Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 16:15:31 (3392)

1999-02-09 16:15:31# 123. lþ. 61.13 fundur 149. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[16:15]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hér er til umræðu mikilvægt og merkilegt mál sem flutt er af fjölmörgum hv. þm. úr öllum flokkum að mér sýnist. Ég hef fyrir löngu áttað mig á því að staða ábyrgðarmanna er um margt mjög erfið. Eins er margt merkileg varðandi það hvernig staðið hefur verið að vali ábyrgðarmanna. Þessu áttaði ég mig fljótlega á eftir að ég byrjaði sem viðskrh. Því var eitt af mínum fyrstu verkum í því starfi að láta fara fram mat á því hversu víðtækar ábyrgðarveitingar væru á Íslandi. Ég setti á fót nefnd í samvinnu við banka, sparisjóði og neytendasamtök og í samvinnu við félmrh. lét ég fara fram slíka könnun. Það merkilega var, þegar kanna átti hversu víðtækar þessar sjálfskuldarábyrgðarveitingar þriðja aðila væru, að ekki var hægt að fá nein svör við því. Það var ekki hægt að fá nákvæmar upplýsingar um hversu margir Íslendingar væru í sjálfskuldarábyrgðum. Því var ekki um annað að ræða en að gera könnun, fá fyrirtæki til þess að kanna hvernig þessu væri háttað. Niðurstaða úr þeirri könnun, eins og hér hefur verið rakið, er að um 90 þúsund einstaklingar yfir 18 ára aldri séu í ábyrgð fyrir skuldbindingu þriðja aðila. Það er í kringum 47% allra Íslendinga á þessum aldri.

Þá er auðvitað eðlilegt að menn spyrji: Hvernig er þessu þá háttað annars staðar? Er þetta sambærilegt við það sem gerist annars staðar? Nei, niðurstaðan er sú að í kringum 10% heimila á Norðurlöndunum eru í slíkum ábyrgðum. Með öðrum orðum eru sjálfskuldarábyrgðir hér á landi miklu víðtækari og almennari en annars staðar.

Það er líka merkilegt að skoða það kom úr könnuninni. Talið er að um 80% ábyrgðarmanna ábyrgist bankalán. Minna í námslánum, greiðslukortum, bílalánum og lífeyrissjóðalánum. Langflestir ábyrgðarmenn hafa gengið í ábyrgðir vegna þess að börnin þeirra hafa beðið um það eða einhverjr nánir venslamenn.

Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir og reyndar fleiri upplýsingar, kom í ljós að gríðarlega margir höfðu lent í að greiða fjárhæðir upp á tugi ef ekki hundruð þúsunda króna, þ.e. þurft að greiða skuldir sem menn gengust í ábyrgð fyrir.

Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir fannst mér að menn stæðu frammi fyrir tvennu: Annars vegar að taka ákvörðun um það að banna ábyrgðarveitingar þriðja aðila eða að setja þær í einhverjar skorður með almennri lagasetningu. Þriðja leiðin, sem síðan varð ofan á, kom einnig til greina. Hún var sú að leita samkomulags um að draga úr þessu og nota í hófi. Niðurstaðan af því að banna ábyrgðarveitingar af þessu tagi hefði getað orðið til að skapa fleiri vandamál en það leysti. Einstaklingar sem þyrftu lán gætu ekki fengið þau nema geta sýnt fram á að þeir hefðu tryggingar. Tilgangurinn er auðvitað ekki að koma í veg fyrir, hvort sem það er í atvinnurekstri, í rekstri heimila eða hverju sem er, að menn geti farið í banka til að fá lán. Slíkt bann hefði leitt til slíkra hluta. Oft og tíðum eru þeir einstaklingar, sem eru tilbúnir til að ganga í ábyrgð gagnvart þriðja aðila, einnig tilbúnir til að axla þá ábyrgð sem því er samfara að þurfa hugsanlega að greiða viðkomandi skuld upp.

Hin leiðin, sem farin er í þessu frv. sem margt gott er um að segja og mér finnst athyglisverð fyrir margra hluta sakir eins og ég sagði í upphafi, er að setja skýrar reglur um þessa hluti, almennar og skýrar reglur.

