Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:08:56 (3345)

1999-02-08 17:08:56# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:08]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er rætt mál sem verið hefur töluvert deilumál um nokkra hríð, þ.e. um skipulags- og byggingarmál og fyrst og fremst um hvernig skipulagsmálum hálendisins skuli háttað. Á síðasta þingi var þetta mál mjög til umræðu og blandaðist fyrst og fremst inn í umræðu um frv. til sveitarstjórnarlaga sem var til afgreiðslu sl. vor. Mér fannst umræðan um frv. um sveitarstjórnarlög á tíðum nánast eingöngu vera um efnið sem hér er til umræðu. Mér fannst það mjög miður á þeim tíma vegna þess að þá vorum að ræða um grundvallarlöggjöf sveitarstjórnarstigsins sem er auðvitað mjög mikilvægt mál. Umræða um skipulagsmál eins og hér fer fram tók mikið rúm á síðasta þingi.

Út af fyrir sig er ég ekki að setja út á að þessi mál séu rædd. Þetta er auðvitað stórt og mikið mál sem mikilvægt er að hafa í góðu lagi en í tengslum við þetta frv. sem ég nefndi, sveitarstjórnarlagafrv., fannst mér umræðan taka heldur mikinn tíma.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að ekki hafi verið sérstök ástæða til að gera breytingar á skipulags- og byggingarlögum hvað þetta varðar. Í gildandi lögum eru ákvæði um þá framkvæmd en vegna deilna í þjóðfélaginu og á Alþingi þótti mönnum rétt að reyna að sætta sjónarmiðin. Þar horfðu menn til þess að gera breytingar á þeim lögum sem hér eru til umfjöllunar.

Deilurnar hafa fyrst og fremst snúist um hver ætti að hafa valdið, hvort vera ætti eitt sérstakt sveitarfélag á hálendinu eða skipa þyrfti svæðisskipulagsnefnd og hverjir ættu þá að koma að henni. Ég vildi á síðasta þingi taka þátt í að finna lausn á þessu deilumáli. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé fyrir þjóðina alla og raunar hvern sem er að sem mest sátt sé um þessi mál. Við þurfum ekki að standa í deilum um hverjir eigi að hafa skipulagsvald og hverjir eigi að koma að þessum málum árum saman. Ég tel að engum sé til hagsbóta að hafa slíkar deilur logandi til lengdar.

Eftir miklar umræður um þessi mál er komið fram stjfrv. sem er afrakstur af viðræðum um hvernig þessum málum skuli háttað. Eins og ég sagði áðan hefur fyrst og fremst verið tekist á um hverjir eigi að tilnefna fulltrúa í samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins, hve margir fulltrúar ættu að vera í þeirri nefnd og frá hverjum þeir ættu að koma. Hér er komin tillaga um framkvæmdina.

Í 2. gr. frv. segir að í þessari nefnd skuli vera 11 fulltrúar og að umhvrh. velji níu án tilnefningar og þar af formann. Átta af þessum níu fulltrúum skulu valdir úr átta kjördæmum landsins í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Síðan tilnefnir félmrh. einn og félagasamtök um útivist einn. Samkvæmt þessum tillögum fær umhvrh. vald til að skipa níu fulltrúa fyrir hönd sveitarfélaganna í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Þarna er um töluvert mikla breytingu að ræða vegna þess að í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin sjálf eða héraðsnefndir skipi fulltrúana. Varðandi þessa tillögu virðist mér merkilegast að félagssamtökum er gert töluvert hátt undir höfði miðað við hlut sveitarfélaganna. Viðkomandi félagasamtökum er samkvæmt þessu gert að tilnefna fulltrúa sinn beint. Þetta vil ég láta koma fram og tel spurningu hvort rétt sé að hafa það svona en vísa því til umfjöllunar í hv. nefnd. Ég hef ekki sérstakar tillögur um það hér. Þarna er gert ráð fyrir því að félagasamtök, sem reyndar er ekki skilgreint hvaða samtök eru, eigi að koma sér saman um að tilnefna einn fulltrúa í nefndina.

Í umræðum um þessi mál hefur mér þótt fara mest fyrir umræðum um hagsmuni annarra en sveitarfélaga og þeirra sem komið hafa að því að starfa við hálendið eða hafa eitthvað um þau mál að segja. Hávaðinn hefur fyrst og fremst verið af hálfu þeirra sem vilja koma að þessum málum, þá kannski aðallega í þéttbýlinu. Ýmsir, svo sem félagasamtök umhverfissinna og aðrir hafa krafist þess að miðstýra svæðinu, væntanlega héðan úr höfuðborginni. Minna hefur farið fyrir röddum þeirra sem aðra hagsmuni eiga í þessum málum.

Ég vil leyfa mér að segja, herra forseti, að mér hefur á köflum fundist, þó umræðan hafi verið málefnaleg að mestu leyti, bera örlítið á leiðinlegri umræðu. Það er ekki laust við að ákveðis hroka hafi gætt gagnvart sveitarstjórnarmönnum á landsbyggðinni og fólkinu sem þar lifir og starfar. Það hefur farið dálítið í taugarnar á mér og fleirum hvernig það hefur verið. Ég vil hins vegar taka fram að umræðan hefur að langmestu leyti verið málefnaleg. Það er auðvitað gott þegar um svo stórt mál er að ræða.

[17:15]

Herra forseti. Ég vil að endingu beina því til fulltrúa í hæstv. umhvn. að þegar málið kemur þar til umfjöllunar verði þeim aðilum sem hafa komið að þessum málum gefinn kostur á að veita sínar umsagnir og tjá hug sinn til frv. og að tryggður verði eins og kostur er hlutur þeirra aðila við tilnefningu fulltrúa í þessa samvinnunefnd. Ég vil að lokum beina því til umhvn. að huga sérstaklega að því að kalla eftir sjónarmiðum þessara aðila í umfjöllun nefndarinnar um frv.