Starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:45:27 (3354)

1999-02-08 17:45:27# 123. lþ. 60.17 fundur 179. mál: #A starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi# þál., Flm. KH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:45]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem er 179. mál þessa þings og er á þingskjali 191. Tillagan er um bætt starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi. Flm. auk mín er hv. þingkona Guðný Guðbjörnsdóttir. Tillagar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að láta gera áætlun um bætt starfsumhverfi kvennahreyfingarinnar og annarra hópa sem vinna að jafnari stöðu kynjanna á Íslandi. Í því skyni verði gert ráð fyrir fjárveitingu samkvæmt fjárlögum til þess að styrkja kvennapólitískt starf hér á landi og til þátttöku í alþjóðlegu kvennapólitísku starfi. Einnig verði tryggðar greiðar boðleiðir á milli félaga og hópa annars vegar og stjórnvalda hins vegar með samstarfs- og upplýsingafundum um innlent og alþjóðlegt starf sem beinist að því að jafna stöðu kynjanna.``

Þannig hljóðar þessi tillaga, herra forseti, og eins og segir í upphafsorðum greinargerðarinnar er starfsemi frjálsra félagasamtaka einn af hornsteinum lýðræðisins og þyrfti í raun að vera miklu meiri skilningur ríkjandi á þeirri staðreynd. Ég held að óhætt sé að fullyrða að einmitt í slíkum samtökum og jafnvel bara í mjög litlum hópum sem hafa ekkert sérlega vel skilgreint formlegt skipulag eða hlutverk, eiga oft upphaf sitt umbætur sem skipta gríðarlega miklu máli í samfélagi okkar.

Víða erlendis er skilningur á mikilvægi slíkra hópa eða samtaka mikill og á það erum við iðulega minnt í gögnum og niðurstöðum, ályktunum frá ráðstefnum og fundum þar sem aðkoma frjálsra félagasamtaka er tryggð. Þau hafa þar gjarnan seturétt og málfrelsi og hafa oft mikil áhrif á gang mála. Frjáls félagasamtök starfa oft í beinum tengslum við grasrótina og eru í mun betri aðstöðu en stjórnvöld til að bregðast vafningalaust við nýjum aðstæðum og skilgreina þarfir og skoðanir hins almenna borgara. Þau koma á framfæri sjónarmiðum og ábendingum sem koma stjórnvöldum að gagni og verka þannig sem mótvægi við stjórnkerfið sem er oft óneitanlega þungt og seinvirkt. Þetta á auðvitað við um mjög marga málaflokka, t.d. umhverfis- og náttúruverndarmál og mannréttindamál af öllu tagi.

Sú tillaga sem hér er til umræðu lýtur að einum þætti mannréttindamála, þ.e. kvennabaráttunni. Á alþjóðavettvangi hefur á undanförnum árum skapast verulega aukinn skilningur á mikilvægi og hlutverki kvennahreyfingarinnar. Hefur sá aukni skilningur haft í för með sér bætt starfsskilyrði sem hafa leitt til þess að starfsemi kvennahreyfingarinnar hefur eflst og vísa ég þar til starfs á vettvangi Evrópuráðsins, Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Þess er skemmst að minnast að Evrópusambandið hefur ákveðið að veita fé að jafngildi 2 milljarða íslenskra króna til frjálsra félagasamtaka sem vinna gegn ofbeldi á konum og börnum. Þetta var ákveðið á síðari hluta síðasta árs, þ.e. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað að auka framlög til svokallaðs Daphne-frumkvæðis en það gengur út á að styrkja frjáls félagasamtök sem berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og börnum. Gerð verður sérstök áætlun sem ber nafnið Daphne og Evrópusambandið hyggst leggja um 2 milljarða kr. til hennar á árunum 2000--2004. Ástæðan til þess að þetta skref er stigið er sú að félagasamtök beita oft árangursríkari aðferðum en hið opinbera til að ná til almennings og til þeirra sem eru í áhættuhópum, svo vitnað sé til orða Anitu Gradin sem fer m.a. með dómsmál hjá Evrópusambandinu. Þetta hlutverk félagasamtaka þarf einnig að meta að verðleikum hér á landi og skapa svigrúm fyrir nýja hópa með nýjar hugmyndir og sérstaklega þarf að huga að og veita brautargengi góðum hugmyndum sem hafa keðjuverkandi áhrif í þá átt að leiðrétta kynjamisrétti á Íslandi, jafnvel þótt hugmyndirnar komi frá litlum og lítt skilgreindum hópum og/eða þá einstaklingum.