Ljóst var að lánastofnunum, bönkum og sparisjóðum var kunnugt um hve alvarlegir hlutir væru þarna á ferðinni og gera yrði bragarbót á. Niðurstaðan varð sú að við gengum frá samkomulagi milli Sambands ísl. viðskiptabanka, Sambands ísl. sparisjóða, Kreditkorta hf., Greiðslumiðlunar hf., Neytendasamtakanna, viðskrh. og félmrh. um að draga úr notkun sjálfskuldarábyrgðar í lánveitingum. Markmiðið var að draga úr ábyrgðunum með því að leggja mat á greiðslugetu lántakenda og veita almennari upplýsingar en gefnar hafa verið til verndar ábyrgðarmönnum. Fjármálafyrirtækjum er gert skylt að leggja mat á greiðslugetu greiðenda ef ábyrgðarmaður óskar eftir því og ef skuldbindingin fer yfir 1 millj. kr. Ábyrgðarmanni skulu kynntar niðurstöður greiðslumatsins, hvaða möguleika viðkomandi lántaki hafi til þess að greiða svo ábyrgðarmanni sé ljóst hvaða ábyrgð hann muni taka. Fjármálafyrirtækjunum ber að upplýsa um vankanta á greiðslugetu viðkomandi greiðanda, þ.e. fyrirtæki er kannski tilbúið til að lána og ljóst að ábyrgðarmaðurinn getur staðið undir greiðslugetunni en kannski ekki viðkomandi lántaki. Þá er fjármálafyrirtækinu skylt að upplýsa ábyrgðarmanninn um slíkt.

Ég held að fullyrða megi að eftir að þetta samkomulag var gert, þá hefur dregið úr sjálfskuldarábyrgðum. Ég er með bréf frá Sambandi ísl. viðskiptabanka, sem þeir skrifa okkur 11. desember 1997 þegar samkomulagið er eins árs gamalt, sem sýnir ótvírætt fram á að strax sé farið að draga úr ábyrgðunum. Það er ekki mikið en hefur þó breyst til batnaðar. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

,,Hjálagt fylgja upplýsingar frá Reiknistofu bankanna um útbreiðslu sjálfskuldarábyrgða einstaklinga á lánum annarra einstaklinga í bankakerfinu. Sambærilegar upplýsingar voru sendar inn fyrir rúmlega ári síðan eða 25. nóvember 1996.``

Með samanburði á þessum gögnum má sjá að dregið hefur úr sjálfskuldarábyrgðum á þessum tíma, úr 67% af öllum víxlum, skuldabréfum og tryggingbréfum í 64%; úr 68% í 66 sé eingöngu er litið til víxla og skuldabréfa. Þetta gerist raunar áður en samkomulagið sem gert var hafði að fullu tekið gildi, því það hefur smátt og smátt verið að taka gildi á árinu 1998.

Ástæða þess að ég var tilbúinn að fara þessa leið en ekki að setja almenn lög um málið var sú að ég vildi fyrst láta reyna á hvort viðkomandi fjármálafyrirtæki væru tilbúin að breyta vinnubrögðum sínum. Ég tel að það hafi gerst. Ég tel að menn hafi séð, m.a. í upplýsingagjöf til sjálfskuldarábyrgðaraðila, að vinnubrögðin hafa breyst. Menn eru aðvaraðir með öðrum hætti, fá leiðbeiningar í hendur, upplýsingar um hvað þeir eru að takast á hendur ef þeir gerast sjálfskuldarábyrgðaraðilar og þar fram eftir götunum. Ég vil láta á þetta samkomulag reyna. Ég hef sagt, og gerði það þegar við gengum frá þessu samkomulagi, að við skyldum síðan endurmeta stöðuna að ákveðnum tíma liðnum og bera saman. Höfum við náð árangri á þessu sviði? Ef við höfum ekki náð árangri, og ég undirstrika það, ef við náum ekki árangri í því að draga úr þessum ábyrgðum og verðum ekki nokkurn veginn komin í sambærilegt horf og á hinum Norðurlöndunum þá tel ég fyllilega koma til greina og að setja lög um sjálfskuldarábyrgðir. Það yrði að gerast, hvort sem fjármálafyrirtækjunum líkaði betur eða verr, enda ekki hægt að búa við þetta ástand.