Náttúruvernd

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 14:42:20 (3316)

1999-02-04 14:42:20# 123. lþ. 59.8 fundur 84. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Það mun hafa verið á 110. löggjafarþingi, að mig minnir --- nei, það er nú ekki rétt --- það mun hafa verið á þinginu 1995 að sú tillaga sem hér er flutt og mælt fyrir kom fram, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nú lög nr. 93/1996. Þetta frv. hefur í aðalatriðum verið óbreytt frá því að það fyrst var lagt fram og aflað um það umsagna á vegum þingnefndar, hv. umhvn.

Frv. er efnislega um tvo meginþætti. Það fjallar um að aukið verði í lög um náttúruvernd nýjum kafla um landslagsvernd þar sem sett verði almenn ákvæði um verndun landslags með tilteknum sjö nýjum greinum sem þar verði bætt við, þ.e. sett ákvæði um að tilteknar landslagsgerðir njóti almennrar verndar og ekki megi raska þeim nema samkvæmt ákvörðun skipulagsyfirvalda og að fenginni umsögn Náttúruverndar ríkisins. Síðan er að finna í frv. þessu ítarleg ákvæði um efnistöku og jarðrask þar sem í náttúruverndarlögum eru enn í dag sömu úreltu ákvæðin og sett voru í lög 1971 og hafa leitt til algerlega óviðunandi ástands í sambandi við jarðrask og efnistöku í landinu. Um það liggja fyrir skýrar upplýsingar sem lesa má um í greinargerð með þessu máli.

Meginreglan sem sett er fram í frv. kemur fram í b-lið 1. gr., með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að breyta landslagi varanlega með jarðraski, efnistöku, mannvirkjagerð eða á annan hátt nema í samræmi við staðfest skipulag og að undangengnu mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 63/1993.

Ekki skal heimila efnistöku ef hætta er á að hún raski svipmóti lands, merkum náttúruminjum eða vistkerfum. Þá má efnistakan hvorki ganga í berhögg við ákvæði laga þessara um friðlýsingu náttúruminja né staðfesta skipulagsáætlun.``

[14:45]

Síðan er að finna ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að í landi í einkaeign sé eiganda, að teknu tilliti til ákvæða 22. gr. náttúruverndarlaga, heimil efnistaka, hafi sveitarstjórn samþykkt áætlun um hana, að fenginni jákvæðri umsögn viðkomandi náttúruverndarnefndar og skipulagsstjóra ríkisins. Í sömu grein er jafnframt er gert ráð fyrir því að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. sé landeiganda heimil lítils háttar efnistaka á landi sínu til eigin nota enda sé gætt ákvæða 2. mgr. 22. gr. svo og 26. gr. um frágang.

Ég ætla ekki að fara yfir einstök efnisákvæði frv. að öðru leyti en nefni þó ákvæði til bráðabirgða sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Umhverfisráðuneyti skal vegna frágangs eftir efnistöku og jarðrask, sem átt hefur sér stað fyrir gildistöku laga þessara, láta gera áætlun um úrbætur í samvinnu við sveitarstjórnir. Í því skyni fari fram skipuleg könnun og flokkun á efnistökustöðum og öðru áberandi jarðraski vegna mannvirkjagerðar og fylgi tillögur um hversu frá skuli gengið og hverjir skuli bera kostnað af viðhlítandi frágangi.``

Þetta er ákvæði til bráðabirgða og beinist að því að bæta úr því sem raskað hefur verið með efnistöku og öðru jarðraski.

Virðulegur forseti. Frv. fylgir grg. og nokkur fylgiskjöl. Það varðar afmörkuð atriði á sviði náttúruverndar sem brýnt er að kveða á um í lögum, mun skýrar en verið hefur. Þar er um að ræða víðtæk almenn ákvæði um landslagsvernd og frekari skorður við efnistöku og jarðraski en settar eru í gildandi löggjöf. Með frv. er sú leið valin að fella nýjan kafla inn í gildandi lög um náttúruvernd, undir heitinu landslagsvernd, setja inn nýmæli og breytt ákvæði um efnistöku en þau er að finna í gildandi lögum um náttúruvernd undir kaflaheitinu Aðgangur almennings að náttúru landsins, umgengni, framkvæmdir o.fl.

Frv. þetta var fyrst lagt fram til kynningar á 119. löggjafarþingi. Þá sendi flm. það nokkrum aðilum til umsagna með ósk um að þeir gæfu ábendingar sem hafa mætti til hliðsjónar við endurflutning. Margir brugðust vel við og sögðu álit sitt, þar á meðal Bændasamtök Íslands, Landgræðsla ríkisins og Náttúruverndarráð, sem þá fór með svipað hlutverk og Náttúruvernd ríkisins hefur nú. Tekið var tillit til margra af þeim ábendingum sem þessir aðilar gáfu. Eftir að málið fór til þingnefndar var leitað formlegra umsagna um frv. Þær umsagnir, frá síðasta þingi og þingum þar á undan, liggja fyrir í hv. umhvn. sem enn og aftur er lagt til að fái mál þetta til umfjöllunar.

