Álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 15:23:09 (3384)

1999-02-09 15:23:09# 123. lþ. 61.12 fundur 359. mál: #A álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga# (breyting ýmissa laga) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga. Frv. þetta er fylgifrv. með því máli sem hér var mælt fyrir fyrir nokkrum mínútum og á að sjálfsögðu ekki erindi í lagasafnið nema hið fyrra mál nái fram að ganga.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að staðfesta þau skattalegu starfskjör sem gert er ráð fyrir í hinu fyrra frv. en til þess að þau áform nái fram að ganga þarf að breyta skattalögum í samræmi við þær tillögur sem fram koma í þessu frv.

Í frv. um alþjóðleg viðskiptafélög er ætlunin að skapa félögum sem sérstaklega eru stofnuð og starfrækt samkvæmt starfsleyfi hér á landi í því skyni að stunda viðskipti utan íslenskrar lögsögu samkeppnishæf skattaleg skilyrði samanborið við það sem annars staðar býðst. Í því frv. er nánar lýst hvernig þeirri starfsemi sem slík félög mega stunda verður hagað og er kveðið á um skilyrði fyrir starfsleyfi fyrir slíkri starfsemi. Rekstur alþjóðlegs viðskiptafélags skal vera fjárhagslega óháður og aðskilinn rekstri annarra aðila.

Samkvæmt því frv. sem ég mæli fyrir er gert ráð fyrir breytingum á ýmsum lögum að því er varðar tekjuskatt og eignarskatt, lögum um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga og lögum um stimpilgjald en samkvæmt þessum ákvæðum er gert ráð fyrir því að alþjóðleg viðskiptafélög greiði einungis 5% tekjuskatt en verði undanþegin eignarskatti og sérstökum eignarskatti og skjöl sem tengjast lögheimilli starfsemi þeirra verði stimpilfrjáls. Það skilyrði er ávallt sett að viðkomandi félag hafi starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags lögum samkvæmt.

Í frv. er einnig í sérstökum kafla kveðið á um breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir sérstöku skráningargjaldi alþjóðlegs viðskiptafélags með sérstöku árlegu gjaldi til að standa straum af kostnaði við eftirlit starfsleyfisnefndar. Gert er ráð fyrir að hvort gjaldið um sig verði 100 þús. kr. á ári.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta frv. sem eins og ég sagði er lagt fram samhliða hinu fyrra máli en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.