Landgræðsla

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 15:16:56 (3320)

1999-02-04 15:16:56# 123. lþ. 59.10 fundur 111. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntur) frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[15:16]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Hér erum við með mál sem líklega kom einnig fram í október sl. inn í þingið en kemur nú fyrst á dagskrá. Ég er auðvitað ánægður og segi betra er seint en aldrei. Hér er einnig um að ræða mál sem áður hefur komið við sögu í þinginu því að frv. til laga um breyting á lögum um landgræðslu hefur sést áður. Flutningsmenn nú að málinu ásamt þeim sem hér talar eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Kristín Halldórsdóttir. Þetta er kunnuglegt fyrir þá þingmenn sem gefið hafa þessu máli gaum á undanförnum þingum.

Lögð er til breyting á markmiðsgrein laganna um landgræðslu í 1. gr. sem ég vísa til en síðan er 2. gr. frv. kannski það sem efnislega er kjarni málsins. Þó ætla ég að fara yfir 1. gr., með leyfi forseta, það er umorðun:

,,Tilgangur laga þessara er þríþættur: að stuðla að jarðvegs- og gróðurvernd, að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs og að græða upp örfoka og lítt gróið land.

Við framkvæmd laganna skal byggt á vistfræðilegri þekkingu og varúðarreglu. Við það skal miðað að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegum gróðri landsins.``

Hér er um að ræða nokkrar breytingar varðandi 1. gr. Meginefnisbreytingin sem lögð er til í fyrri málsgrein greinarinnar er að bætt er við þriðja markmiðinu, þ.e. að stuðla skuli að jarðvegs- og gróðurvernd. Með því er átt við að eitt af meginmarkmiðum með lögunum um landgræðslu verði að hlúa að þeim jarðvegi og gróðri sem fyrir er og vernda gegn ofnýtingu.

Í síðari málsgrein er lagt til að við markmiðsgrein laganna verði bætt nýrri málsgrein þar sem fram koma þau grundvallaratriði sem hafa ber að leiðarljósi við framkvæmd laganna. Annars vegar er lagt til að kveðið verði á um að áður en ráðist verði í framkvæmdir skuli liggja fyrir vistfræðileg þekking og að aðgerðir skuli að öðru leyti byggjast á varúðarreglu sem er m.a. skilgreind í formála alþjóðasamnings um líffræðilega fjölbreytni. Sá samningur öðlaðist þjóðréttarlegt gildi með samþykki Alþingis 6. maí 1994 og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,... þar sem hætta er á umtalsverðri rýrnun eða tjóni á líffræðilegri fjölbreytni ætti ekki að nota ónóga vísindalega þekkingu sem tilefni þess að fresta aðgerðum til að forðast eða draga eins mikið úr þeirri hættu og mögulegt er``.

Hins vegar er lagt til að aðgerðir skuli miða að því að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegum gróðri og er það í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist, samanber m.a. samninginn um líffræðilega fjölbreytni.

Síðan er 2. gr. laganna og sú sem mest hefur verið rætt um á liðnum þingum og hefur tekið nokkrum breytingum frá því að málið fyrst var lagt fram. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:

Því aðeins skal taka til notkunar í landgræðslu innflutta plöntutegund að óhætt sé talið að mati Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, með hliðsjón af umsögnum Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Náttúruverndarráðs, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Líffræðistofnunar Háskóla Íslands. Sé nauðsyn talin á skal Rannsóknastofnun landbúnaðarins beita sér fyrir rannsóknum á viðkomandi tegund, einkum með tilliti til þess hvort hætta sé á að hún valdi röskun á lífríkinu þannig að vegið sé að fjölbreytni þess og náttúrulegum gróðursamfélögum.

Landbúnaðarráðherra skal að höfðu samráði við umhverfisráðherra setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd skv. 1. mgr.``

Þetta er eins og ég gat um kannski kjarnabreytingin fyrir utan 1. gr. um breytt markmið varðandi landgræðslu. Ég nefni það í sambandi við 2. gr. að umhvn. þingsins hefur fjallað um þetta mál að beiðni landbn. og afgreiddi umsögn um málið 14. maí 1996. Hún er birt með frv. sem fskj. III. En síðan þessi umsögn var gefin hefur orðalagi verið breytt í 2. gr. Þá lét umhvn. þingsins svohljóðandi umsögn ganga til hv. landbn., með leyfi forseta:

,,Umhverfisnefnd hefur, að beiðni landbúnaðarnefndar, fjallað um frumvarp til laga um landgræðslu, 93. mál. Nefndin er hlynnt því að settar verði reglur um notkun innfluttra plantna í landgræðslu svipað og lagt er til í frumvarpinu. Mikilvægt er að notkun innfluttra plantna við landgræðslu falli að stefnumörkun um gróðurvernd og alþjóðlegum skuldbindingum um líffræðilega fjölbreytni.

