Skipulag ferðamála

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 16:31:15 (3339)

1999-02-08 16:31:15# 123. lþ. 60.15 fundur 361. mál: #A skipulag ferðamála# (skipan ferðamálaráðs) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er kjarni þessa frv. að lagt er til að fella Ferðamálaráð niður í núverandi mynd. Samkvæmt lögum nr. 117/1994 sitja nú 23 fulltrúar í Ferðamálaráði og eru sjö þeirra í sérstakri framkvæmdastjórn. Hér er gert ráð fyrir að þetta sérstaka Ferðamálaráð 23 fulltrúa verði verði fellt niður en í stað þess sitji Ferðamálaráð sjö menn sem samgrh. skipi og skuli jafnmargir vera til vara. Skipunartími skuli vera fjögur ár en skipunartími ráðherraskipaðra fulltrúa þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar þá. Tveir skulu skipaðir án tilnefningar og annar skal þeirra vera formaður ráðsins en hinn varaformaður. Aðra fulltrúa í Ferðamálaráð skipi ráðherra eftir tilnefningu eftirtalinna aðila: Samtaka ferðaþjónustunnar, sem tilnefna tvo menn, Sambands ísl. sveitarfélaga sem tilnefnir tvo og Ferðamálasamtaka Íslands sem tilnefna einn. Þá er kveðið á um að Ferðamálaráði skuli heimilt að skipa undirnefndir til þess að vinna að einstökum málaflokkum og að heimilt sé að skipa menn sem ekki eiga sæti í Ferðamálaráði. Loks er í 4. gr. lagt til að í 7. gr. laganna skuli fjölgað um einn lið þar sem skilgreind eru verkefni Ferðamálaráðs og tekinn inn liðurinn: Rannsóknir og kannanir á sviði ferðamála.

Frv. er flutt vegna óska frá Samtökum ferðaþjónustunnar sem þótti hið gamla Ferðamálaráð of þungt í vöfum. Með þessari breytingu er að sjálfsögðu áfram gert ráð fyrir því að þing þeirra sem vinna að ferðaþjónustu skuli haldið einu sinni á ári til þess að fyrirtækjum í ferðaþjónustu og því fólki sem vinnur að slíkum störfum eða er við nám í ferðaþjónustu gefist tækifæri til að bera saman bækur sínar.

Eins og ég sagði lögðu hin nýju samtök ríka áherslu á að frv. væri flutt. Mér var ljúft að verða við því og tel eðlilegt að Alþingi taki málið til meðferðar og ræði það við Ferðamálasamtök Íslands og aðra sem koma að þessum málum. Ég legg áherslu á að hér er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin komi mjög sterklega inn með tvo fulltrúa enda eru þau í vaxandi mæli að leggja fram fé til ferðamála og æ fleiri gera sér grein fyrir því hversu ríkan þátt ferðaþjónustan á í atvinnuuppbyggingu úti á landi, í því að skapa fólki úti á landi vinnu, og er jákvætt í því sambandi að ferðamönnum utan hins skamma og nauma tíma, annatímans yfir sumarið, fer mjög fjölgandi þannig að við því er að búast að ferðaþjónustan í heild sinni geti horft með bjartsýni fram á veg.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti. Ég mælist til þess við samgn. að hún fari yfir frv., kynni sér þau sjónarmið sem liggja til grundvallar hjá Samtökum ferðaþjónustunnar og ég vonast til þess að það takist að afgreiða frv. nú á þessu þingi. Það er þó í mínum huga ekki neitt úrslitaefni. Hér er um óvenjulegt frv. að ræða að því leyti að gert er ráð fyrir því að minnka báknið í stað þess að stækka það. Það á að draga úr ríkisafskiptum, sem ég tel jákvætt, í þeim tilgangi að auka skilvirkni í greininni. En til hliðar og jafnframt þessu er í undirbúningi að koma til móts við þarfir ferðaþjónustunnar með markvissara markaðsstarfi en verið hefur og líka með því að beina frekari fjármunum en verið hefur til rannsókna á sviði ferðaþjónustu og með því að leggja meiri áherslu en áður á umhverfisþætti ferðaþjónustunnar. Allt þetta lítur að því að koma til móts við þau nútímalegu sjónarmið sem óhjákvæmileg eru í ferðaþjónustunni svo hún geti haldið velli.

Ég legg til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og samgn.