Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 14:22:39 (3313)

1999-02-04 14:22:39# 123. lþ. 59.7 fundur 65. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á hávaða- og hljóðmengun. Með mér flytja málið eftirtaldir hv. þm.: Lára Margrét Ragnarsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Kristín Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Ragnar Arnalds. Tillögutextinn er stuttur og er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram víðtæka úttekt á hávaða- og hljóðmengun hérlendis og leggja fyrir næsta þing niðurstöður hennar og tillögur til úrbóta.``

Í greinargerð með tillögunni er málið rökstutt og bent á að hávaði og hljóðmengun af margvíslegu tagi fer vaxandi ár frá ári í samfélaginu. Vitnað er til upplýsinga frá Hollustuvernd ríkisins um að aldrei hafi verið gerð heildarúttekt á hávaða á Íslandi en talið er víst að hérlendis búi margir við hávaða sem er langt yfir settum viðmiðunarmörkum. Telja verður mjög brýnt að gerð verði úttekt á hávaða þannig að unnt sé að leggja grunn að úrbótum. Þar við bætist þörfin á að settar verði reglur til að vernda fólk fyrir hávaða á almannafæri, en í því skyni getur einnig verið þörf á könnun á ríkjandi aðstæðum.

Talið er að allt að 1.700 íbúðir í Reykjavík séu þannig staðsettar að hávaði við húsvegg sé óleyfilegur og dæmi eru um svo mikinn hávaða í íbúðarhúsnæði að heilu fjölskyldurnar sofa ekki á nóttunni nema með því að taka sterkar svefntöflur. Þetta eru skilyrði sem eru auðvitað ekki mannsæmandi.

Flutt hafa verið þingmál um það efni fyrr á þingi. Á 110. þingi var samþykkt till. til þál. um ,,að skora á ríkisstjórnina að láta semja frumvarp til laga um varnir gegn hávaða- og hljóðmengun``. En þegar gengið var eftir efndum á þessari ályktun þingsins kom það fram að talið væri að lagaheimildir út af fyrir sig væru til staðar til að gera viðeigandi ráðstafanir og því ekki þörf á sérstakri lagasetningu. Sá sem hér talar hefði talið eftir sem áður fulla þörf á því að setja í eina heildarlöggjöf þau mörgu fyrirmæli sem eru til staðar á dreif í lögum hérlendis og reglum sem settar eru með þeim og vísa ég í því sambandi til fylgiskjals I með tillögunni, þar sem er að finna yfirlit yfir helstu reglur sem settar hafa verið um þetta efni á grundvelli fyrirliggjandi lagaheimilda. En miðað við það að ekki sé talið að lagaheimildir skorti, þá er að mati okkar flutningsmanna nauðsynlegt að aflað verði glöggra upplýsinga um ástand þessara mála hér á landi til að undirbúa aðgerðir og réttarbætur til að verjast óæskilegri og sívaxandi hávaða- og hljóðmengun á almannafæri.

Þessi tillaga hefur verið flutt áður í þinginu en ekki hlotið fullnaðarmeðferð í umhvn. þingins sem þó fjallaði um málið má segja á tveimur síðustu þingum og ræddi það nokkuð.

Þau sjónarmið hafa verið uppi og komið fram varðandi þessa tillögu að hér sé öðru fremur um að ræða verkefni sveitarfélaga og heilbrigðisyfirvalda á vegum sveitarfélaga en ekki þörf á því að gera af hálfu hins opinbera, þ.e. ríkisins og þá Hollustuverndar ríkisins fyrir hönd þess, þá úttekt sem tillagan gerir ráð fyrir. Ég er ósammála þessu viðhorfi. Ég tel að það sé mjög brýn þörf og hafi hún ekki verið talin brýn á liðnum tíma þá sé það nú mjög knýjandi að á vegum stofnana ríkisins fari fram sú víðtæka úttekt á hávaða- og hljóðmengun sem hér er gert ráð fyrir til þess að leitt verði í ljós ástand mála og gripið síðan til viðeigandi ráðstafana til þess að verja fólk gegn því gífurlega angri sem óhóflegur hávaði og hljóðmengun verður að teljast. Ég get staðhæft og leitt að því rök og upplýsingar að annars staðar á Norðurlöndum er litið á viðbrögð og varnir gegn hávaða sem verkefni ríkisvaldsins í samvinnu við yfirvöld sveitarstjórna og hollustuyfirvöld.