Þó verður að gæta þess að ekki séu settar óeðlilegar hömlur á innflutning erlendra tegunda. Nefndin vill því gera athugasemdir við ákvæði 2. gr. frumvarpsins er snýr að því hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að taka megi innfluttar plöntutegundir til notkunar í landgræðslu. Í frumvarpinu`` --- þ.e. eins og það lá þá fyrir --- ,,er gert ráð fyrir að slíkt sé aðeins heimilt ef fyrir liggi jákvæðar umsagnir Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins, Náttúruverndarráðs og Líffræðistofnunar Háskóla Íslands. Þykja þetta fullströng skilyrði og leggur nefndin til að slakað verði á þeim þannig að enginn þessara aðila hafi neitunarvald.``

Þetta er umsögn nefndarinnar á þeim tíma. Í ljósi þessarar ábendingar var tillögugreininni breytt og nú er Rannsóknastofnun landbúnaðarins sá aðili sem leggur mat á þetta mál með hliðsjón af umsögnum nokkurra upptalinna stofnana. Forræðið er því sett í hendur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og þar með komið til móts við ábendingu frá umhvn.

Hér er um að ræða að mínu mati, og margra annarra án efa, mjög tímabært atriði og brýnt til þess að tryggja að innflutningur tegunda til notkunar í landgræðslu lúti þeim skilyrðum sem eðlilegt er að setja og þannig verði komið í veg fyrir að menn flytji til landsins og taki til notkunar í landgræðslu tegundir sem verði að plágum. Það er staðreynd sem er þekkt víða um lönd og í vaxandi mæli að farið hefur verið mjög ógætilega að í þessum efnum. Fjölmörg dæmi eru rakin í greinargerð með tillögunni um mikil vandkvæði sem upp hafa komið vegna innflutnings og notkunar tegunda sem fluttar hafa verið í nýtt umhverfi og hafa gerst mjög aðgangsharðar gagnvart landi og gróðri sem fyrir er þannig að úr hafa orðið sannarlegar plágur.

Hér var haldin ráðstefna árið 1997 að frumkvæði Félags garðyrkjumanna um innflutning plantna. Þar voru haldin mörg ágæt erindi og þar kom fram mjög víðtæk samstaða hjá þeim sem þar voru málshefjendur, a.m.k. flestra, og í ályktunum frá þessari ráðstefnu, um að tekið yrði á þessum vanda.

Í Morgunblaðinu þann 10. apríl 1997 birtist grein eftir Guðríði Helgadóttur sem var þá ritari í stjórn Félags garðyrkjumanna og kenndi við Garðyrkjuskóla ríkisins, og gerir það e.t.v. enn, þar sem rakið var það helsta sem fram kom á þessari merku ráðstefnu sem ég átti kost á að sitja. Ég leyfi mér aðeins að grípa inn í grein hennar, með leyfi forseta, þar sem segir:

,,Plöntur hafa mismikla aðlögunarhæfileika. Það kemur í ljós þegar þær eru fluttar úr sínu upprunalega umhverfi og í rysjótt veðurfar eins og á Íslandi. Miklir aðlögunarhæfileikar eru hins vegar ekki alltaf af hinu góða. Misjafn er sauður í mörgu fé og við Íslendingar sleppum ekki við svörtu sauðina frekar en aðrar þjóðir. Kynnt var þumalfingursregla [þ.e. á ráðstefnunni] sem segir að af 10.000 plöntutegundum og yrkjum í landinu geti 10 hugsanlega farið úr böndunum og orðið að plágu. Við ættum að læra af reynslu annarra þjóða í þessum efnum en margar þjóðir hafa komið sér upp listum yfir hættulegar tegundir og takmarka dreifingu þeirra í löndum sínum.`` --- Síðan eru rakin dæmi um það og segir m.a.: ,,Á Íslandi eru nú þegar nokkrar tegundir sem hugsanlega gætu orðið að vandamáli í framtíðinni. Okkur ber því að sýna aðgát og fyrirhyggju við innflutning og dreifingu nýrra plantna.``

