Brunatryggingar

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 14:48:57 (3380)

1999-02-09 14:48:57# 123. lþ. 61.10 fundur 388. mál: #A brunatryggingar# (lækkun brunabótamats van- eða ónýttra húseigna o.fl.) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[14:48]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 659 sem er 388. mál þingsins, um breyting á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, með síðari breytingum.

Að undanförnu hefur orðið vart gagnrýni á lög um brunatryggingar og framkvæmd þeirra. Einkum hefur þeirrar gagnrýni orðið vart hjá Bændasamtökum Íslands. Telja þau að framkvæmd þeirra komi sérstaklega hart niður á bændum þar sem nokkuð kveði að van- eða ónýttum húseignum á jörðum vegna breyttra búskaparhátta og að dæmi séu um að húseignir til sveita hafi að undanförnu verið endurmetnar með tilheyrandi hækkunum brunatryggingariðgjalda og þeirra skatta og gjalda sem taka mið af brunabótamati.

Af þessu tilefni og einnig vegna ábendinga um að huga þurfi að endurskoðun gildandi ákvæða um tilhögun brunabótamats skipaði ég nefnd til þess að gera tillögur um endurskoðun á lögunum.

Vegna gagnrýni Bændasamtakanna ákvað nefndin að rita hagsmunaaðilum og tilteknum opinberum aðilum og óska eftir viðbrögðum þeirra við þeirri hugmynd að breyta eða afnema skyldu húseigenda til þess að hafa húseignir brunatryggðar. Nánar er hér um að ræða tvær hugmyndir. Annars vegar að aðilum í atvinnurekstri verði það í sjálfsvald sett hvort þeir hafi brunatryggðar þær húseignir í eigu þeirra sem nýttar eru í atvinnurekstrinum. Hins vegar að eigendur atvinnurekstrarhúsnæðis geti óskað eftir undanþágu frá brunatryggingarskyldu og að undanþágan verði háð samþykki viðkomandi sveitarstjórnar og veðhafa, ef einhverjir eru.

Rétt er að fram komi að hugsanlegar breytingar á skyldutryggingu húseigna hafa áhrif á fleira en iðgjöld brunatrygginga og bætur vegna bruna. Þau iðgjöld, gjöld og skattar sem reiknuð eru sem hlutfall af vátryggingarfjárhæðum og vátryggingafélögunum er gert að innheimta eru brunavarnagjald, umsýslugjald, iðgjöld viðlagatryggingar, svo og gjald til Ofanflóðasjóðs. Raunar er það svo að þessir skattar og gjöld til opinberra aðila vega mun þyngra en sjálft brunatryggingariðgjaldið. Má reikna með að þessi viðbótargjöld nemi um 80--85% af meðalinnheimtu á því gjaldi sem lagt er á meðalhúseign. Afnám skyldubrunatryggingar mundi því þýða tekjutap bæði fyrir Viðlagatryggingu Íslands og Ofanflóðasjóð nema til kæmu nýir tekjustofnar.

Þeir hagsmunaaðilar og opinberir aðilar sem gerðu nefndinni grein fyrir áliti sínu á framangreindum hugmyndum voru Vátryggingaeftirlitið, Samtök iðnaðarins, Samband íslenskra viðskiptabanka, Bændasamtök Íslands, Viðlagatrygging Íslands, Vinnumálasambandið, Samband íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra tryggingafélaga, umhverfisráðuneytið, Fasteignamat ríkisins, Brunamálastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Aðeins Bændasamtökin lýstu sig fylgjandi því að aðilum í atvinnurekstri ætti að vera það í sjálfsvald sett hvort þeir brunatryggðu húseignir sem notaðar eru í atvinnurekstri. Aðrir vildu viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi.

Frv. þetta gerir engu síður ráð fyrir þeim möguleika að lækka megi brunabótamat tiltekinna húseigna umfram það sem matið hefði ella orðið að uppfylltum skilyrðum. Vart verður með sanngirni litið fram hjá þeim breytingum sem átt hafa sér stað hin seinni ár vegna samdráttar í hefðbundnum landbúnaði sem og vegna breyttra búhátta sem einkum snerta bændur.

