Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:39:27 (3352)

1999-02-08 17:39:27# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:39]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki mikið meira um nefndina og hlutverk hennar. Ég held að ég hafi skýrt það út eins og ég hugsa það og eins og þetta er lagt hér fyrir. Hún hefur ákveðið hlutverk. Hún skal gera tillögur. Hún er sett saman á annan hátt en aðrar svæðisskipulagsnefndir sem gilda samkvæmt lögunum. Við hefðum svo sem ekki þurft að setja sérákvæði um þessa nefnd, þetta sérstaka svæði, miðhálendið, ef við hefðum ekki verið flest, hélt ég, sammála um að það ætti að taka það með öðrum hætti en almennt gerist og setja það skilyrði að til væri slík nefnd. Hitt var þá alfarið hlutverk sveitarfélaganna, að setja saman svæðisnefnd, ef þau svo vildu, um ákveðin svæði. Þau geta gert það og gera það auðvitað. Hér er verið að setja þá kvöð að slík nefnd verði til. Hún er sett saman með ákveðnum hætti eins hér er kveðið á um. Það þarf ekki að endurtaka það. En að öðru leyti fer málsmeðferðin eins og lögin kveða á um.

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð enn frekar um línuna. Þegar þetta miðhálendisskipulag sem nú er í burðarliðnum verður staðfest, sem ég vona sannarlega að verði þó að kannski þeim umhvrh. sem nú situr vinnist ekki tími til þess --- en ég vona að það komi að því --- þá höfum við ákveðna línu sem hefur verið dregin með samkomulagi. Hún hefur vonandi þá verið staðfest eða verður væntanlega staðfest af umhvrh. og þar með hefur það svæði verið afmarkað. Það er sú afmörkun sem við hyggjumst nota samkvæmt frv. eins og það liggur hér fyrir. Eins og kemur fram í frv. er það unnið af umhvrn. í samstarfi og samráði við félmrn. Félmrn. hefur haft samvinnu um málið við Samband ísl. sveitarfélaga. (Forseti hringir.) Ég veit ekki nákvæmlega hvernig, en það hefur átt samstarf við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga, forsvarsmenn þess, til þess að ná endanlegu samkomulagi um frv. eins og það liggur hér fyrir. Það er samráðið sem hefur verið haft að frumkvæði félmrh. Umhvrn. eða umhvrh. hafa ekki átt sérstaka fundi um þessa línu með fulltrúum sveitarfélaganna.