Verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 14:17:02 (3375)

1999-02-09 14:17:02# 123. lþ. 61.7 fundur 224. mál: #A verðbréfasjóðir# (innlendir sjóðir) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem varð hér áðan um stuðning við ríkisstjórnina, þá er þetta mál einmitt eitt af þeim málum sem veldur því að ég styð ríkisstjórnina. Þetta er hið besta mál og þetta er mjög gott mál. Hér er verið að auka frelsi og auka mjög mikilvægan þátt í fjármagnsmarkaðnum og ég er mjög ánægður með að hæstv. iðn.- og viðskrh. leggur þetta frv. fram. Hér er verið að auka enn frekar svigrúm verðbréfasjóða og það gleður mig sérstaklega vegna þess ég átti þátt í að stofna fyrsta verðbréfasjóðinn á Íslandi og hef alltaf verið mjög mikill áhugamaður um vöxt þeirrar greinar atvinnulífsins.

Í verðbréfasjóði nýtur eigandinn ávöxtunarinnar öndvert við það sem gerist þegar hann leggur inn peninga til ávöxtunar í banka og þar af leiðandi er miklu meiri krafa um arðsemi í verðbréfasjóði en í bankainnlánum sem aftur veldur því að miklu meiri krafa er um arðsemi til fyrirtækja sem taka þessi lán og ég tel að arðsemiskrafa í atvinnulífinu sé af hinu góða.

Varðandi það sem kom fram áðan um 4. gr., að heimilt sé að kaupa allt að 35% í einstökum verðbréfasjóðum, þá gætti þar ákveðins misskilnings vegna þess að það má fjárfesta allt að 35% í verðbréfasjóði en verðbréfasjóður hlítir aftur á móti þessum sömu lögum um áhættudreifingu. Það er því ekki mikil áhætta fólgin í því að kaupa 35% í einum verðbréfasjóði sem aftur er með mikla áhættudreifingu. En þetta þarf að sjálfsögðu að skoða í hv. efh.- og viðskn. sem fær málið til umfjöllunar, og þar á ég sæti og mun væntanlega skoða þetta atriði sem hér kom fram áðan um áhættudreifingu. En það er afar mikilvægt að þeir aðilar sem starfa á fjármagnsmarkaði gæti vel að áhættudreifingu og ég er þeirrar skoðunar að hver einstök áhætta í slíkum sjóðum ætti aldrei að fara upp fyrir segjum 2--3%.