Ég kynnti mér stöðu þessa máls á sínum tíma fyrir nokkrum árum í Danmörku og lagði fram upplýsingar í umhvn. um hvernig á því er tekið og tillögur stjórnskipaðrar nefndar þar í landi varðandi þessi mál. Ég kynnti mér það einnig í norska umhverfisráðuneytinu í september sl. og þar í landi er litið á það sem eðlilegt og sjálfsagt forustuverkefni á vegum ríkisins og norska umhverfisráðuneytisins að tryggja það að til staðar séu bæði upplýsingar um stöðu þessara mála en einnig að ríkisvaldið og löggjafinn beiti sér fyrir nauðsynlegum úrbótum.

Ég veit að mál það sem hér er flutt á ríkan stuðning í samfélaginu. Þessi mál eru í algerlega óviðunandi ástandi víða á landinu, í höfuðborg landsins eins og kunnugt er af umræðum en einnig mjög víða annars staðar, og þess vegna m.a. er þörf á að yfir málið sé farið og sú úttekt gerð sem tillagan gerir ráð fyrir.

Ég vek athygli, virðulegur forseti, á fylgiskjölum sem bætt var í þetta mál nú þegar það var endurflutt á þessu þingi, sem er fylgiskjal II og fylgiskjal III. Fylgiskjal II hefur að geyma grein sem birtist í Morgunblaðinu 9. ágúst sl. eftir Kristínu Marju Baldursdóttur undir fyrirsögninni Enginn friður. Þetta er úttekt blaðamannsins og er greinin mjög fróðleg og dregur fram með skörpum hætti stöðu þessara mála. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, aðeins að vitna til ummæla umrædds blaðamanns. Þar segir m.a.:

[14:30]

,,Sumarið er stutt á Íslandi. Flesta langar því til að njóta þess sem best og vera úti í góða veðrinu, ganga í guðsgrænni náttúrunni, fara upp í sumarbústað, grilla í garðinum sínum eða spóka sig í bænum. En einmitt á þessum dýrmæta árstíma þegar allt er í blóma og menn ættu að njóta fegurðar og fuglasöngs fara Íslendingar í gang og hefja hávaðasamar framkvæmdir. Byggja hús, leggja vegi, rífa upp götur, grafa skurði, berja, bora, saga, steypa og hamast á loftpressum þar til allt kvikt í kringum þá hefur lagt á flótta.

En þeir sem reyna að flýja til fjalla í von um að finna þögn og frið verða oft fyrir vonbrigðum, því um hálendið þeysa fjallabílar búnir kraftmiklum vélum og yfir fljúga þotur með þrumugný.``

Þetta er örlítið sýnishorn úr þessari ágætu samantekt Kristínar Marju Baldursdóttur. Þar er líka lífsreynslusaga sem er sett á blað undir fyrirsögninni Tónleikar allan daginn og ég held ég leyfi mér, með leyfi forseta, að láta hana einnig fylgja í þessari ræðu minni þegar ég mæli fyrir þessu máli:

,,Íslendingar hljóta að vera mjög tónelsk þjóð, því hvar sem þeir koma er verið að leika tónlist og gildir þá einu hvort þeir eru að skemmta sér eða vinna sín daglegu störf.

Dagur í lífi ungrar konu sem til að mynda vinnur í tískuverslun, gæti verið með eftirfarandi hætti. Tónleikahaldið byrjar strax í strætisvagninum að morgni til þegar hún heldur til vinnu sinnar. Í strætisvögnum er útvarp oft hátt stillt og verða menn þá að hlusta hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þegar konan kemur til vinnu sinnar tekur vinnustaðasöngurinn við. Í tískuverslunum, einkum þeim sem ætlaðar eru ungu fólki, er það oftast reglan að skemmta mönnum með poppmúsik. Hvort það er til að örva kaupgleði viðskiptavina skal látið ósagt. Að vinnudegi loknum fer hún í líkamsræktina til að auka styrk sinn og þol og þá fer nú að hitna í kolunum. Á þeim stöðum hreyfa menn sig nær eingöngu í takt við kraftmikla músik. Líklega er tilgangurinn sá að gera menn ofurlítið árásargjarna og þá um leið ósérhlífna í æfingunum.

Eftir púlið langar ungu konuna til að slaka á og fer með vinkonu sinni í bíó. Þær sjá hasarmynd með Harrison Ford og að sjálfsögðu er hljómburðurinn í góðu lagi enda til þess ætlast að skerandi tónlistin auki spennuna.