Að vissu marki koma íslensk stjórnvöld til móts við rótgróin félagasamtök eins og ungmennahreyfinguna, íþróttahreyfinguna, skáta og fleiri samtök með hefðbundið skipulag og uppbyggingu en á meðal félagasamtaka hefur kvennahreyfingin mikla sérstöðu. Það er eðli hreyfingarinnar að innan hennar hafa oft myndast litlir óformlegir hópar sem hafa ekki neinar félagaskrár og finnast hvergi á skrám yfir formleg félagasamtök. Þessir hópar hafa brugðist skjótt við nýjum aðstæðum og hafa starfað að afmörkuðum verkefnum í stuttan tíma. Þannig stigu Samtök um kvennaathvarf, Kvennaráðgjöf, Stígamót og fleiri fyrstu skref sín svo bara séu nefnd þau kvennasamtök sem allir ættu að þekkja en einnig má nefna hópa eins og Konur gegn klámi, Áhugahóp um aðgerðir til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir unglingsstúlkna og fleiri slíka hópa sem hafa starfað tímabundið á undanförnum árum. Svo er nefnt hér dæmi um nýja hópa af þessu tagi sem starfa á kvennapólitískum forsendum. Það mætti nefna hóp ungra kvenna sem hafa mikinn áhuga á femínisma og nefnist Bríet. Um þessar mundir er sá hópur að vinna að gerð útvarpsþátta um jafnréttismál eða var a.m.k. þegar þessi tillaga var undirbúin, nú veit ég ekki hvernig það starf hefur gengið eða hvort þeir þættir eru komnir í loftið. Nefna má ný samtök sem nefnast Kynjaverur, það er ungt fólk sem vill skoða sjálft og skilgreina kynjabaráttuna, kvennakirkjuna þekkja margir. Hún nýtur æ meiri vinsælda og er ekki vanþörf á kvenfrelsisstarfi innan þjóðkirkjunnar og að hlúa að slíku starfi. Samstaða gegn kynferðisofbeldi kallast líka nýstofnuð samtök sem vonandi eiga eftir að láta að sér kveða í framtíðinni.

Það hvarflar ekki að mér að peningar séu upphaf og endir alls þegar um slíkt starf er að ræða en það er ljóst að lífslíkur og árangur þessara hópa mundu aukast til mikilla muna ef hægt væri að sækja um fjárveitingar til að koma í verk einhverjum af þeim hugmyndum sem félagsfólk hefur. Þessum hópum og einstaklingum þyrfti að gefa tækifæri til að sækja um styrki til pólitískra verkefna, svo fremi að þau geti rökstutt þörfina og sýnt fram á almennt gildi starfsins fyrir samfélagið og ég vil leggja áherslu á þetta atriði. Það er alls ekki ætlan okkar sem flytjum þessa tillögu að hér verði til sjóður til að ganga í eða reka einhverja óskilgreinda starfsemi en auðvitað ekki heldur að reglur og skilyrði verði svo ströng og stíf að það hefti frumkvæði og kraft stórra og smárra hópa þótt e.t.v. skorti eitthvað á formið og skipulagið.