Umsagnirnar eru yfirleitt jákvæðar, raunar mjög jákvæðar. Það hefði einhvern tíma þótt teljast til tíðinda að Bændasamtök Íslands tækju almennt jákvætt undir efni tillögu af þessu tagi, en það er staðreynd, án þess að þau skrifi upp á allt það sem í frv. kemur fram. Það sýnir mjög breyttan og jákvæðan skilning á því að vernda þurfi landið gegn þarflausu raski og ganga sem best um náttúruna. Það hefur samt ekki nægt til þess að þingið tæki efnislega á málinu eða að meiri hluti umhvn. hafi afgreitt málið til þingsins til að tryggja nauðsynlegar lagabætur í þessum efnum.

Hverju hafa menn, virðulegur forseti, borið við? Bæði hæstv. umhvrh. og aðrir talsmenn meiri hlutans hafa að allt frá árinu 1995, þegar frv. fyrst kemur fram, vísað til þess að til standi að endurskoða löggjöf um náttúruvernd og þegar það verk liggi fyrir muni tekið tillit til ákvæða í þessu frv. Það hefur ekki mátt nota þingmannafrv. sem ég tel vandlega unnið, m.a. í samráði við almannasamtök og stofnanir ríkisins, til að setja inn lagabætur sem enginn efnislegur ágreiningur virðist um að gera þurfi. Nei, ár eftir ár er málinu ýtt út af borðinu af meiri hluta í umhvn. þingsins, með tilstyrk hæstv. umhvrh. vegna þess að heildarendurskoðunar á löggjöf um náttúruvernd sé að vænta, lögum nr. 93/1996.

Hvernig standa málin varðandi endurskoðun þá sem hæstv. umhvrh., sá er nú situr, fullyrti, þegar deilt var um endurskoðun náttúruverndarlaga 1996, að lokið yrði á kjörtímabilinu? Hann sagði að unnið yrði ötullega að endurskoðun löggjafarinnar og tryggt að við það yrði staðið. Þar var ekki minna tekið upp í sig en svo að í sérstöku bráðabirgðaákvæði með löggjöfinni um náttúruvernd frá 1996 er sérstakt ákvæði sem hefur lagagildi. Þar segir, með leyfi forseta, í 44. gr. gildandi laga um náttúruvernd:

,,Lög þessi skal endurskoða í heild sinni innan tveggja ára frá gildistöku.``

Hvenær er gildistakan? 1. janúar 1997. 1. janúar 1999 skyldi endurskoðun laganna lokið og ný lög um náttúruvernd verið sett á grundvelli þeirrar endurskoðunar. Þetta er lagaleg skuldbinding sem ekki hefur verið staðið við af framkvæmdarvaldinu. Nýtt frv. hefur ekki einu sinni verið sýnt hér í þinginu. Endurskoðuð löggjöf um náttúruvernd hefur ekki komið fram og engar líkur til að það mál fái framgang, þótt sýnt yrði hér í þinginu, þá fáu daga sem eftir eru af starfstíma þingsins, þegar um er að ræða víðtækt og vandasamt mál eins og endurskoðun náttúruverndarlaga.

Þetta er, virðulegur forseti, bæði hörmulegt og ámælisvert. Skýr lagafyrirmæli lágu fyrir þegar lög voru sett um náttúruvernd vorið 1996, í verulegum ágreiningi varðandi þýðingarmikil atriði. Þau voru réttlætt með því að aðeins væri um mjög takmarkaða endurskoðun á löggjöfinni að ræða og ötullega yrði unnið að því að tryggja fullnaðarendurskoðun á lögunum í ljósi nútímalegra viðhorfa. Við það hefur ekki verið við staðið þrátt fyrir lagafyrirmæli í gildandi löggjöf.

Ég hlýt að harma þetta, virðulegur forseti, um leið og ég legg til að þetta knýjandi mál sem hér er líklega í fjórða sinn mælt fyrir í þinginu, gangi til hv. umhvn. til efnislegrar umfjöllunar en nefndin þekkir málið. Flestir eru þar hinir sömu og hafa setið yfir því á liðnum þingum þessa kjörtímabils. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þau kunnuglegu ákvæði sem þarna eru vandlega undirbúin verði felld að gildandi löggjöf þannig að a.m.k. þeir þættir sem hér er tekið á, sem auðvitað eru aðeins hluti af viðfangsefninu varðandi heildarendurskoðun á náttúruverndarlöggjöfinni, fái sinn stað í lagasafni Íslands fyrir lok kjörtímabilsins.