Aðgerðir gegn peningaþvætti

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 14:26:08 (3377)

1999-02-09 14:26:08# 123. lþ. 61.8 fundur 226. mál: #A aðgerðir gegn peningaþvætti# (gjaldsvið o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[14:26]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Örstutt. Ég styð þetta frv. Hér er verið að koma í veg fyrir það að glæpamenn og aðrir sem stunda ólöglega starfsemi geti þvegið peninga sína, þ.e. breytt þeim úr ólöglega fengnum peningum yfir í peninga sem sýnast vera löglega fengnir og er mjög mikilvægt að komið sé í veg fyrir slíkt. Alþjóðleg samstaða er í gangi um að hindra slíka starfsemi. Aukið peningaþvætti stafar að sjálfsögðu af því að með stórauknum alþjóðlegum samskiptum og frelsi í flutningum á fjármagni með miklum vexti óefnislegra eigna, þ.e. hugbúnaðar- og framtíðarhagnaðarfyrirtækja, hafa möguleikar manna aukist, sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu, að komast yfir peninga ólöglega. Til að geta nýtt þá peninga þurfa þeir aðilar að breyta þeim í löglega fengna peninga eða peninga sem sýnast vera löglega fengnir og þess vegna nota þeir peningaþvætti.

Allt þetta miðar að því að auka heiðarleika og gott siðferði í þjóðfélaginu en ég tel að heiðarleiki og gott siðferði í atvinnulífi, sem og meðal fólks almennt, sé verðmæti sem sé þjóðfélaginu mjög mikils virði og sennilega ein dýrmætasta auðlind hverrar þjóðar að hafa gott siðferði. Menn skyldu ekki gleyma því að í þeim löndum sem vegnar illa í dag er yfirleitt og má segja alltaf slæmt siðferði. Við skulum bara setja okkur í þau spor, herra forseti, að við ætlum að gera samninga og við treystum gagnaðilanum 100%. Þá verður samningagerðin ákaflega einföld og allur kostnaður við það að hindra að verið sé að svíkja og pretta fellur niður, ef við getum treyst gagnaðilanum 100%. Það er einmitt dæmi um gott siðferði að menn geti 100% treyst gagnaðilanum sem þeir eiga viðskipti við og þess vegna er heiðarleiki og gott siðferði ein verðmætasta auðlind hverrar þjóðar og þetta frv. stuðlar að því að gott siðferði haldist við og aukist.