Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 13:47:41 (3364)

1999-02-09 13:47:41# 123. lþ. 61.6 fundur 223. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (vöruþróunar- og markaðsdeild) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[13:47]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Frv. sem hæstv. viðskrh. mælti fyrir lætur e.t.v. ekki mikið yfir sér. Í því eru samt fólgnar verulegar breytingar frá því sem var þegar sjóðurinn var settur á laggirnar. Ég vil fyrst taka fram að pólitískur ágreiningur var um stofnun Nýsköpunarsjóðs á hinu háa Alþingi. Lögin voru afgreidd hér fyrir rúmu ári þannig að ekki er komin mikil reynsla á starfsemi sjóðsins.

Ég og fleiri þingmenn héldum því fram að það að búa til sérstakan sjóð til að efla nýsköpun í atvinnulífinu væri röng stefna, nær væri að huga að almennum aðgerðum sem hjálpað gætu til við nýsköpun. Hægt er að nefna nokkra þætti í þeim efnum, til að mynda á sviði skattamála, að þróun og rannsóknarstarfsemi njóti sérstakra skattaívilnana með sérstakri áherslu á menntamál, það væri ekki hvað síst hægt í gegnum tekjuskattskerfið. Hér er ekki úr vegi að nefna að ég hef einmitt lagt fram tillögu um að lækka tekjuskatt smærri fyrirtækja úr 30% niður í 20%. Það er hægt, herra forseti, að efla nýsköpun í samfélaginu með almennum aðgerðum.

Það var hins vegar ekki uppleggið með Nýsköpunarsjóði. Nýsköpunarsjóður tengist sömu aðferðum og ríkisstjórnin beitti þegar Fiskveiðisjóður Íslands, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður voru stokkaðir upp. Þá var búinn til Fjárfestingarbanki atvinnulífsins og hluta af eigin fé sjóðanna var varið til að setja á laggirnar Nýsköpunarsjóð.

Miklar deilur risu, herra forseti, þegar þessir sjóðir voru stofnaðir m.a. við samtök atvinnurekenda. Þau höfðu greitt inn í þessa sjóði, bæði Fiskveiðasjóð og Iðnlánasjóð og þeim deilum lauk með samkomulagi um að þessi samtök færu með alla stjórn í viðkomandi sjóðum meira og minna. Deilur um eignarhald t.d. á Fiskveiðisjóði hafa hins vegar staðið mjög lengi.

Deilan var við samtök iðnrekenda um iðnlánasjóðsgjald. Þeir töldu sig eiga það framlag og var það leyst þannig að sett var á laggirnar deildin sem við erum að ræða hér um, deild í Nýsköpunarsjóði, vöruþróunar- og markaðsdeild. Öll þau mál einkenndust af hrossakaupum milli ríkisstjórnarinnar og forsvarsmanna atvinnulífsins, þau tengdust ekki verkalýðshreyfingunni á nokkurn máta. Hún kom hvergi að þessu máli en fyrst og fremst samtök vinnuveitenda innan Vinnuveitendasambandsins, samtök iðnrekenda og Landssamband ísl. útvegsmanna auk þess sem Verslunarráðið og Kaupmannasamtökin áttu þar aðild.

Forsagan er hv. alþm. kunn. Ég lagði mikla áherslu á að ég teldi aðferðirnar ekki réttar. Við þekkjum frekar slaka sögu Byggðasjóðs, stofnun Byggðasjóðs og eflingu hans. Þar var reynd sama hugmyndafræði og bjó á bak við stofnun Nýsköpunarsjóðs.

Í þingsölum minnast menn þess að læsa þurfti saman meiri hlutann, sem var ekki alveg nógu hrifinn af þessum ætlunum, með því að taka einn milljarð af eigin fé Fjárfestingarbankans og eyrnamerkja sérstaklega starfsemi á landsbyggðinni. Það dugði til að nokkrir landsbyggðarþingmenn styddu þær hugmyndir og afgreiddu sem lög frá Alþingi.

Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að rifja forsöguna upp til að sýna að þetta hefur verið álitamál, að pólitískur ágreiningur hefur verið um þetta efni. Það er broslegt að hlusta á orðaskipti hv. þm. Péturs H. Blöndals og hæstv. viðskrh. um þetta mál, en hv. þm. talar eina ferðina enn líkt og hann eigi ekki aðild að þessari ríkisstjórn. Frv. er stjórnarfrv., hefur verið afgreitt í þingflokki Sjálfstfl., ég geri fastlega ráð fyrir því. Ég spyr ekki einu sinni hæstv. ráðherra hvort þetta njóti stuðnings ríkisstjórnarflokkanna. Ég veit það, þrátt fyrir að hv. þm. Pétur H. Blöndal sjái sig öðru hverju knúinn til að koma upp og slá sig til riddara með því að leggjast gegn málum sinnar eigin ríkisstjórnar en fylgir því síðan aldrei eftir í atkvæðagreiðslum. Það er hins vegar ekki mitt vandamál, hann er bundinn af sannfæringu sinni og hefur vitaskuld rétt til að haga málflutningi sínum eins og hann vill. Það snertir hins vegar ekki málið sem við ræðum hér.

Ég tel frv. ekki nauðsynlegt þó ég sé á móti Nýsköpunarsjóðnum en það eru lög og ég virði vitaskuld vilja meiri hluta og vinn eftir þeim lögum. Ég tel hins vegar ekki komna nægjanlega reynslu á þennan sjóð. Ég hef ekki séð þessa jákvæðu reynslu sem hæstv. ráðherra talar um. Ég tel ekki tímabært að dæma um það á þessu stigi málsins, hvað sem seinna verður. Ég vil benda á að vöruþróunar- og markaðsdeildin á samkvæmt núgildandi lögum að starfa í þrjú ár. Að vísu er í lögunum gert ráð fyrir að eyða öllu fé deildarinnar á þeim þremur árum. Hin raunverulega efnisbreyting sem gerð er í þessu frv. er að segja: Við viðhöldum deildinni og göngum ekki á stofnfé sjóðsins. Reyndar er veitt heimild til þess í frv. En meginupplegg frv. er, og hæstv. viðskrh. rökstuddi það, að menn telja að góð reynsla sé af þessari sérstöku deild og vilja ekki eyða fé deildarinnar á þremur árum eins og upphaflega var ákveðið heldur gera deildina varanlega í starfsemi sjóðsins.

Ég tel ekki tímabært að kveða upp úr um það, einfaldlega vegna þess að við þurfum að fá betri upplýsingar um málið. Ég bendi á að það sem þessi deild hefur gert, þ.e. þróunarverkefni, kynningarverkefni og forathuganir --- hún hefur afmarkað starfssvið með styrkveitingum og öðru slíku --- getur Nýsköpunarsjóður fellt undir almenna starfsemi sína. Ekkert gerir það að verkum að starfseminnar vegna þurfi að reka þessa sérstöku deild.

Hluti af starfsemi deildarinnar og reyndar sjóðsins eru styrkveitingar. Ég held að í lögum sé ekki kveðið á um birtingu upplýsinga um styrkveitingar úr sjóðnum. Það yrði að skoða betur í nefndarstarfinu. Við munum að opinber umræða hefur átt sér stað um styrkveitingar sem tengdust þessu sjóðaumhverfi, reyndar ekki Nýsköpunarsjóðnum heldur frá fyrri tíma. Auðvitað er mjög mikilvægt að þess sé gætt í lögum að allar upplýsingar liggi fyrir og tortryggni skapist ekki varðandi styrkveitingar úr slíkum sjóði.

Ég teldi eins koma til greina að leggja deildina niður og fella fé hennar inn í sjóðinn ef menn vilja fara þá leið, ef menn vilja ekki eyða öllum peningunum, eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Ég tel ekki tímabært á þessu stigi málsins, herra forseti, að lögfesta starfsemi slíkrar deildar á fyrsta ári sjóðsins. Það breytir ekki þeirri grundvallarafstöðu minni að það mat að Nýsköpunarsjóður sé til styrktar íslensku atvinnulífi er rangt. Hægt væri að fara fjölmargar aðrar leiðir sem mundu styrkja betur nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Það er vissulega nauðsynlegt og ég hef gert ýmsar tillögur í þá átt, án þess að ástæða sé til að fara lengra í það á þessu stigi málsins.