Ungfrúrnar eru upptjúnaðar eftir bíóferðina svo þær ákveða að fara á kaffihús og rabba saman yfir bjórkollu. Á íslenskum kaffihúsum er hins vegar ekki ætlast til þess að menn spjalli saman eftir klukkan ellefu. Vegna tónlistar sem getur mælst milli 80 og 90 desibel, verða menn að öskra hver á annan vilji þeir tjá sig. Hins vegar er ætlast til að menn drekki ört og mikið og mun það vera tilgangurinn með hávaðanum. Bjórkollurnar kalla að sjálfsögðu á leigubíl og hugsanlega gætu þær lent á leigubílstjóra sem vill endilega skemmta farþegum sínum með léttri sveiflu frá útvarpsstöð, en það er ekki óalgengt hér á landi.

Ekki er víst að tónleikum dagsins ljúki eftir miðnætti þegar unga konan er komin heim og undir sæng. Vel má vera að maðurinn á efri hæðinni sé í banastuði og leiki tónlist sem tilheyri því ástandi. Undir morgun festir unga konan kannski svefn, en þá er líka stutt í nýjan vinnudag. Með áframhaldandi tónleikum.``

Margt fleira, einmitt mjög upplýsandi, er að finna í þeim reynslusögum sem settar eru á blað hér og eru áreiðanlega ekki nein uppfinning eða skáldskapur þó að auðvitað sé verið að undirstrika hér alvöru málsins í framsetningu.

Virðulegur forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég leyfa mér einnig að vitna til leiðara í Morgunblaðinu 11. ágúst 1998 þar sem segir:

,,Hávaði og hljóðmengun er vaxandi vandamál víða um heim, eins og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins í fyrradag.`` --- Þar mun m.a. vitnað til umræddrar greinar. --- ,,Umhverfisstofnun Evrópu telur að um 113 milljónir Evrópubúa verði fyrir ónæði af völdum hávaða sem mælist yfir 65 desibel, sem orsakað getur háan blóðþrýsting. Þar af verða um 10 milljónir fyrir hávaða, sem mælist yfir 75 desibel, en hávaði af þeirri gráðu getur aukið hjartslátt, valdið mikilli streitu og skert heyrn. Hljóðmengun af þessu tagi stafar einkum frá umferð, atvinnurekstri, veitinga- og samkomuhúsum, verslunum og hátölurum á almannafæri.

Hér á landi hefur hljóðmengun vaxið ár frá ári, einkum frá umferð. Í októbermánuði sl. var lögð fram tillaga til þingsályktunar um víðtæka úttekt á hávaða- og hljóðmengun. Í greinargerð segir m.a.:`` --- það er tilvitnun í greinargerð þessa þingmáls sem reyndar hefur þegar verið tilvitnað --- ,,,,Talið er að allt að 1.700 íbúðir í Reykjavík séu þannig staðsettar að hávaði við húsvegg [frá umferð] sé óleyfilegur og dæmi eru um svo mikinn hávaða í íbúðarhúsnæði að heilu fjölskyldurnar sofa ekki á nóttunni nema með því að taka svefntöflur... Samkvæmt upplýsingum frá Hollustuvernd ríkisins hefur aldrei verið gerð heildarúttekt á hávaða á Íslandi, en talið er víst að hérlendis búi margir við hávaða sem er langt yfir viðmiðunarmörkum.``

Staðreynd er að hljóðmengun yfir ákveðnum mörkum getur verið heilsuspillandi, valdið skemmd á heyrn, auk truflunar á friðhelgi heimila og andlegrar vanlíðunar þeirra er fyrir verða. Það er meir en tímabært, eins og lagt er til í umræddri þingsályktunartillögu, að gerð verði úttekt á hljóðmengun hér á landi, einkum í þéttbýli, svo unnt verði að leggja grunn að úrbótum. Mikilvægt er að af hálfu hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, sé unnið skipulega og markvisst gegn óþörfum og truflandi hávaða ,,til verndar heilsu manna og til að tryggja rétt einstaklingsins til ómengaðs umhverfis``.``

Lokaorðin eru tilvitnun í greinargerð með þessari tillögu. Þessi stuðningur frá fjöllesnasta blaði landsins er vissulega mjög vel þeginn fyrir okkur flutningsmenn þessa máls og þó að þessi tillaga, sem er 65. mál þingsins og fram komin í októbermánuði, sé fyrst á dagskrá nú til fyrri umr., virðulegur forseti --- og segir það nokkuð um stöðu okkar þingmanna í stjórnarandstöðu að mæla fyrir máli og eru hér reyndar fleiri en stjórnarandstöðuþingmenn meðal flutningsmanna, vel að merkja --- þá verð ég að vænta þess, þar sem tillagan hefur verið rædd mikið í hv. umhvn., að hún fái verðuga afgreiðslu í nefndinni og komi aftur til þingsins áður en við ljúkum störfum. Ég legg til að málið fari að lokinni umræðu til hv. umhvn.