Hjálmanotkun hestamanna

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 16:10:05 (3328)

1999-02-04 16:10:05# 123. lþ. 59.13 fundur 171. mál: #A hjálmanotkun hestamanna# frv., Flm. KH
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[16:10]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. 15. þm. Reykv. fyrir að taka undir efni þessa frv. Reyndar hefur það vakið mér mikla ánægju hversu margir hafa tekið vel undir frv., og ekki bara innan þings heldur einnig úti í þjóðfélaginu. En það er óneitanlega hárrétt hjá hv. þm. að ekki eru allir jafnjákvæðir og m.a.s., eins og reyndar kemur fram í greinargerðinni, er vikið að nákvæmlega þessu sama og hv. þm. nefndi, að ýmsir atvinnumenn í hestamennsku sem setja jafnvel reglur um notkun hjálma á námskeiðum og í skipulögðum hestaferðum og benda viðskiptavinum sínum á það að þeir séu betur settir með hjálma fara síðan ekki sjálfir eftir eigin reglum og það skapar hættulegt fordæmi.

Það er því miður enn of algengt viðhorf að notkun hlífðarhjálms eða almennt notkun öryggistækja sé veikleikamerki og ekki við hæfi þeirra sem eiga að kunna að bjarga sér. Það sé til marks um öryggi og hæfni og þor að þurfa ekki á slíku að halda. En þetta er auðvitað ábyrgðarleysi og sérstaklega þegar menn eiga að gefa öðrum fordæmi. Það var hárrétt tilvitnun hv. þm. til notkunar bílbelta sem er einhver stórkostlegasta slysavörn sem leidd hefur verið í lög hér á landi og engin spurning að notkun bílbelta hefur bjargað mannslífum og komið í veg fyrir örkuml. Sama má segja um hjálmanotkun þeirra sem aka vélhjólum, það er lögleitt. Það er lögboðið að hafa hjálma á vélhjólum og ég hef ekki orðið vör við annað en að því sé fylgt mjög vel eftir, bæði af ökumönnunum sjálfum og lögreglu þannig að maður hlýtur að trúa því að ekki væri neitt flóknara að fylgja eftir ákvæði eins og því sem hér er lagt til.

Því er ekki að neita að ég hef heyrt þær raddir að þetta sé fáranleg skerðing á frelsi manna, hvernig menn ætli eiginlega framkvæma þetta, hvort lögreglan eigi að vera að elta bændur í göngur o.s.frv. En þetta finnst mér ekki haldbær rök. Það á ekki að vera neitt flóknara að fylgja þessu ákvæði eftir en að sjá til þess að menn fari að lögum almennt.

Ég vildi aðeins þakka hv. þm. fyrir að taka undir efni frv. og vonast svo sannarlega til þess að ekki muni vefjast fyrir okkur að lögleiða frv. á þeim örstutta tíma sem eftir er af þinginu.