Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:20:47 (3348)

1999-02-08 17:20:47# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:20]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er í rauninni ekki að kalla eftir skoðun, en það er að sjálfsögðu á sínum stað að hv. þm. lýsi annarri skoðun en frv. ber með sér og er þar með í andstöðu við efnisákvæði frv. Hitt er það sem ég er að benda á og er í rauninni að fá samlestur með hv. þm. á túlkun á frv., þ.e. að hér er sérstök nefnd sem ekki er nefnd fulltrúa sveitarfélaga, hvorki aðliggjandi né annarra heldur sérstök ráðherraskipuð nefnd sem á að gera tillögur samkvæmt skipulagslögum um þetta tiltekna svæði innan tiltekinnar línu. Það er auðvitað dagljóst, virðulegur forseti, að það er ekki nefnd sveitarfélaga í samhengi skipulagslaga og það er út af fyrir sig allt í lagi. Sveitarfélögunum ber síðan í aðalskipulagi sínu, sem nær inn á þetta svæði samkvæmt sveitarfélagamörkum, að taka tillit til þess svæðisskipulags sem þannig hefur verið mótað. Þarna er komið til móts við þá gagnrýni en formið og þar með tilvísunin í 13. gr. --- en hæstv. ráðherra hefur ítrekað vísað til að eigi að fara eftir þeirri grein --- þ.e. áframhaldandi vinnuferli, fær einfaldlega ekki staðist. Það er mikið áhyggjuefni að mínu mati að hæstv. umhvrh. og ráðuneyti umhverfismála skuli geta sett slíka tillögu fram í þinginu, sem þeir eru búnir að liggja yfir allt of lengi, átti auðvitað að koma hér í byrjun þings þannig að svigrúm gæfist til að fjalla um málið og skapa grundvöll m.a. til að hæstv. umhvrh., sá er nú situr, gæti staðfest fyrirliggjandi tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins sem unnið hefur verið að lengi svo að einhver niðurstaða lægi þó fyrir í þeim efnum. Þetta er nú málið sem hér er verið að ræða og mínar áhyggjur í sambandi við það.