Herra forseti. Mun ég nú fjalla stuttlega um helstu nýmæli í frv.

Um 2. gr. Til þess að tryggja einsleitni við mat á húseignum, hvort sem er við fasteignamat eða við brunabótamat, er talið nauðsynlegt að einn aðili hafi matsgerðina með höndum. Því er lagt til í frv. að Fasteignamat ríkisins sjái eitt um þessar matsgerðir. Hjá stofnuninni eru fyrir hendi þær upplýsingar, verklagsreglur og sérþekking sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja einsleitni og að mat verði unnið samkvæmt faglegum kröfum. Í þessu sambandi er vert að vekja sérstaka athygli á að bæði brunabótamat og fasteignamat eru grundvöllur skattlagningar. Auk þeirra skatta sem áður hefur verið gerð grein fyrir og reiknast af brunabótamati má hér nefna skipulagsgjald. Sömu matsmenn meta eignir bæði til fasteignamats og brunabótamats og almennt er miðað við að samtímis sé unnið að þeim. Hefur það og orðið svo í reynd að Fasteignamat ríkisins hefur metið langflestar eignir til brunabótamats eftir gildistöku laga nr. 48/1994, en ekki dómkvaddir matsmenn.

Grein þessi gerir einnig ráð fyrir því að stofnuninni sé heimilt að meta húseignir á grundvelli upplýsinga sem fyrir hendi eru. Ekki þurfi að meta á grundvelli skoðunar á staðnum ef að mati stofnunarinnar liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar. Á þetta við bæði um fyrsta mat og endurmat.

Greinin gerir einnig ráð fyrir því að Fasteignamati ríkisins sé heimilt að lækka brunabótamat frá því sem það ella hefði orðið ef húseign er í mjög lélegu ástandi eða hefur verið tekin úr notkun. Er ákvæði þetta einkum tilkomið vegna gagnrýni Bændasamtaka Íslands á að ekki skuli hægt samkvæmt gildandi lögum að taka tillit til búháttarbreytinga og samdráttar í hefðbundnum landbúnaði við mat á útihúsum á jörðum eins og þegar hefur komið fram hér að framan. Ekki þykir rétt að einskorða möguleika til sveigjanlegs mats við bújarðir heldur sé miðað við að heimild þessi sé almenn. Þá gerir frv. ráð fyrir að heimildin verði ekki nýtt nema að fengnu samþykki sveitarstjórnar þar sem viðkomandi húseign er staðsett. Fasteignamati ríkisins er einnig gert að tilkynna vátryggingafélagi sem hefur verið með viðkomandi húseign í brunatryggingu og veðhöfum um lækkun brunabótamatsins. Ekki er gert ráð fyrir að afla þurfi samþykkis félags eða veðhafa en þeim er í sjálfsvald sett að meta hvort lækkun brunabótamats gefur tilefni til aðgerða af þeirra hálfu.

Um 3. gr. Efnislega lýtur breyting á greininni að því að skilgreina hvert skjóta megi ágreiningi sem upp kann að rísa, annars vegar um bótafjárhæð, í þeim tilvikum þegar ekki er um endurbyggingu húseignar í upprunalegt horf að ræða, og hins vegar þegar sveitarstjórn leysir til sín húseign vegna eldhættu eða af skipulagsástæðum.

Ágreiningi um bótafjárhæð í öðrum tilvikum en þeim sem fjallað er um í 2. og 3. mgr. gerir frv. ráð fyrir að vísað sé til dómstóla.

Varðandi 7. gr. Óvissa er um túlkun ákvæða gildandi laga um yfirmat. Sú leið hefur verið farin að í 11. gr. reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna er kveðið á um að skjóta megi málum til gerðardóms rísi ágreiningur um brunabótamat eða um bótafjárhæð.

Greinin gerir ráð fyrir að yfirfasteignamatsnefnd taki til úrskurðar ágreining sem upp kann að koma um brunabótamat. Slíkt horfir til einföldunar og er til þess fallið að stuðla að nauðsynlegri samræmingu við framkvæmd laganna.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til efh.- og viðskn.