Verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 14:07:08 (3371)

1999-02-09 14:07:08# 123. lþ. 61.7 fundur 224. mál: #A verðbréfasjóðir# (innlendir sjóðir) frv., ÁE (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[14:07]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég sé mig tilneyddan til að kveðja mér hljóðs og nýta mér þann rétt í þingsköpum til að bera af mér sakir. Það er vegna þeirra ummæla sem féllu áðan af hálfu hæstv. viðskrh. í umræðu um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Þar hélt hann því fram að ég hefði greitt atkvæði með því frv. Ég rifjaði upp í þeirri umræðu hvernig afstaða mín hefði verið á sínum tíma og ég sé mig því tilknúinn að benda á staðreyndir í því máli og vekja athygli á því að hæstv. ráðherra fór með ósannindi.

Við 2. umr. málsins var ég aðili að minnihlutaáliti sem kom til atkvæða um að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það var fellt m.a. með atkvæðum hæstv. viðskrh. En þegar málið kom til lokaafgreiðslu í þinginu, 3. umr., sem hæstv. ráðherra væntanlega vísar til, þá sögðu stjórnarliðar já við frv. Fjölmargir stjórnarandstæðingar sátu hjá og þar á meðal ég. Hæstv. viðskrh. fór því með ósannindi áðan í umræðunni og var þar að auki ósmekklegur gagnvart mér persónulega í þeim málflutningi, eins og menn sáu, en það lýsir honum betur. En ég get ekki, herra forseti, búið við það að hæstv. ráðherra fari með ósannindi um afstöðu mína.