Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 13:40:15 (3308)

1999-02-04 13:40:15# 123. lþ. 59.5 fundur 354. mál: #A meðferð opinberra mála# (réttarstaða brotaþola, endurupptaka mála o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[13:40]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála. Með frv. eru lagðar til ýmsar breytingar á lögunum en megintilgangur þess er þó að styrkja réttarstöðu brotaþola og á það einkum við um þá brotaþola sem beittir hafa verið ofbeldi í einhverri mynd. Fyrirhugað er að innan skamms verði lögin um meðferð opinberra mála tekin til heildarendurskoðunar. Það vandasama verk mun eðlilega taka nokkurn tíma. Því þótti ástæða til að taka saman frv. þetta og leggja til þær breytingar sem síður þola bið eftir heildarendurskoðun laganna. Frv. er samið af réttarfarsnefnd en þó lét dómsmrh. gera á því ákveðna breytingu sem ég mun víkja að síðar.

Í opinberu réttarfari, bæði hér og víðast hvar annars staðar, gildir sú rótgróna meginregla að ákæruvaldið höfðar mál til refsingar vegna brota á hendur sakborningi. Sá sem er þolandi afbrots er því ekki beinn aðili málsins í sama skilningi og ákæruvaldið og sakborningur. Réttarfarslög hafa tekið mið af þessu með ítarlegum ákvæðum um réttarstöðu sakbornings meðan brotaþoli hefur verið í aukahlutverki. Af þessu tilefni hefur því verið haldið fram að vegna réttarstöðu sinnar verði brotaþoli á ný fórnarlamb við meðferð sakamálsins. Þetta hefur leitt til umræðu á alþjóðavettvangi um hvernig bæta megi réttarstöðu brotaþola við meðferð mála innan réttarkerfisins í þeim tilgangi að draga úr skaðlegum áhrifum brots og málsmeðferðar á brotaþola.

Tillögur frv. um bætta réttarstöðu brotaþola eiga sér nokkurn aðdraganda sem ég sé ástæðu til að rekja í helstu atriðum.

Í árslok 1993 skipaði dómsmrh. nefnd sem m.a. hafði það hlutverk að athuga réttarstöðu brotaþola og gera tillögur til úrbóta. Í upphafi miðaði starf nefndarinnar að því að taka saman frv. til laga um greiðslu ríkissjóðs af bótum vegna afbrota. Frv. þess efnis var afgreitt sem lög frá Alþingi árið 1995. Nefndin skilaði síðan ráðuneytinu skýrslu í febrúar 1998 og var hún lögð fram á Alþingi þá um vorið. Í skýrslu nefndarinnar er að finna ýmsar tillögur um úrbætur til að styrkja réttarstöðu brotaþola.

Í mars 1997 mælti dómsmrh. á Alþingi fyrir skýrslu um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. Í framhaldi af því var ákveðið að skipa nefndir m.a. til að kanna meðferð heimilisofbeldismála hjá lögreglu og í dómskerfinu. Skiluðu nefndir þessar skýrslum sem lagðar voru fram á Alþingi sl. vor. Þar er að finna ýmsar tillögur um úrbætur í þessum efnum, m.a. á réttarfarslöggjöf.

Þá vil ég geta þess að með bréfi umboðsmanns barna til dómsmrh. frá 15. september 1997 eru lagðar til ýmsar breytingar á lögunum um meðferð opinberra mála sem miða að því að styrkja réttarstöðu barna sem þurft hafa að þola kynferðisafbrot. Umboðsmaður leggur til breytingar sem lúta að skýrslutöku af börnum sem þolað hafa slíkt ofbeldi og kveðið verði á um rétt þeirra til að njóta lögmannsaðstoðar við meðferð máls. Við samningu þeirra ákvæða frv. sem varðar réttarstöðu brotaþola hefur verið höfð hliðsjón af þeim gögnum sem ég hef nú rakið en einnig hefur verið litið til hliðstæðra ákvæða í norrænum réttarfarslögum, einkum í Danmörku og Noregi.

Herra forseti. Ég mun nú í helstu atriðum rekja efni frv. og víkja fyrst að þeim atriðum sem varða brotaþola en síðan gera grein fyrir öðrum tillögum sem frv. hefur að geyma.

Meginbreytingin á réttarstöðu brotaþola sem lögð er til í 14. gr. frv. er sú að mælt verði fyrir um skyldu til að tilnefna eða skipa brotaþola réttargæslumann til að gæta hagsmuna hans í opinberu máli ef hann hefur verið beittur ofbeldi, hafi orðið fyrir verulegu tjóni af þess völdum og þurfi á sérstakri aðstoð slíks málsvara að halda. Ef um börn er að ræða, yngri en 18 ára þegar rannsókn hefst, og grunur leikur á að þau hafi orðið fyrir kynferðisbroti er gengið lengra og lagt til að skylt verði að skipa þeim réttargæslumann í öllum tilvikum. Þegar þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi til að skipa brotaþola réttargæslumann gerir frv. ráð fyrir því að brotaþola sé heimilt að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta hagsmuna sinna í málinu sem talsmaður.

[13:45]

Í frv. er að finna ítarleg ákvæði um störf réttargæslumanns brotaþola en þar segir að honum beri að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal við að setja fram bótakröfur. Meðan á rannsókn stendur er réttargæslumanni ætíð heimilt að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af brotaþola og getur hann beint því til lögreglu að spyrja brotaþola um tiltekin atriði. Einnig er réttargæslumanni rétt að vera viðstaddur öll þinghöld í máli og er honum heimilt að óska eftir því að dómari eða ákærandi beini spurningum til ákærða, brotaþola eða vitna.

