Álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 15:40:22 (3386)

1999-02-09 15:40:22# 123. lþ. 61.12 fundur 359. mál: #A álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga# (breyting ýmissa laga) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[15:40]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir jákvæða undirtekt við þetta mál og stuðning við frv. Ég er þess fullviss að málið fær ítarlega og efnislega umfjöllun í efh.- og viðskn. eins og önnur góð mál sem þangað er vísað. Það er rétt sem hann sagði að verið er að fara inn á þá braut að hagnýta skattkerfið til þess að reyna að örva efnahagslífið, kalla fram nýjungar og nýsköpun. En þó ekki síst til þess að kalla inn í landið starfsemi sem nú fer þar ekki fram, reyna að laða til landsins viðskipti og atvinnustarfsemi sem fer nú fram einhvers staðar annars staðar. Að því leyti til er ekki verið að kosta neinu til þó að skattprósentan sé höfð þetta lítil. Hún á að virka sem segull og aðdráttarafl fyrir þessa starfsemi. En ekki er þar með sagt að ríkið sé að afsala sér þeim mismun sem er á þessari prósentu og hinni hefðbundnu tekjuskattsprósentu því ella væri þessi starfsemi alls ekki hér í landinu.

Það er reyndar munurinn á þessu fyrirbæri og svo aftur skattafslætti í takt við það sem hv. þm. nefndi og hann hefur sjálfur lagt til, að þar er um að ræða beinan tilkostnað af hálfu ríkisins. Það getur vissulega í einhverjum tilfellum átt rétt á sér, eins og við höfum talið að gerði í þessum málum vegna þess að menn geta nú fengið upphæðina frádregna sem lögð er fram til styrktar menningarmálum og listum og reyndar stjórnmálaflokkum en þó ekki tvöfalda eins og þingmaðurinn leggur til en þar með er ríkið beinlínis að leggja fram fé á móti. Það er ekki með þessu frv. heldur er hérna verið að nota skattkerfið sem segul til að laða starfsemi inn í landið sem ella væri þar ekki og fer fram annars staðar eins og nú standa sakir.