Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 12:12:27 (3302)

1999-02-04 12:12:27# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[12:12]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er fyllilega sáttur við útskýringu hæstv. ráðherra á 7. gr. og mér finnst mjög mikilvægt að það hefur komið hér fram, og ég tel að það væri mjög mikilvægt að sérstaklega yrði fjallað um það mál í hv. menntmn. hvort menn eru þar sammála þeirri útskýringu á sérstöku erlendu útvarpi í 7. gr. sem hæstv. ráðherra gaf hér og fram kemur í greinargerð frv.

Í öðru lagi vil ég segja það, af því að mér láðist það hér áðan, að ég sé eftir Menningarsjóði útvarpsstöðva. Það getur vel verið að einhverjir séu þeirrar skoðunar að hann sé slæmur og hann sé flókinn og hann hafi ekki þjónað tilgangi sínum en það er þá bara vegna þess að það hefur verið farið illa með hann. Ég er alveg sannfærður um það að að mörgu leyti hefur þessi sjóður gert gagn. Sérstaklega sé ég eftir honum þegar á sama tíma er engin tillaga um neitt annað í staðinn. Það er alveg ljóst að veruleikinn er sá að Ríkisútvarpið hefur verið að borga í þennan sjóð samkvæmt greinargerð frv. um 70 millj. kr. en hefur fengið 5,7 milljónir. Aðrir hafa samkvæmt þessu þá verið að borga um 60 milljónir en þeir hafa þá fengið það sem eftir er eða 124,3 milljónir. Það er því augljóst mál að veiku stöðvarnar, þær stöðvar sem hafa kannski síður verið með fjármuni í innlendri efnisgerð hafa fengið eitthvað út úr þessum sjóði þegar upp er staðið. Ég vil láta það koma fram sem sjónarmið mitt af því að ég gat ekki komið því að í ræðu minni áðan að ég tel að eftirsjá sé að sjóðnum og engin rök séu fyrir því að fella hann niður nema menn séu með einhvern annan dagskrárgerðarsjóð í staðinn.

Sérstaklega með hliðsjón af því, ef menn ætla sér að fella þennan sjóð niður, þá finnst mér að markmiðin varðandi íslenska menningu eigi að vera myndarlegar orðuð í þessu frv. en þar er gert. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það að prósentur geti ekki njörvað þessa hluti endanlega niður en ég held að markmiðin eigi að vera miklu öflugri og það eigi að leggja beinar menningarlegar skyldur á þessar stofnanir sem fá þessi mikilsverðu leyfi sem er að senda út efni á öldum ljósvakans.