Skipulag ferðamála

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 16:37:30 (3340)

1999-02-08 16:37:30# 123. lþ. 60.15 fundur 361. mál: #A skipulag ferðamála# (skipan ferðamálaráðs) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[16:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég leyfi mér að óska hæstv. samgrh. til hamingju með þetta merka frv. Það er eins og mig rámi eitthvað í að hæstv. ráðherra hafi af og til á undanförnum átta árum gert atrennur að því að breyta lögunum um skipan ferðamála og gengið alla veganna. En hér er sem sagt á áttunda ári hæstv. ráðherra í embætti enn lögð til breyting á skipan Ferðamálaráðs a.m.k. Man ég satt best að segja ekki hvort ráðherra hefur komið einhverju fram áður en þó dreg ég það í efa og leyfi mér nú að spyrja hæstv. ráðherra svona í framhjáhlaupi hvar þetta mál standi í samhengi við heildarendurskoðun laga um skipulag ferðamála sem einu sinni var a.m.k. fyrirhuguð. Tæpast getur þetta litla frv. í fáeinum greinum, sem aðallega snýst þó um breytingu á 4. gr. laganna, talist heildarendurskoðun.

Það er þó ástæða til að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að vera kominn þetta langt með þessa uppskeru eftir átta ár.

Ég hafði ekki áttað mig á því að það fækka í Ferðamálaráði væri jafnframt hluti af einkavæðingarpakka ríkisstjórnarinnar og liður í því að minnka ríkisumsvif, báknið burt og allt það. Það er sjálfsagt ein aðferð við að líta á hlutina með svona jákvæðu hugarfari að það sé verulegt framlag til einkavæðingar í landinu að fækka fulltrúum greinarinnar sem koma saman í Ferðamálaráði og gera í aðalatriðum núverandi framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs að Ferðamálaráði. Það er aðferð út af fyrir sig.

Herra forseti. Ég leyfi mér þó að lýsa vissum efasemdum um þetta út frá þeim sjónarhóli að það sé að öllu leyti jákvætt ef ekkert annað kemur í staðinn. Nú getur vel verið að sjö manna Ferðamálaráð verði virkara sem slíkt og leysi prýðilega af hendi það hlutverk sem framkvæmdastjórnin áður var með og menn hætti þá að reyna að kalla saman stærra batterí, sem var fullskipað Ferðamálaráð með 23 fulltrúum. En það hafði þó þann kost að þar komu saman mjög margir hagsmunaaðilar úr greininni. Ég er þá ekki að tjá mig um hina pólitísku hlið og það hvort hæstv. ráðherra skorar prik hjá þeim sem eru að mæla ágæti t.d. ráðherra Sjálfstfl. og afrek á sviði einkavæðingar. E.t.v. bindur hæstv. ráðherra, samanber þessa framsöguræðu, vonir við að fá aftur bikarinn frá Heimdalli, verða aftur þingmaður ársins fyrir vasklega frammistöðu í einkavæðingu. En eins og kunnugt er fékk hæstv. samgrh. þennan farandbikar einu sinni að verðlaunum fyrir vasklega frammistöðu þegar hæstv. ráðherra lagði niður Ríkisskip.

Nei, ég er fyrst og fremst að hugsa um það, herra forseti, gamanlaust að það skiptir miklu máli að ferðaþjónustan sem atvinnugrein eigi sér vettvang þar sem hún kemur saman. Einu sinni voru ræddar hugmyndir um það, einmitt í tengslum við breytta skipan Ferðamálaráðs, að á móti e.t.v. fækkun í því og öðruvísi samsetningu þess kæmi einhvers konar þing, ferðaþing, þar sem ferðaþjónustan kæmi saman í heild sinni, sem fengi lögverndaða stöðu eða fengi hlutverk sem væri að einhverju leyti vísað í í lögum um ferðaþjónustu eða skipan ferðamála. Að sjálfsögðu halda ferðaþjónustuaðilar sín þing og sína fundi eins og frjáls félagasamtök gera og hafa alla stöðu í því sambandi. En spurningin væri t.d. hvort einhvers konar ferðaþing ættu að koma inn í lögin eða vísan til þeirra. Það gæti að mínu mati vel komið til álita.

Að lokum, herra forseti, fagna ég að sjálfsögðu stofnun Samtaka ferðaþjónustunnar og mér finnst eðlilegt að hæstv. ráðherra taki mið af tilmælum hinna nýju samtaka. Það var alveg tvímælalaust framfaraspor og ánægjulegt að ferðaþjónustan náði loks saman í einum slíkum heildarsamtökum. Ég óska þeim að sjálfsögðu alls góðs og gæfu og gengis í sínum hagsmunastörfum fyrir ferðaþjónustuna sem mikilvæga og vaxandi atvinnugrein. Það er eðlilegt að tilkoma þessara samtaka leiði til endurskoðunar m.a. á því hvernig greinin tengist inn í hina opinberu stjórnsýslu ferðaþjónustunnar og inn í Ferðamálaráð og frv. gerir einmitt ráð fyrir því að Samtök ferðaþjónustunnar fái þarna tilnefningarvald á tveimur fulltrúum inn í hið nýja sjö manna Ferðamálaráð.

Herra forseti. Þetta voru mínar hugleiðingar við 1. umræðu um þetta mál.