Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 13:59:56 (3368)

1999-02-09 13:59:56# 123. lþ. 61.6 fundur 223. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (vöruþróunar- og markaðsdeild) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég má til með að leiðrétta nokkur atriði sem hv. þm. hafði um mína persónu áðan. Hann sagði að ég fylgdi aldrei skoðunum mínum eftir í atkvæðagreiðslum á hinu háa Alþingi. Ég væri á móti málum til að slá mig til riddara en fylgdi þeim svo ekki eftir. Ég tel einmitt að ég hafi mjög oft fylgt mínum málum eftir til enda, verið á móti málum og stjórnarfrv. Þetta er því ekki rétt fullyrðing hjá hv. þm.

Varðandi það hvort ég sé stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, þá er ég það vegna þess að þetta er ekki eina málið sem ríkisstjórnin flytur og þau mál sem ég hef verið á móti hafa ekki verið einu málin sem ríkisstjórnin flytur. Ég er mjög ánægður með störf ríkisstjórnarinnar. Ég er mjög ánægður með að tekist hefur að ná niður verðbólgu. Ég er mjög ánægður með að tekist hefur að halda genginu stöðugu. Ég er mjög ánægður með að umhverfi fyrirtækja hefur batnað þannig að laun hafa stórhækkað sem aldrei fyrr og að atvinnuleysið er horfið. Ég er mjög ánægður með þessi störf ríkisstjórnarinnar og styð hana heils hugar í þeim efnum, en það er ekki þar með sagt að ég fylgi henni í einu og öllu. Í þessu máli hvað varðar Nýsköpunarsjóðinn þá var ég á móti því að hann yrði stofnaður og ég man ekki betur --- ég þyrfti nú að fletta því upp --- en að ég hafi greitt atkvæði gegn því að stofna Nýsköpunarsjóðinn.