Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 13:38:38 (3359)

1999-02-09 13:38:38# 123. lþ. 61.6 fundur 223. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (vöruþróunar- og markaðsdeild) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[13:38]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum. Frv. þetta er á þskj. 250 og er 223. mál þingsins.

Þrátt fyrir að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hafi enn ekki starfað nema í eitt ár er talsverð reynsla komin á starfsemi hans. Hún er að mestu góð en þó hafa skoðanir manna þróast á þá lund að ástæða er til að breyta frá fyrri áformum um framtíð vöruþróunar- og markaðsdeildar Nýsköpunarsjóðs.

Í upphafi var áformað að fjármagni sem innheimt hafði verið með iðnlánasjóðsgjaldi um margra ára skeið og varðveitt var í vöruþróunar- og markaðsdeild Iðnlánasjóðs yrði varið í sérstök framlög til vöruþróunar og markaðsaðgerða samkvæmt ákveðnum reglum. Gert var ráð fyrir að á fyrstu þremur starfsárum Nýsköpunarsjóðs yrði þessum eignum deildarinnar ráðstafað. Að þeim tíma liðnum yrði deildin lögð niður og óráðstafaðar eignir lagðar til almennrar starfsemi Nýsköpunarsjóðs.

Sú reynsla sem fengin er af starfsemi Nýsköpunarsjóðs og vöruþróunar- og markaðsdeildar hans sérstaklega hefur sýnt að unnt er að nýta þá fjármuni á markvissari hátt á lengri tíma þrátt fyrir að þörfin fyrir framlög til vöruþróunar og markaðsaðgerða sé engu minni nú en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Brýnt er að það fjármagn sé tiltækt til slíkra verkefna í lengri tíma en þrjú ár, sem lög um Nýsköpunarsjóð miðuðu við í upphafi.

Eins og staðan er nú er fjármögnun þessara verkefna ekki tryggð að þessum þremur árum liðnum. Í raun má segja að ástæða sé til að efla enn frekar en núverandi geta Nýsköpunarsjóðs leyfir þann hluta opinberra stuðningsaðgerða sem lýtur að stuðningi við hagnýtar rannsóknir, frumstig vöruþróunar og forkönnun markaðssetningar. Hlutverk vöruþróunar- og markaðsdeildar Nýsköpunarsjóðs á frumstigi nýsköpunar er því mjög mikilvægt. Reynslan hefur sýnt að slíkar stuðningsaðgerðir hafa einkum reynst vel þegar þær hafa beinst að sérhæfðum verkefnum sem hafa skýr markmið og verklagsreglur. Dæmi um þetta eru ýmis verkefni sem rekin eru af Iðntæknistofnun, voru þróuð og fjármögnuð að verulegu leyti í samvinnu við iðnaðarsjóðina gömlu en eru nú rekin með samningi við Nýsköpunarsjóð.

Verkefni af þessu tagi eru þess eðlis að ekki er að vænta af þeim beins arðs eða endurgreiðslu fjármagns þó ætla megi að þau leiði til arðsamari fjárfestinga eða framleiðslu síðar meir. Með hliðsjón af framansögðu er lagt til að horfið verði frá fyrri áformum um að ráðstafa eigin fé vöruþróunar- og markaðsdeildar á þremur árum. Þess í stað verði miðað við að um óákveðinn tíma verði höfuðstóll deildarinnar ávaxtaður með hámarksávöxtun. Árlegt ráðstöfunarfé deildarinnar verði fyrst og fremst arður af höfuðstól hennar en auk þess hluti höfuðstólsins sem verkefnisstjórn deildarinnar og stjórn sjóðsins ákveði á hverjum tíma að verja til sérstakra stuðningsaðgerða fyrir atvinnulífið.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um ótímabundið hlutverk vöruþróunar- og markaðsdeildar og veitt heimild til að ganga á höfuðstól deildarinnar samkvæmt ákvörðun verkefnisstjórnar og stjórnar Nýsköpunarsjóðs.

Í 2. gr. frv. er 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða felld brott en það stendur að öðru leyti óbreytt. Í þessu felst að horfið er frá því að eignum deildarinnar verði ráðstafað í þrjú ár og deildin lögð niður að þeim tíma liðnum.

Ég tel ástæðu til að geta þess að um frv. þetta hefur verið rætt, bæði innan vébanda iðnaðar og einnig sjávarútvegs og um það ríkir full sátt. Frv. er einfalt í sniðum og þarfnast ekki ítarlegra skýringa. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla nánar um það að svo komnu máli. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.