Álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 15:53:37 (3390)

1999-02-09 15:53:37# 123. lþ. 61.12 fundur 359. mál: #A álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[15:53]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að taka undir með þeim þingmönnum sem fagna framkomu þessara tveggja frv. sem hér hafa verið rædd, það sem nú er til umræðu og hið fyrra mál, sem rætt var fyrr á þessum fundi, um alþjóðleg viðskiptafélög og skattlagningu þeirra. Mér sýnist að aðdragandinn hafi verið alllangur og kannski er þess vegna enn frekar ástæða til að fagna því að komin er niðurstaða í umræðu sem átt hefur sér stað innan stjórnkerfisins, bæði með þátttöku embættismanna, stjórnmálamanna og fjölmargra annarra á grundvelli hugmynda sem komu fram í upphafi þessa áratugar og var ætlað af þeim sem létu þær í ljósi að þær gætu leitt til þess að Ísland tæki ný og stór skref í nýsköpun, í aukinni fjölbreytni í atvinnustarfsemi með því að skapa hér það lagaumhverfi að erlend fyrirtæki, alþjóðleg fyrirtæki gætu starfað á Íslandi og ekki síst að nýta þá aðstöðu sem menn hafa þóst sjá í landfræðilegri stöðu Íslands milli meginlandanna. Ég hef hug á, herra forseti, að láta það koma fram að ég tel að með þessu sé ekki einungis skapaður sérstakur möguleiki og tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem markaðssetja afurðir sínar og vörur á alþjóðlegum mörkuðum, heldur einnig fyrir fyrirtæki erlendra aðila sem nú eða fram að þessu starfa öðrum megin úthafsins, til að mynda utan evrópska efnahagssvæðisins, en hyggja á markaðssetningu afurða sinna eða hvers konar viðskipta innan þess eða öfugt. Mér er kunnugt um að meðal aðila sem hafa fylgst með þessum hugmyndum hér á landi og hafa grannt fylgst með gerð þessara frumvarpa síðustu mánuði er að finna erlenda aðila sem hyggjast nýta sér landfræðilega stöðu Íslands, þennan lagagrundvöll sem með þessu kann að verða lagður og þá möguleika sem fólgnir eru í viðskiptum með stoð tölvunetsins sem er orðið alþjóðlegt fyrir alllöngu og Íslendingar eru sjálfir orðnir ágætir þátttakendur í að nýta. Þessir aðilar hyggjast nýta sér frumkvæði og hugkvæmni Íslendinga auk sinna eigin landsmanna til að koma viðskiptum á yfir miklar fjarlægðir og nýta sér ágæta aðstöðu hér við flugvelli og það sem þeir segja, tiltölulega frjálslynda löggjöf. Ég hygg að ástæða sé til fyrir okkur að íhuga þetta síðasta atriði, því við höfum oft rætt það hér í okkar hópi að löggjöf okkar sé alls ekki frjálslynd, hún sé jafnvel full miðstýringarkennd og skapi ekki mörg eða fjölbreytt tækifæri. En mér sýnist að með þessu sé horft til nýrrar áttar og ættu að skapast nýir og áður ókannaðir möguleikar.

Ég vil að lokum, herra forseti, nefna að mér sýnist að með þessu kynnum við að fá niðurstöðu í umræðu sem við hófum með því að skoða sérstaklega það sem við þá nefndum frísvæði. En fyrir þó nokkrum árum voru gerðir alþjóðlegir samningar sem við áttum aðild að með fleiri ríkjum sem virtust koma í veg fyrir mikla fjölgun frísvæða og raunar setja að öðru leyti þrengingar eða fækka möguleikum til að útfæra þau. Upp úr því sáum við og fulltrúar okkar í samningum við önnur ríki að þeim möguleikum fór fækkandi. En ég vænti þess að þessi tvö frumvörp skapi okkur ný færi að þessu leyti til að hefja nýja starfsemi, ekki aðeins okkur Íslendingum heldur öðrum aðilum til að hefja starfsemi frá Íslandi.