Af öðrum tillögum í frv. til styrktar réttarstöðu brotaþola má nefna breytingu á reglum um lokuð þinghöld þannig að brotaþoli geti krafist þess að réttarhöld fari fram fyrir luktum dyrum og hann geti síðan skotið ákvörðun dómara til Hæstaréttar felli hann sig ekki við hana. Einnig er ástæða til að nefna að frv. gerir ráð fyrir að þess verði betur gætt að upplýsingum um persónulega hagi brotaþola verði haldið leyndum.

Þá er það mikilvæga nýmæli lagt til að lögreglu beri að leita atbeina dómara til að taka skýrslu af brotaþola þegar rannsókn beinist að kynferðisbroti og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri. Einnig er gert ráð fyrir því að barn þurfi ekki að koma aftur fyrir dóm á síðari stigum málsmeðferðar nema dómari telji sérstaka ástæðu til þess. Að baki þessu búa sjónarmið um að raska ekki ró barna frekar en nauðsynlegt er. Í frv. eru síðan nánari reglur um hvernig staðið skuli að skýrslutöku af barni. Lagt er til að dómari geti kvatt sér til aðstoðar kunnáttumann við skýrslutöku, t.d. sálfræðing eða sérþjálfaðan lögreglumann, og vil ég leggja ríka áherslu á að þessari heimild verði beitt þegar tilefni er til svo að börn verði meðhöndluð af nærgætni og rannsókn þessara mála verði sem vönduðust.

Enn fremur er lagt til að ákærandi, ákærði og verjandi hans eigi ekki rétt á að vera viðstaddir í dómssal eða annars staðar þar sem dómþing er háð ef dómari telur að nærvera þeirra geti orðið brotaþola sérstaklega íþyngjandi eða haft áhrif á framburð hans. Í því tilviki skal dómari sjá til þess að málsaðilar geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og er honum rétt að leggja fyrir brotaþola þær spurningar sem þeir óska.

Þær tillögur sem ég hef rakið eru meginefni frv. en þar er að auki að finna fleiri tillögur sem miða að úrbótum í opinberu réttarfari og mun ég nú í helstu atriðum gera grein fyrir þessum tillögum.

Í frv. er lögð til breyting á reglum um aðgang verjanda að gögnum sakamáls og um heimildir hans til að kynna sakborningi málsgögn. Samkvæmt gildandi lögum skal verjandi fá til afnota afrit af gögnum máls en honum er óheimilt að afhenda sakborningi gögnin eða kynna honum efni þeirra nema dómari eða rannsóknari samþykki.

Þetta hefur verið harðlega gagnrýnt með þeim rökum að ekki samrýmist hlutverki verjanda að halda einhverju leyndu fyrir skjólstæðingi sínum. Af þeim sökum er lagt til í 12. gr. frv. að verjandi geti óhindrað kynnt gögn og efni þeirra fyrir sakborningi. Á hinn bóginn er lagt til að lögregla geti um skamman tíma neitað verjanda aðgang að gögnum málsins ef hún telur að slíkt geti skaðað rannsókn málsins. Á þeim tíma er gert ráð fyrir að lögregla geti óskað eftir því að tekin verði skýrsla af sakborningi eða vitnum fyrir dómi í því skyni að upplýsa mál áður en sakborningur fær tækifæri til að bera sig saman við aðra og um þetta er rætt í 23. gr. frv.

Í 20. gr. frv. er að finna nýmæli en þar er lagt til að ríkissaksóknari geti mælt fyrir um rannsókn, hvort ætla mætti að refsingu verði ekki við komið svo sem vegna þess að sök er fyrnd, ef sérstaklega stendur á og ríkir almanna- og einkahagsmunir mæla með. Við ákveðnar aðstæður geti verið tilefni til að rannsókn af þessu tagi fari fram en fyrir því þurfa að vera mjög ríkar ástæður.

Þá vil ég geta þess að í 42. og 43. gr. frv. er lagt til að fellt verði úr lögunum það skilyrði fyrir bótum til manns sem sætt hefur refsivist eða þvingunarráðstöfunum á borð við gæsluvarðhald og ekki verið sakfelldur fyrir refsiverða háttsemi að fremur megi telja hann líklegan til að vera saklausan en sekan af háttseminni. Þessi breyting er lögð til með hliðsjón af reglunni um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo og reglunni um að hver maður sem sviptur hefur verið frelsi að ósekju skuli eiga rétt til skaðabóta, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Loks vil ég nefna að lagt er til í 45. gr. að heimild til endurupptöku dæmdra mála verði rýmkuð þannig að mál verði einnig endurupptekið í því skyni að leggja nýtt mat á sönnunargögn sem færð voru fyrir dóm þegar mál var upphaflega til meðferðar. Heimild af þessu tagi á sér m.a. fyrirmynd í norskum og dönskum lögum en með henni er leitast við að treysta réttaröryggið við mjög sérstakar aðstæður. Gert er ráð fyrir að við skýringu og beitingu þessarar heimildar komi svipuð sjónarmið til álita og eiga við í fyrrgreindum nágrannalöndum okkar.

Herra forseti. Ég hef nú í grófum dráttum rakið efnisatriði frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.