Hafnaáætlun 1999-2002

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 16:23:11 (3338)

1999-02-08 16:23:11# 123. lþ. 60.14 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[16:23]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um hafnaáætlun fyrir árin 1999--2002 ásamt brtt. sem fylgja með á sjálfstæðu skjali. Nefndin fór yfir þetta mál, kallaði til sín nokkra aðila, og er gerð grein fyrir þeim, en áður hafði það fengið verulega umfjöllun, verið m.a. sent til umsagnar sveitarstjórna vítt og breitt um landið sem höfðu þar með tækifæri til að tjá hug sinn til málsins og fara yfir það eins og gert er ráð fyrir í lögum um hafnaáætlun og hv. þm. að sjálfsögðu þekkja.

Samkvæmt 24. gr. hafnalaga, nr. 23/1994, með síðari breytingum, skal Siglingastofnun Íslands gera sérstaka fjögurra ára áætlun um hafnarframkvæmdir á tveggja ára fresti. Við áætlunargerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild og ber Siglingastofnun við áætlunargerðina að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórn í einstökum sveitarfélögum eða þá Hafnasamband sveitarfélaga og hafnaráð. Áætlunina skal síðan leggja fyrir Alþingi til samþykktar í formi þáltill., eins og hér hefur verið gert.

Það sem gerir þessa þáltill. dálítið sérstaka er að við gerð hafnaáætlunar var höfð hliðsjón af niðurstöðum reiknilíkans sem Siglingastofnun hefur útbúið. Í stórum dráttum er aðferð stofnunarinnar sú að skipta höfnum landsins í flokka og hverjum flokki er sniðinn stakkur eftir vexti þannig að ekki er samþykkt að taka inn framkvæmd nema hún sé í samræmi við stærðarflokk hafnarinnar. Líkanið sem þarna er stuðst við byggir á því að reiknaðar eru tvær megineinkunnir. Annars vegar svokölluð umsvifaeinkunn, sem tekur tillit til umferðar, aflamagns og aflaverðmætis í höfninni, en líka er tekið tillit til kostnaðar við viðkomandi framkvæmd og mikilvægis útvegs og fiskvinnslu fyrir byggðarlagið. Þannig hlýtur ódýr framkvæmd hærri einkunn en dýr í sömu höfn. Hins vegar er tekið tillit til áhrifa af framkvæmdinni. Þá er reiknað út hversu mikið hún bætir aðstöðu í höfninni. Ef framkvæmdin hefur áhrif umfram viðmiðunarmörk Siglingastofnunar fær hún ekki einkunn. Þannig fær bryggja ekki einkunn ef þarfir fyrir viðlegu og löndun eru þegar uppfylltar í viðkomandi höfn. Þessar tvær einkunnir fyrir umsvif og hafnarbætur sem hver framkvæmd fær eru að lokum margfaldaðar saman. Þetta þýðir að jafnvel þótt mikil umsvif séu í höfninni þessa stundina þá dugir það ekki til að framkvæmdin komist ofarlega á lista.

Þetta líkan hefur verið í undirbúningi og þróun talsvert lengi og hefur verið beðið eftir því vegna þess að þarna er þó a.m.k. gerð tilraun til að setja fram ákveðna þarfagreiningu til að styðjast við og byggja framkvæmdir hafnanna á. Er þetta mikið til stuðnings fyrir sveitarfélögin en einnig fyrir Alþingi að átta sig á mikilvægi einstakra framkvæmda. En mannanna verk þurfa stöðugrar endurskoðunar við og þetta þarf þess líka. En auðvitað er ýmislegt sem má segja að geti orkað tvímælis þegar verið er að leggja upp forsendur fyrir líkanagerð af þessu tagi. Að öllu samanlögðu telur samgn. hins vegar að þetta líkan sé mjög mikilvægur grundvallarþáttur að byggja á en við teljum jafnframt að þróa þurfi líkanið frekar í samvinnu við hlutaðeigandi aðila og sérfræðinga sem að málinu hafa komið.