Um niðurstöðu segir höfundur, með leyfi forseta:

,,Niðurstaða þessarar ráðstefnu hlýtur því að vera sú, að nauðsynlegt er að samræma landnýtingaráætlanir hinna ýmsu aðila, svo sem landgræðslu, skógræktar, landbúnaðar, o.s.frv. Áður en lagt er af stað í þessar framkvæmdir á skilyrðislaust að fara fram umhverfismat. Verður það að teljast eðlileg krafa þar sem aukin gróðursetning og innflutningur plantna koma til með að breyta umhverfi okkar og hafa áhrif á það gróður- og dýralíf sem fyrir er í landinu. Stjórnvöld þurfa að setja fram langtímastefnu í grænu málunum svokölluðu og þar þurfa fagaðilar og áhugamenn að geta komið sínum sjónarmiðum að.``

Þetta læt ég nægja sem tilvitnun í þessa ágætu yfirlitsgrein um merka ráðstefnu um það efni sem frv. sem hér er mælt fyrir lýtur að. Með frv. eru ákvæði til bráðabirgða til þess að aðlaga framkvæmd að núverandi stöðu og bæta úr málum eftir föngum.

Í greinargerð með frv., virðulegur forseti, er síðan fjallað um heildarendurskoðun laga um landgræðslu, það mikla nauðsynjamál sem búið er að vera á dagskrá hæstv. landbrh., sem jafnframt er umhvrh., frá því að viðkomandi hæstv. ráðherra tók við starfi að ég man best og frá því að við bárum okkur saman um þessi mál einmitt á grundvelli þessa frv. fyrir líklega fjórum árum síðan bráðum. Alltaf var heildarendurskoðun landgræðslulaga ef ekki hafin þá alveg á næsta leiti að fara af stað.

Nú vill svo vel til að hæstv. landbrh. er viðstaddur umræðuna og því vænti ég þess að við fáum í senn upplýsingar um stöðu þess máls sem að frv. lýtur sérstaklega, þ.e. varðandi innflutning plantna, því ég hef heyrt og séð að eitthvað hefur verið í undirbúningi þar að lútandi. Kannski er að nálgast að eitthvað komi fram í formi tillagna af hálfu framkvæmdarvaldsins eða stjórnvalda. Og í öðru lagi: Hvað líður því brýna verkefni að endurskoða frá grunni, vil ég segja, löngu úrelta löggjöf um landgræðslu og gróðurvernd eða lögin nr. 17/1965? Þau lög kunna að hafa verið ágæt þegar þau voru sett en eru náttúrlega sem eðlilegt er gersamlega úr takt við tímann og þarf engan að undra eins mikið og viðhorf hafa breyst og þekking manna hefur aukist. Auk þess hefur Ísland tekið á sig alþjóðlegar skuldbindingar og þá ekki síst að því er varðar verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

Virðulegi forseti. Ég geri tillögu um að máli þessu verði vísað til hv. landbn. Ég hafði reyndar vænst þess að formaður þeirrar nefndar yrði hér viðstaddur. Hann hafði á liðnum þingum allgóð orð um það að jafnvel afgreiða þetta mál, ég vil samt ekki fullyrða of mikið, en að taka jákvætt á málinu enda hefur verið reynt við nýja framlagningu málsins að breyta ákveðnum þáttum þess þannig að sniðnir væru af þeir vankantar sem bent hefur verið á af þeim sem um hafa fjallað.

Virðulegur forseti. Í efni þessa máls og því sem bætt er við og lögð áhersla á, þ.e. endurskoðun laga um landgræðslu og gróðurvernd, er um að ræða afar knýjandi mál. Við erum með plágur í landinu nú þegar sem erfitt verður að koma böndum á. Við megum ekki auka þar við með áframhaldandi gáleysi í innflutningi plantna sem nýttar eru í það nauðsynjamál að bæta úr því sem verst hefur farið í sambandi við jarðveg og gróður í landinu. En þar þarf alltaf að fara að með gát þegar aðferðir eru ákveðnar, bæði við val á tegundum og annað sem að þessu lýtur og að því er stefnt með þessu frv.