Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:34:07 (3350)

1999-02-08 17:34:07# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:34]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki miklu við það að bæta sem áður hefur komið fram í þessari umræðu. Ég vil þó ítreka það að hefðum við verið þeirrar skoðunar í fyrra, fyrir tæpu ári síðan, þegar verið var að ræða um sveitarstjórnarlögin að landinu skyldi ekki skipt upp í sveitarfélög á miðhálendinu heldur skyldi miðhálendinu haldið utan við sem sérstakri stjórnsýslueiningu, þá hefðum við auðvitað heldur ekkert verið með þetta mál hér til umræðu núna og hefðum ekkert þurft að vera að deila um það. En það var ekki svo. Það var ákveðið að skipta landinu öllu upp í sveitarfélög og þar með þeim stjórnsýsluverkefnum sem sveitarfélögunum ber að framfylgja. Þeim skyldi þá framfylgt á miðhálendinu einnig. Um miðhálendið skyldi hins vegar sett sérstök nefnd, það fengi sérstaka málsmeðferð og sérstaka meðhöndlun, sem verið er að gera með þessu frv. eins og það er hér sett fram, án þess að taka þetta vald af sveitarfélögunum. Ég heyrði það í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan að hann vildi skipta þessu hlutverki upp, þ.e. að löggjafarhlutverk, heilbrigðishlutverk og fleiri þættir gætu heyrt undir sveitarfélögin eins og ber samkvæmt lögum, en skipulagshlutverkið hvað varðar miðhálendið hefði átt að taka af þeim.

Á það hef ég ekki fallist. Ég ítrekaði það í fyrra í umræðunum á seinasta þingi, gerði það um daginn líka í seinustu viku, og endurtek það einnig hér að ég tel að það geti ekki verið svo heldur eigi að fela, eins og hér er verið að gera, sérstakri nefnd að gera tillögurnar og þær fara síðan til sveitarfélaganna eins og kveðið er á um í 13. gr. og það sé hin eðlilega málsmeðferð.

Hæstv. forseti. Varðandi markalínuna þá er það líka rétt eins og fram kom hjá hv. þm., að það var hugmyndin í upphafi að síðan tæki aðalskipulag sveitarfélaganna við og þá væri ekki lengur um að ræða sérstakt afmarkað miðhálendi, eins og gert var ráð fyrir í lögunum nr. 73/1993. Nú er hins vegar hugmyndin sú að viðhalda þessu svæðisskipulagi fyrir miðhálendið með sérstakri nefnd, með sérstöku starfi, sérstakri samvinnunefnd um það hlutverk og þá gildi áfram sú lína og þau mörk sem þá voru ákveðin.