Sú hafnaáætlun sem núna er í gildi er hin fyrsta sem Alþingi samþykkti og ég tel að það hafi verið mjög mikilvæg og merk tímamót þegar það gerðist. Þegar þetta mál var undirbúið á sínum tíma í samgn. Alþingis var lögð mikil áhersla á að marka tilteknar verklagsreglur til að vinna eftir enda er það svo að þegar samþykkt er í fyrsta skipti plagg af því tagi sem hafnaáætlun er, þá er auðvitað mjög mikilvægt að menn viti í grundvallaratriðum hvernig hægt er að vinna með það plagg í framtíðinni. Þess vegna var það þannig að samgn. ákvað og mótaði sérstakar verklagsreglur, sem við gerðum ítarlega grein fyrir í nál. á þeim tíma, fyrir hafnaáætlunina sem gildir fyrir árin 1997--2000. Þessi hafnaáætlun, sem við fjöllum um nú, er að nokkru leyti endurskoðun á þeirri hafnaáætlun eins og eðlilegt er. Það er ekki ástæða til að fara yfir þær ábendingar eða verklags- og meginreglur sem samgn. mótaði á sínum tíma og var almennt vel tekið í þinginu, enda stóðu að henni allir þingmenn sem sátu í samgn. á þeim tíma og sitja raunar enn, en eðlilegt að vísa eingöngu til umfjöllunar í nál. frá 121. löggjafarþingi, þskj. 1177, þar sem þessi mál eru útskýrð. Það er hins vegar þannig að reynslan af þessum verklags- og meginreglum hefur verið góð, sérstaklega að mati sveitarstjórnarmanna á hafnasambandsþingi sveitarfélaganna fyrir nokkrum árum eftir að þetta mál var orðið þinglegt skjal. Þá kom einmitt fram mikil ánægja með það hvernig að þessu hefði verið staðið á sínum tíma og er það mjög mikill stuðningur fyrir framkvæmd málsins.

Samgn. telur mjög mikilvægt að verklagsreglurnar sem við mótuðum fyrir tveimur árum verði áfram hafðar í heiðri til að skapa vissa festu við framkvæmd á samþykktum Alþingis. Það hefur þegar komið fram að þessi verklagsaðferð hefur skapað festu. T.d. er ljóst og kemur greinilega fram í till. til þál. um hafnaáætlunina að dregið hefur úr skuldasöfnun ríkisins við sveitarfélögin m.a. vegna þess að þetta er allt í fastari skorðum en áður. Hins vegar breytast aðstæður mjög hratt í landinu eins og við þekkjum í einstökum höfnum, útgerðarhættir breytast, þarfirnar eru misjafnar og þess vegna þurfum við að hafa tiltekna sveigju til að bregðast við í einstökum málum og það var einmitt það sem nefndin lagði mikla áherslu á þegar málin voru afgreidd á sínum tíma.

Samgn. mælir með samþykkt till. með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Breytingarnar taka allar mið af því að heildarframlag ríkisins til hafnarframkvæmda verði hið sama og tillagan gerir ráð fyrir, en um nokkrar tilfærslur verkefna er að ræða, fyrst og fremst innan sveitarfélaga. Það hefur verið reynt að taka tillit til athugasemda hafnarstjórna þar sem það hefur verið hægt. Breytingarnar eru raktar í nál. en engin ástæða er til að telja þær upp í einstökum liðum. Ég vil einungis segja að býsna góð samstaða var um málið í hv. samgn. Hv. þm. Stefán Guðmundsson var fjarverandi afgreiðslu málsins en aðrir sem undir þetta þingskjal rita eru formaður og framsögumaður, Einar K. Guðfinnsson, hv. þm. Egill Jónsson, Árni Johnsen, Magnús Stefánsson og Kristján Pálsson. Aðrir hv. þm., Guðmundur Árni Stefánsson, Ragnar Arnalds og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, skrifa undir nál. með fyrirvara.