Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:23:18 (3349)

1999-02-08 17:23:18# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:23]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hafði tekið svo eftir að hér væri annar hv. þm. á mælendaskrá. Þannig var það skráð á tölvuskjá þingsins fyrir skömmu.

(Forseti (RA): Hann féll frá orðinu.)

Sá hefur fallið frá orðinu, þannig skýrist þetta. Ég þakka fyrir að fá orðið nú um málið og get þá komið svolítið ítarlegar að því efni sem ég tel mjög þýðingarmikið að verði sem ljósast hér áður en 1. umr. um málið lýkur og málið gengur til nefndar og hafi ég ekki talað nógu skýrt þannig að t.d. hæstv. umhvrh. hafi skilið fyllilega áhyggjur mínar. Ég er ekki að gera því skóna að ríkja þurfi grundvallarefniságreiningur varðandi málið, en þó mætti ætla það samkvæmt túlkun hæstv. ráðherra á eigin frv. og viðbrögðum við framkomnum athugasemdum.

Virðulegur forseti. Það er nokkurt kjarnaatriði sem kom hér fram í orðaskiptum mínum við hv. 3. þm. Vesturlands áðan. Það er að sú nefnd sem þarna verður til samkvæmt 2. gr. þessa frv. er ekki skipuð fulltrúum sveitarfélaga. Hún er skipuð fulltrúum ráðherra, af 11 eru átta skipaðir af ráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og það liggur ljóst fyrir að ráðherra er ekkert skuldbundinn af því samráði. Hann hefur skipulagsvaldið og Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki lögaðili í samhengi skipulagslaga. Af þessu leiðir að sú tillaga sem til verður, ef þetta ferli á að vinnast á þennan hátt, er tillaga nefndar sem er þannig samsett og hefur ekki tengsl við viðkomandi sveitarfélög. Enda er það augljóst að þegar talað er um að velja einn fulltrúa úr hverju kjördæmi landsins má segja að kylfa ráði kasti úr hvaða sveitarfélagi viðkomandi fulltrúi kemur og hann er augljóslega ekki fulltrúi sveitarstjórnar. Ég hélt það væri ætlun ríkisstjórnarinnar að svo væri heldur ekki, heldur sé einfaldlega um landfræðilega dreifingu að ræða á þeim fulltrúum sem koma í nefndina, en tengsl við sveitarfélög, sveitarstjórnir eru ekki til staðar að formi til. Af því leiðir, virðulegur forseti, að hér er verið að setja upp sérstaka svæðisskipulagsmeðferð innan nefndrar línu á mörkum afréttar og heimalanda.

Ég hef áður í þessu máli vakið athygli á að sú lína á mér vitanlega enga formlega stoð í tilverunni sem stendur og spurning mín til ráðherra fyrr í umræðunni var sú, og ég leyfi mér að ítreka hana: Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin eða framkvæmdarvaldið festa þessa línu? Ef farið er algerlega í fótspor þeirrar vinnunefndar að svæðisskipulagi miðhálendisins sem áður starfaði og gerði tillögur að svæðisskipulagi miðhálendisins, þá er ekki hægt að vísa til þess. Vegna þess að í störfum þeirrar nefndar var vikið frá mörkum afrétta og heimalanda og verulegur sveigjanleiki á vissum stigum sem skapaðist m.a. vegna þess að sú vinna var byggð á þeirri forsendu svæðisskipulagsnefndar að línan hyrfi í framhaldinu og skipulagsforræðið yrði einnig í svæðisskipulagslegu tilliti á vegum sveitarfélaganna. Ef hins vegar hefur tekist eitthvert nýtt samkomulag og tryggilega hefur verið gengið frá málum um þessa línu, þá er það vel. Það er gott ef það er búið en ég fékk það ekki frá hæstv. ráðherra fyrr í umræðunni að svo væri og við fengum harla loðin svör varðandi þessa línu, hver staða hennar væri.

[17:30]

Og vegna þess að hér er verið að búa til sérstaka svæðisskipulagsmeðferð, sérstakt stjórnsýslustig í samhenginu svæðisskipulag miðhálendisins, þá þarf líka að vera alveg skýrt markað hvernig verður á vinnunni haldið til þess að leita endanlegrar staðfestingar og afgreiðslu á slíkri tillögu. En það er allt í brotum eins og það kemur hér frá hæstv. ráðherra, því miður. Mér finnst það til mikils ætlast, virðulegur forseti, af hæstv. ráðherra að leggja það í hendur umhvn. þingsins á þessum stutta starfstíma sem fram undan er, að finna út úr þeim grundvallaratriðum sem eru óljós samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar. Þetta eru mínar áhyggjur, virðulegur forseti. Það er auðvitað afskaplega losaralega að máli staðið að ekki skuli liggja fyrir tilvísun til þess hvort framhaldsmeðferð málsins færi eftir 13. eða 15. gr. skipulagslaga, og að það skuli ekki vera skýrt, ef ekki í sjálfum frumvarpstextanum eins og eðlilegt hefði verið, þá a.m.k. í greinargerð.

Mér sýnist, því miður, að ríkisstjórnin sé með þessu að kasta fram á elleftu stundu, miðað við möguleika á afgreiðslu þessa máls, hugmynd, tillögu sem eigi að friða og koma til móts við gagnrýni, eins og hæstv. ráðherra réttilega sagði, en sem fullnægir ekki þeim grundvallarskilyrðum að falla skýrt inn í skipulagslöggjöfina þannig að ekki þurfi að rísa af því deilur. Maður hafði kannski ímyndað sér að þessi óhóflegi dráttur af hálfu ríkisstjórnarinnar á að leggja málið fyrir á þessu þingi hafi komið til vegna þess að ríkisstjórnin hafi verið að vinna heimavinnuna í baklandinu, m.a. í samráði við sveitarfélög landsins o.s.frv., að væri ástæðan, en það verður ekki séð af því sem komið hefur fram af hálfu hæstv. ráðherra.

Virðulegur forseti. Ég ætla mér ekki að gerast neinn dómari í þessu máli. Ég hef enga stöðu til þess. En ég tel mig vera bærilega læsan á skipulagslögin sem sett voru 1997 vegna þess að ég vann að gerð þeirra og ég hef leitað álits hjá mönnum sem eiga að vera mun betur læsir en ég á þetta og eru að fást við skipulagsmál í reynd. Og ég hef numið það svo að þeir hinir sömu hefðu þær áhyggjur sem ég er að viðra hér við þessa umræðu. Auðvitað væri ég mjög þakklátur ef hæstv. ráðherra leysti ljósar úr þessum málum en gerst hefur áður í umræðunni. Ég væri mjög ánægður með það og treysti því að hæstv. ráðherra komi hér og upplýsi mig, vantrúaðan, á ágæti málsins og leysi úr þeim spurningum sem hér hafa ítrekað verið reistar í sambandi við málið.

Virðulegur forseti. Ég vil að endingu aðeins segja af því að hér kom fram hjá einum stjórnarliða að með nýlega útgefnum bæklingi um miðhálendi Íslands væri búið að leysa einhvern mikinn vanda og eyða miklum misskilningi. Það var hv. þm. Kristján Pálsson sem sagði það. Betur að satt væri. En ég hef ætlað mér að fá það mál til umræðu í þinginu sérstaklega, þ.e. gerð þessa bæklings sem gefinn er út á ábyrgð sjálfrar ríkisstjórnarinnar með alveg sérstakri uppáskrift eða fylgt úr hlaði af fjórum hæstv. ráðherrum. En það er önnur saga, virðulegur forseti.