess að tryggja sjómönnum á hafi úti sem bestan aðgang að sjónvarps- og útvarpssendingum okkar.