Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:42:06 (3353)

1999-02-08 17:42:06# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:42]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því út af fyrir sig að hæstv. ráðherra fullyrðir í þessari umræðu að traustur grunnur sé undir þeirri markalínu sem hér er verið að draga, þótt fram hafi komið að ráðuneyti umhverfismála hafi ekki tekið sérstaklega á því máli en flokksbróðir hæstv. umhvrh. eða ráðuneyti sem undir hann heyrir, þ.e. hæstv. félmrh., hafi gengið frá málinu þannig að tryggilegt sé. Við skulum bara vona að þetta sé rétt og standist því að ég hef sannarlega ekkert á móti því. Ég fagna því einfaldlega að þessi niðurstaða liggur fyrir og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.

Virðulegur forseti. Hitt blasir við að höfundur frumvarpsins annars vegar og ég sem þingmaður hér sem viðtakandi þessa stjórnarfrv. lesum þetta frv. ekki eins. Það skýrist væntanlega í hv. þingnefnd hvernig málið liggur og hugsanlega hvor hafi rétt fyrir sér í sambandi við þetta þótt það sé ekkert kappsmál mitt. Mitt kappsmál í þessu máli er að hægt verði að ganga frá þessu þannig að á verði byggjandi og að samkomulag ríki um þann lagagrunn sem settur verður og að það megi ná honum fram í ásættanlegum friði á Alþingi Íslendinga. Og náttúrlega umfram allt að sú vinna sem síðan fer fram endurspegli það sjónarmið að gæta beri ríkulega verndarhagsmuna á miðhálendi Íslands. Það er auðvitað undirstöðuatriði.

Um hverjir komi, t.d. frá frjálsum félagasamtökum, að mótun þessarar vinnu, þarf hv. umhvn. að fjalla. Mér finnst allt of þröngur stakkur skorinn um það í frv. ef menn á annað borð ætla að taka frjáls félagasamtök með í þessa vinnu sem ég tel hið besta mál. En þá verða menn að vanda það. Það eru ekki bara útivistarhagsmunir, það eru náttúruverndarhagsmunirnir sem þurfa að hafa góðan aðgang að þessu verki.