Aukið samstarf á alþjóðavettvangi er ein hlið þessarar starfsemi sem við erum að leggja til að verði stutt við en slíkt samstarf snertir jafnt kvennapólitískt starf og aðra þætti samfélagsins. Reynslan hefur sýnt að á Íslandi er mjög mikill áhugi á þátttöku í alþjóðlegu kvennapólitísku starfi og þarf ekki annað en minna á þátttöku íslenskra kvenna í Nordisk Forum, í Peking-ráðstefnunni og ráðstefnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Valmiera í ágúst 1997. Íslensk stjórnvöld studdu ferðir íslenskra kvenna á ráðstefnurnar og tryggði sá stuðningur mikla þátttöku og virkni fyrir og meðan á ráðstefnunum stóð. En ráðstefnuferðir eru lítils virði ef ekki eru tök á að fylgja þeim eftir og á þessum ráðstefnum mynduðu Íslendingar tengsl sem síðan reyndist erfitt að rækta áfram vegna fjárskorts.

Rétt er að geta þess að hugmyndin að þessari tillögu til þál. kemur frá norskri stjórnsýslu. Barna- og fjölskyldumálaráðuneytið norska auglýsir árlega styrki til kvennapólitískrar upplýsingastarfsemi og einnig styrki til kvennapólitísks alþjóðastarfs. Styrkirnir hafa tryggt þann jarðveg sem er nauðsynlegur fyrir frjótt starf. Þar í landi er farvegur fyrir samráð og gagnkvæmt upplýsingaflæði á milli stjórnvalda og kvennahreyfingarinnar og með tilliti til þess leggjum við til að með markvissri áætlun verði tryggðar greiðar boðleiðir milli félaga og hópa annars vegar og stjórnvalda hins vegar með samstarfs- og upplýsingafundum.

Það er tæpra tveggja áratuga hefð fyrir slíkum samráðsfundum í norska barna- og fjölskyldumálaráðuneytinu og gagnkvæmu upplýsingaflæði milli ráðuneytis, stofnana, frjálsra félagasamtaka og baráttuhópa sem getur komið að góðu gagni fyrir alla aðila. Sem dæmi um hver áhrif það gæti haft ef komið væri á greiðari boðleiðum þarna á milli má nefna að ráðuneytin tryggja að kvennasamtökin, norska kvennahreyfingin, viti hvað er að gerast úti í heimi og hjá þessum alþjóðasamtökum sem vísað var til í upphafi. T.d. má minna á fund sem haldinn var í kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna í New York á síðasta ári sem Íslendingar vissu ekki einu sinni um og fengu auðvitað engan stuðning til að taka þar þátt. Frá Noregi fóru sjö fulltrúar kvennahreyfingarinnar, bæði opinberir fulltrúar og fulltrúar kvennahópa þar sem rætt var í seminörum og pallborðsumræðum um Peking-áætlunina og hvernig ætti að vinna henni framgang. Þetta er svona dæmi um að hvaða gagni aukið samráð og upplýsingaflæði gæti komið. Einnig má nefna að íslensk stjórnvöld þurfa að bera hugmyndir sínar undir félagasamtök þegar um er að ræða ákvarðanir sem varða áhuga- og baráttumál þeirra. Það er auðvitað gert að sumu leyti en kannski ekki nógu markvisst. Það er engin spurning að fengur er í því fyrir íslenska stjórnsýslu að nýta reynslu og þekkingu sem safnast hefur saman innan kvennahreyfingarinnar. Í mörgum tilvikum er þar um sérfræðikunnáttu að ræða sem er nauðsynlegt fyrir opinbera aðila að hafa aðgang að. Einnig ætti að kappkosta að kynna kvennahreyfingunni hugmyndir og fyrirætlanir sem opinberir aðilar vinna að og hafa um þær samráð vegna þess, eins og segir í niðurlagi þessarar greinargerðar:

,,Ef lögð er rækt við að fanga góðar hugmyndir eins og lýst er hér að framan má skapa umhverfið sem þarf til þess að kvennahreyfing og stjórnvöld í sameiningu geti í raun jafnað stöðu kynjanna.``

Ég ætla þá ekki að fara fleiri orðum um tillöguna, herra forseti, en legg til að að lokinni umræðunni verði henni vísað til síðari umr. og hv. félmn.