Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 12:14:47 (3303)

1999-02-04 12:14:47# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[12:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki neinu við þetta að bæta öðru en því að ég vildi láta það koma fram að þegar við unnum að gerð frv. var hugað að því hvort hafa ætti í frv. ákvæði um sérstakan dagskrárgerðarsjóð og þannig var málið kynnt fyrir þessum umsagnaraðilum. Eins og kom fram sendum við þetta til umsagnar hjá 30 aðilum og enginn þeirra mælti með því að þessi sjóður yrði starfræktur. En þeir kusu allir að hafa þá skipan sem við erum með hér, að stöðvarnar hafi þetta til frjálsrar ráðstöfunar, að ekki verði tekið fé af þeim inn í sérstakan sjóð eða staðið að því með öðrum hætti. Ég held því að þarna sé um að ræða hugmyndir í frv. sem komi til móts við þau sjónarmið sem eru uppi í þessari grein. En auðvitað er það áhyggjuefni ef þróunin verður sú að menn leggja minni rækt en áður við gerð íslensks efnis og raunar má sú alúð sem menn hafa sýnt alls ekki minnka á því sviði heldur verður að reyna að stuðla að því að auka hana ef kostur er.