Hjálmanotkun hestamanna

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 15:58:24 (3326)

1999-02-04 15:58:24# 123. lþ. 59.13 fundur 171. mál: #A hjálmanotkun hestamanna# frv., Flm. KH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um hjálmanotkun hestamanna, sem er 171. mál þessa þings og er á þskj. 174. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Guðmundur Árni Stefánsson, Hjálmar Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Sigríður Jóhannesdóttir.

Þetta er ekki viðurhlutamikið frv. Það er fáort, einfalt og auðskilið en fjöldi orða og frumvarpsgreina segir ekkert um stærð og mikilvægi mála og ég leyfi mér að halda því fram að þetta frv., verði það að lögum, geti skipt sköpum í hreinni og tærri merkingu þess orðtaks. Ef til vill hefur frv. og umræðan sem það hefur skapað þegar skipt sköpum þar sem það hefur, eftir því sem ýmsir segja mér og sem ég þykist reyndar hafa séð sjálf, haft nokkur áhrif til aukningar á notkun hlífðarhjálma í hestamennsku.

Frv. var lagt fram á síðasta þingi en varð ekki útrætt þótt það sé hvorki flókið né torskilið og hafi fengið afar góðar viðtökur umsagnaraðila eins og vikið er að í grg. Frv. var t.d. til umfjöllunar í Umferðarráði og voru ráðsmenn hlynntir lögfestingu þess. Í umsögn ráðsins kom fram að hjálmaskylda hestamanna styrkti almenna umræðu um gagnsemi hjálma í umferðinni og mikilvægi þeirra sem forvarnar gegn höfuðmeiðslum og það held ég að sé hárrétt athugað.

[16:00]

Slysavarnafélag Íslands lýsti fullum stuðningi við frumvarpið og skýrði frá því að það hefur undanfarin ár sent bréf til félagasamtaka í hestamennsku og hvatt þau til að koma á almennri notkun hlífðarhjálma meðal félagsmanna. Í umsögn Slysavarnafélagsins er m.a. bent á það að ef þær upplýsingar sem fram koma úr Skagafirði, og koma fram aðeins fyrr í greinargerðinni, væru yfirfærðar prósentuvís yfir landið væri hægt að gera sér í hugarlund hversu ástandið er alvarlegt á landsvísu varðandi slysatíðni tengdri hestamennsku. Hér er vísað til upplýsinga frá Skagafirði sem sagt er frá í greinargerðinni, en Óskar Jónsson, læknir á Sjúkrahúsi Sauðárkróks, gerði yfirlit og samanburð á umferðarslysum og slysum í tengslum við hestamennsku á ákveðnu árabili, frá 1984--1990, þar sem fram kom að fleiri leita til sjúkrahússins vegna hestaslysa en umferðarslysa. Á þessu árabili leituðu 238 læknis vegna hestaslysa en 215 vegna umferðarslysa. Eðli áverkanna var nokkuð svipað en þetta eru upplýsingar sem vekja talsverða athygli.

Vegna fyrirspurna þegar við vorum að undirbúa þetta frv. fór Óskar einnig yfir slysasbók sjúkrahússins á Sauðárkróki árin 1992--1996 og þá kom í ljós að enn hafði slysunum fjölgað. Á þessu fimm ára tímabili leituðu 329 manns til sjúkrahússins eftir umferðarslys og 387 eftir slys sem tengdust hestamennsku. Á þessum árum leituðu því að jafnaði tæplega 80 manns á hverju ári til sjúkrahússins vegna hestaslysa en um 66 vegna umferðarslysa. Það þarf því ekki að undra þótt læknaráð við heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki, sem gaf umsögn um frv., lýsti yfir stuðningi við það og léti í ljósi það álit að hjálmanotkun væri til þess fallin að draga úr alvarlegum höfuðáverkum hestamanna.

