Verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 14:12:41 (3374)

1999-02-09 14:12:41# 123. lþ. 61.7 fundur 224. mál: #A verðbréfasjóðir# (innlendir sjóðir) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[14:12]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem við erum að ræða, um breytingu á lögum um verðbréfasjóði, tengist heildarlöggjöf um sjóðina sem var afgreidd 1993. Við breyttum þeirri löggjöf 1996. Hér þarf að hafa í huga að löggjöf um verðbréfasjóði og reyndar öll okkar löggjöf eða flestallir þættir í löggjöf okkar á viðskiptasviði eru vegna EES-samningsins. Þess vegna má segja að sú löggjöf sé á margan hátt betri, vandaðri og nútímalegri en ýmsir aðrir lagaþættir hjá okkur.

Það er brýnt, herra forseti, að huga að breytingum á þessum lögum eins og gert er í þessu frv. einfaldlega vegna þess að verðbréfasjóðir og þeir þættir sem tengjast fjármagnsmarkaðnum hafa eflst það mikið á undanförnum árum að mjög brýnt er að við höfum sem vandaðasta löggjöf. Í frv. kemur m.a. fram að verðbréfasjóðir eru að verða meiri uppspretta sparnaðar, sem er mikil nauðsyn í samfélagi okkar, og að 50 milljarðar eru nú þegar í þessum sjóðum. Það hefur aukist og mun aukast verulega.

Þessi starfsemi verðbréfasjóðanna er vaxandi, hún er alþjóðleg og hún er vettvangur ungs fólks. Sóknarfæri eru fólgin í starfsemi á þessu sviði. Breytingin sem gerð er í frv. er sú að heimila starfrækslu sjóða sem starfa einungis í heimalandi en hafa meira svigrúm til fjárfestinga en einungis í verðbréfum. Hér er verið að laga löggjöf okkar að þeim rýmri heimildum sem ríkja á EES-svæðinu og ég tel það vera jákvætt.

Ég vek hins vegar sérstaka athygli á 4. gr. frv. þar sem rætt er um takmarkanir á því hvað sjóðirnir mega fjárfesta á einstökum sviðum. Til dæmis má ekki fjárfesta meira en 35% í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda. Þetta þak var áður 10%. Vitaskuld þarf að skoða í nefnd hvort hér séu veittar of rúmar heimildir. Í sömu grein er einnig talað um að fjárfestingar í öðrum verðbréfasjóðum megi ekki vera meiri en 35% bundið því að fjárfest sé í fimm sjóðum. Þessi takmörk voru áður 5%. Ég er ekki að gera þessi atriði í sjálfu sér að umtalsefni heldur einungis að benda á að þessi þök verða vitaskuld að koma til vandlegrar skoðunar eins og venja er í þingnefnd.

Sömuleiðis er kveðið á um þátttöku í afleiðuviðskiptum sem eru nýbreytni í fjármálaheiminum á síðustu árum, þar sem gerðir eru samningar sem tengjast verðbreytingum annarra þátta eða eigna. Umtalsverð viðskipti hafa átt sér stað með þetta í heiminum eins og menn þekkja. Stundum hafa menn ekki gætt sín í þessu nýja umhverfi peningamála og við þekkjum fjölmörg dæmi um það að menn hafi reist sér hurðarás um öxl, eins og gjaldþrotið í Singapúr sýndi á sínum tíma. Það er ljóst, herra forseti, að við erum komin inn á nýtt atvinnusvæði fjármagnsins sem er geysilega öflugt og sterkt. Það má líkja þessu við það að við séum komin inn á sambærilegt svið í uppsprettu framleiðsluþátta eins og kolin voru á sínum tíma. Það er kannski ekki svo fráleitur samanburður, því vöxturinn á þessu sviði í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum hefur verið gífurlega mikill. Við sjáum að alls konar skrýtnir hlutir geta gerst í verðbréfaviðskiptum og mér finnst þau tvö dæmi sem þekkt eru úr alþjóðaviðskiptum nokkuð skemmtileg þegar verðbréfasalarnir í tveimur tilvikum, annars vegar í Frakklandi og hins vegar í Bretlandi, ráku sig í tölvuna og gáfu þannig fyrirmæli um tafarlausa sölu sem leiddi til smávægilegs verðfalls. En þessi dæmi sýna meira á gamansaman hátt í hvernig umhverfi þessi viðskipti eru komin, hvað hraðinn og umfangið er mikið.

Meginafstaða mín gagnvart þessu frv. er að styðja það. Ég tel það vera jákvætt að rýmka starfsheimildir verðbréfasjóða eins og lagt er til í frv. Það þarf að skoða ýmsa þætti í því og það verður gert í þeirri nefnd sem fær það til umfjöllunar, og ég á sæti í. Við höfum lagt okkur fram í efh.- og viðskn. Alþingis að fylgjast vel með þeim breytingum sem eru að gerast í verðbréfaviðskiptum og alþjóðlegum verðbréfamarkaði og ég tel að þetta frv. hjálpi til við að búa til eins nýtískulega umgjörð og hægt er.