Loks skal vitnað orðrétt í umsögn Ólafs Ólafssonar, fyrrverandi landlæknis, sem segir, með leyfi forseta: ,,Hjálmanotkun hestamanna er skynsamlegt ráð. Helstu mótrökin eru að hjálmanotkun hefti frelsi manna. Ég veit engin dæmi þess að hjálmanotkun hestamanna hafi skert frelsi manna eða dregið úr baráttu fyrir frjálsræði í þjóðfélaginu. En dæmi veit ég um að hjálmanotkun hafi skilað mönnum heilum hildi frá og þá væntanlega betur í stakk búnum til þess að berjast fyrir frelsi og mannréttindum en ella.``

Þetta frv. hefur líka fengið stuðning víða þótt ekki hafi verið beinlínis eftir leitað. Ég nefni sérstaklega leiðara í tímaritinu Eiðfaxa, 9. tbl. síðasta árs, sem ég hlýt að telja góðan stuðning. Leiðarahöfundur, Ragnheiður Davíðsdóttir, vitnar þar að mestu í greinargerð þessa frv. og samtal sem hún átti við mig en hún segir einnig frá sjálfri sér, með leyfi hæstv. forseta:

,,Allir ábyrgir hestamenn hljóta að fagna þessu frv. Kristínar sem vonandi verður að lögum á þessu þingi. Ástæðan er einföld, slys á hestamönnum eru allt of tíð og þeim fer fjölgandi.``

Einnig ræðir hún um þær tölur sem birtast í greinargerðinni, sem ég mun aðeins víkja að á eftir, og segir að þær sanni svo ekki verður um villst ,,að full þörf sé á víðtækri þjóðarsátt meðal hestamanna um almenna notkun reiðhjálma við útreiðar``. Að lokum lýsir hún þeirri von sinni ,,að þingmenn löggjafarsamkomunnar beri gæfu til þess að samþykkja einróma frumvarp Kristínar enda hlýtur það að vera hagsmunamál þeirra sem okkar allra að koma í veg fyrir slys``.

Ég vek athygli hv. þingmanna á fylgiskjali með frv. þar sem fram koma upplýsingar um komur á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna hrossaslysa en þar hefur nýlega verið tekin upp kerfisbundin skráning slíkra slysa. Upplýsingarnar eru frá einu ári, þ.e. frá október 1997 til september 1998. Þar eru fróðlegar upplýsingar um fjölda eftir aldri og kyni og einnig um staðsetningu áverka. Fjöldinn er 148, 83 konur og 65 karlar. Ýmislegt forvitnilegt má lesa út úr þessum tölum þó að þessar upplýsingar séu auðvitað takmarkaðar þar sem aðeins er um eitt einasta ár að ræða. En gaman er að skyggnast á bak við þessar tölur og sem dæmi má nefna að í hópi þeirra 36 einstaklinga sem leita til slysadeildarinnar á aldrinum 5--19 ára eru reyndar þrefalt fleiri kvenkyns en karlkyns og í heildina eru konur fleiri í hópi slasaðra. Kann ég nú ekki að skýra þennan mun nema hér komi fram afleiðing af mismunandi líkamsburðum kynjanna. Það er a.m.k. ekki geðfellt þeirri sem hér stendur að skýra það með því að konur séu verri reiðmenn. Ég trúi því ekki.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta þingmál, það skýrir sig að öllu leyti sjálft. Það er einfaldlega liður í slysavörnum og er kannski hollt að minnast þess að slys af ýmsu tagi eru talin kosta þjóðfélagið gríðarlega mikla fjármuni í heildina litið --- talað er um 10--12 milljarða kr. árlega --- og þyrfti í raun að verja miklu meiri orku og hugmyndavinnu og fjármunum til slysavarna. Framkvæmd þessarar tillögu kostar ríkið að vísu ekki neitt. Það getur hins vegar sparað samfélaginu mikla fjármuni.

En mest er þó um vert að þetta einfalda og sjálfsagða öryggistæki, hlífðarhjálmur á höfuðið, getur sparað mikil óþægindi, kostnað og vinnutap fyrir einstaklingana og það getur komið í veg fyrir varanleg meiðsl, örkuml eða jafnvel dauða. Ég trúi því að allir vilji frekar vera heilir heilsu en örkumla eða jafnvel lífvana.

Að lokinni umræðunni legg ég til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.